Þilskipið Valtýr RE 98 (áður Anna Breiðfjörð) var í eigu Brydes-verzlunarinnar. Skipstjóri á Valtý var Pétur Mikkel Sigurðsson, dugnaðarmaður mikill og einhver mesti aflamaður þilskipaflotans. Fiskaði hann með ágætum á Valtý, enda var skipið stórt og burðarmikið.
Árið 1919 hafði Pétur Mikkel verið með Valtý að vanda. Hafði honum löngum gengið vel að fiska, en að þessu sinni bar þó af. Varð Valtýr langhæstur allra handfæraskipa þetta ár, og var sem honum brygðist aldrei fiskur. Í vetrarbyrjun 1920 lagði Pétur Mikkel út á skipi sínu og hafði 30 manna áhöfn. Voru það að langmestu hinir sömu menn og verið höfðu með honum áður. Þar var valin maður í hverju rúmi, svo að naumast hafði nokkur skúta samhentari og ötulli skipshöfn.
Í febrúarmánuði 1920, þá er flest skip voru úti í fyrsta túrnum, voru veður með afbrigðum óstöðug og geisuðu stormar svo miklir, að þeir ollu hrakningum og tjóni á skipum. Einna verst veður gerði um mánaðarmótin febrúar og mars. Er talið að Valtýr hafi farist í því veðri. Hann hafði lagt út til veiða hinn 21. febrúar, en önnur skip urðu hans síðast vör 28. febrúar. Var þá að skella á versta veður, stormur og kafaldshríð. Sá bylur stóð í tvo sólarhringa.
Öll íslensku fiskiskipin skiluðu sér heilu og höldnu eftir veðrið, önnur en Valtýr. Hann kom aldrei fram. Ýmsir trúðu því að ásigling en ekki ofviðri hefði orðið honum að grandi. Gengu um það sögur að enskur togari hefði skýrt svo frá síðar, að hann hefði í byrjun garðsins séð Valtý og færeyskan kútter sem Kristine hét, nálægt hvor öðrum. Dembdi þá yfir svörtu éli svo að bæði skipin huldust sýn, en þegar upp birti nokkru síðar, var hvorttveggja horfið.
Kom hvorugt þeirra fram síðan, enda höfðu flestir það fyrir satt að þau hefðu rekist á í élinu, barist saman, brotnað í sjóganginum og sokkið. Einkennilegt var það, að svo sem Valtýr hafði fiskað langbest íslenskra þilskipa árið áður, hafði Kristine verið stórum aflahæst í flota Færeyinga á þeirri vertíð. Var það af sumum kallað feigðarafli síðar. Aldrei rak neitt úr Valtý, og ekkert upplýstist frekar um afdrif hans.
Eftir að Valtýr fórst komu fram sögur um feigðarboða. Hér er eitt dæmi um slíkt.
Með Valtý fórst 30 manna áhöfn, menn á aldrinum 18-47 ára. Kortið hér fyrir neðan sýnir hvaðan af landinu mennirnir komu.
Þessir menn fórust með Valtý RE 98:
Pétur Mikkel Sigurðsson, 43 ára, skipstjóri til heimilis að Stýrimannastíg 7 í Reykjavík.
Pétur fæddist þann 29. september 1876 á Rauðsstöðum í Auðkúluhr., V-Ís. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson (1842-1931) og Ásta Pétursdóttir (1838-1902) hjón á Rauðsstöðum, Auðkúluhr., V-Ís. og síðar Bíldudal.
Pétur fluttist ungur til Bíldudals, sem þá var með stærstu útgerðarstöðum á Íslandi. Þar fór snemma orð af honum sem framúrskarandi fiskimanni. En skömmu eftir aldamótin fluttist hann til Reykjavíkur, og varð brátt skipstjóri á skipum þaðan. Pétur var talinn duglegasti aflamaður sem stjórnað hefur þilskipi úr Reykjavík, og þeir sem kunnugir voru honum og starfi hans, staðfestu þann vitnisburð. Hann var að jafnaði með þeim hæstu, eða hæstur að afla af þeim skipum sem gerð voru út frá Faxaflóa. Og hann kunni að velja sér menn. Til hans safnaðist jafnan úrval manna, svo tæplega mun nokkurn tíma hafa verið saman komnir jafn duglegir menn og góðir fiskimenn á einu skipi og var á kútter Valtý.
Pétur var kvæntur Jóhönnu Gestsdóttur (1865-1963), en hún hafði misst fyrri mann sinn, Kristján Pál Bjarnason í hafið. Hann fórst ásamt allri áhöfn með skipi sínu Orient 7. apríl 1903. Jóhanna átti þrjú börn með Kristjáni og þau Pétur eignuðust tvö börn:
- Ásta Pétursdóttir (1906-1968).
- Kristján Páll Pétursson (1909-1993)
Pétur hvílir í votri gröf.
Vilhjálmur Kristinn Gíslason, 47 ára, stýrimaður til heimilis að Bræðraborgarstíg 4 í Reykjavík.
Vilhjálmur fæddist þann 6. ágúst 1872 í Ámundakoti, Fljótshlíðarhr., Rang. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Ólafsson (1831-1914) og Agnes Gísladóttir (1841-1881) í Butru og Ámundakoti í Fljótshlíðarhreppi, Rang.
Hann var kvæntur Regínu Magdalenu Sigríði Helgadóttur (1879-1953) og saman áttu þau þrjár dætur:
- Steinunn Vilhjálmsdóttir Waage (1901-1962).
- Kristín Helga Vilhjálmsdóttir Waage (1906-1938)..
- Ingibjörg Eyvindína Vilhjálmsdóttir Waage (1913-2012).
Vilhjálmur hvílir í votri gröf.
Guðmundur Jónasson, 27 ára, vélstjóri til heimilis í Reykjavík.
Guðmundur fæddist þann 10. október 1892 á Granda í Ketildalahr., V-Barð. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Gíslason (1842-1896) og Margrét Guðrún Ólafsdóttir (1857-1924). Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Böðvar Jónsson, 25 ára, matsveinn til heimilis í Reykjavík.
Böðvar fæddist þann 9. mars 1894 að Dagverðarnesi, Rangárvallahr., Rang. Foreldrar hans voru hjónin þar, Jón Böðvarsson (1853-1914) og Margrét Þórðardóttir (1857-1944). Böðvar var kvæntur Ólafíu Þórðardóttur og saman áttu þau unga dóttur:
- Ingunn Böðvarsdóttir (1917-1990).
Böðvar hvílir í votri gröf.
Guðmundur Ísleifsson, 38 ára, háseti til heimilis í Reykjavík.
Guðmundur fæddist þann 2. nóvember 1881 í Hlöðuvík í Sléttuhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Ísleifur Ísleifsson (1832-1902) og Þorbjörg Finnsdóttir (1851-1924) hjón í Hlöðuvík. Guðmundur var daufdumbur. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Valdimar Ólafsson, 24 ára, háseti til heimilis að Vesturgötu 23 í Reykjavík.
Valdimar fæddist þann 15. desember 1895 á Múla við Kollafjörð, Gufudalshr., A-Barð. Foreldrar hans voru Ólafur Kristjánsson (1855-1905) og Guðrún Aradóttir (1854-1914) hjón í Múla við Kollafjörð. Valdimar var ókvæntur og barnlaus.
Valdimar hvílir í votri gröf.
Kristján Valdimar Jónsson, 32 ára, háseti til heimilis að Njálsgötu 19 í Reykjavík.
Kristján fæddist þann 11. október 1887 í Lambhúsum á Akranesi. Foreldrar hans voru Jón Guðmundsson (1859-1942) og Gróa Jónsdóttir (1850-1938). Hann var kvæntur Silvíu Þorláksdóttur og eignuðust þau hjón tvo syni:
- Gústaf Kristjánsson (1918-1978).
- Kristján Valdemar Kristjánsson (1920-1998), fæddist eftir lát föður síns.
Kristján hvílir í votri gröf.
Andrés Magnús Eggertsson, 33 ára, háseti frá Haukadal við Dýrafjörð.
Andrés Magnús fæddist þann 26. júlí 1886 í Meðaldal, Þingeyrarhr., V-Ís. Foreldrar hans voru Eggert Andrésson (1856-1930) og Þórdís Jónsdóttir (1849-1948) sem voru hjón í Haukadal við Dýrafjörð. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Andrés Magnús hvílir í votri gröf.
Andrés Gestsson, 18 ára, háseti frá Skálará í Keldudal, Þingeyrarhr., V-Ís.
Andrés fæddist þann 18. júní 1901 að Saurum í Þingeyrarhr., V-Ís. Foreldrar hans voru Gestur Jónsson (1856-1942) og Ingibjörg Einarsdóttir (1864-1937) hjón í Keldudal og Haukadal. Andrés var ókvæntur og barnlaus. Bróðir hans, Einar (sjá hér fyrir neðan) var einnig um borð á Valtý og fórst með bróður sínum.
Andrés hvílir í votri gröf.
Einar Gestsson, 25 ára, háseti frá Skálará í Keldudal, Þingeyrarhr., V-Ís.
Einar fæddist þann 8. maí 1894 í Haukadal við Dýrafjörð, Þingeyrarhr., V-Ís. Foreldrar hans voru Gestur Jónsson (1856-1942) og Ingibjörg Einarsdóttir (1864-1937) hjón í Keldudal og Haukadal. Einar var kvæntur Ólafíu Markúsdóttur og eignuðust þau tvö börn saman:
- Guðmunda Einarsdóttir (1919-1919).
- Einar Andrés Einarsson (1920-2014).
Einar var bóndi á Skálará í Keldudal, og bróðir Andrésar (sjá hér fyrir ofan). Þeir bræður fórust báðir með Valtý.
Einar hvílir í votri gröf.
Guðmundur Jón Guðjónsson, 21 árs, háseti frá Arnarnúpi í Keldudal, Þingeyrarhr., V-Ís.
Guðmundur fæddist þann 26. nóvember 1898 á Arnarnúpi í Keldudal. Foreldrar hans vou Guðjón Þorgeirsson (1871-1957) og Elínborg Guðmundsdóttir (1875-1959) hjón að Arnarnúpi í Keldudal og Vésteinsholti í Haukadal Hann var ókvæntur og barnlaus.
Upplýsingar frá Kristínu Jónsdóttur frá Vésteinsholti í Haukadal um Guðmund Jón, móðurbróður hennar:
Guðmundur Jón Guðjónsson var næstelstur í 13 barna hópi hjónanna Elínborgar Guðmundsdóttur og Guðjóns Þorgeirssonar á Arnarnúpi í Keldudal í Dýrafirði. Guðjón var mikill sjósóknari, fengsæll og farsæll. Guðmundur Jón var hvers manns hugljúfi, stóri bróðirinn í hópnum, elskaður af öllum. Mamma, systir hans, Elínborg Guðjónsdóttir, var 6 ára þegar Valtýr fórst. Hún sagðist aldrei geta gleymt kveðjustundinni heima á Arnarnúpi þegar allir stóðu úti á hlaði og kvöddu Guðmund Jón er hann fór að heiman. Hann lét þá þau orð falla að hann myndi ekki sjá fólkið sitt aftur.“ Guðmundur Jón fórst með Valtý.
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Gísli Guðmundur Kristjánsson, 18 ára, háseti frá Núpi í Dýrafirði, Mýrahr., V-Ís.
Gísli fæddist þann 21. apríl 1901 í Stapadal, Auðkúluhr., V-Ís. Foreldrar hans voru Kristján Kristjánsson (1844-1928) og Símonía Þorbjörg Pálsdóttir (1855-1901) hjón í Stapadal. Gísli var ókvæntur og barnlaus.
Gísli hvílir í votri gröf.
Sigurður Jósef Bjarnason, 20 ára, háseti frá Þingeyri við Dýrafjörð.
Sigurður fæddist þann 4. september 1899 á Þingeyri við Dýrafjörð. Foreldrar hans voru hjónin Bjarni Pétursson (1861-1909) og Sigríður Helga Sigurðardóttir (1866-1947). Sigurður var ókvæntur og barnlaus.
Sigurður hvílir í votri gröf.
Gunnar Sveinsson, 24 ára, háseti frá Þingeyri við Dýrafjörð.
Gunnar fæddist þann 5. ágúst 1895 á Hamri í Hörðudalshr., Dal. Foreldrar hans voru hjónin Sveinn Sveinsson (1866-1911) og Sólveig Jónatansdóttir (1857-1941). Hann var ókvæntur og barnlaus.
Gunnar hvílir í votri gröf.
Jóhann Árni Gíslason, 27 ára, háseti frá Selárdal í Ketildalahr., V-Barð.
Jóhann fæddist þann 24. nóvember 1892 í Austmannsdal í Ketildalahr., V-Barðastrandarsýslu. Foreldrar hans voru Gísli Árnason (1854-1921) og Ragnhildur Jensdóttir (1870-1956). Hann var ókvæntur og barnlaus.
Jóhann hvílir í votri gröf.
Guðmundur Eymundsson, 33 ára, háseti frá Hólmavík.
Guðmundur fæddist þann 10. mars 1886 á Kleifum í Kaldrananeshr., Strand. Foreldrar hans voru Eymundur Guðbrandsson (1844-1927) og Guðbjörg Torfadóttir (1845-1923) hjón að Bæ á Selströnd og Kleifum. Hann var kvæntur Steinvöru Guðrúnu Mattíu Sigurðardóttur (1878-1862) og eignuðust þau fimm börn saman:
- Stúlka Guðmundsdóttir (1908-1908).
- Guðbjörg Guðmundsdóttir (1909-1984).
- Sigurður Guðmundsson (1912-1989).
- Guðrún Guðmundsdóttir (1915-1916).
- Magnús Sverrir Guðmundsson (1917-1921).
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Páll Júníusson, 30 ára, háseti frá Stokkseyri.
Páll fæddist þann 8. október 1889 í Syðra-Seli í Stokkseyrarhr., Árn. Foreldrar hans voru Júníus Pálsson (1861-1932) og Sigríður Jónsdóttir (1866-1944). Hann var kvæntur Þórdísi Eyjólfsdóttur (1898-1991) og fæddi kona hans son tæpum mánuði eftir að Valtýr fórst:
- Páll Júníus Pálsson (1920-1991).
Páll hvílir í votri gröf.
Brandur Jóhannes Sigurðsson, 28 ára, háseti frá Ólafsvík.
Brandur fæddist þann 10. júní 1891 að Lág í Eyrarsveit, Snæf. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson (1855-1897) og Guðrún Bjarnadóttir (1859-1940). Hann var kvæntur Scherlottu Jósefínu Jónsdóttur (1897-1988) og eignuðust þau tvo syni:
- Sigurður Brandsson (1917-1996).
- Ólafur Brandsson (1919-2008).
Brandur hvílir í votri gröf.
Jósef Sigurðsson, 28 ára, háseti frá Akranesi.
Jósef fæddist þann 25. júní 1891 í Akrakoti í Innri-Akraneshr., Borg. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson (1851-1923) og Guðríður Bjarnadóttir (1863-1907) hjón í Akrakoti. Jósef var ókvæntur og barnlaus.
Jósef hvílir í votri gröf.
Kristófer Bjarnason, 25 ára, háseti frá Akranesi.
Kristófer fæddist þann 12. nóvember 1894 í Hallstúni í Holtahr., Rang. Foreldrar hans voru hjónin Bjarni Símonarson (1864-1940) og Kristgerður Oddsdóttir (1863-1936), þau skildu. Kristófer var kvæntur Júlíönu Guðnadóttur (1897-1951) og eignuðust þau 3 börn saman:
- Jórunn Laufey Kristófersdóttir (1915-1915).
- Bjarni Kristófersson (1917-1998).
- Magnús Kristófersson (1918-2008).
Kristófer hvílir í votri gröf.
Jón Sigurður Þorkell Árnason, 21 árs, háseti úr Hafnarfirði.
Jón fæddist þann 15. maí 1898 í Húsum í Holtum, Ásahr., Rang. Foreldrar hans voru Árni Vilhjálmsson (1868-1910) og Sigríður „yngri” Þorkelsdóttir (1862-1903) hjón í Nýja-Kastala á Stokkseyri. Jón var ókvæntur og barnlaus.
Jón hvílir í votri gröf.
Jón Stefán Guðmundsson, 23 ára, háseti frá Mjóafirði.
Jón fæddist þann 31. janúar 1897 í Minni-Dölum í Mjóafjarðarhr., S-Múl. Foreldrar hans voru Guðmundur Hansson (1857-1910) og Þórunn Sigrún Sveinbjörnsdóttir (1861-1937) hjón í Skógum í Mjóafjarðarhr., S-Múl. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Jón hvílir í votri gröf.
Peder Jentoft Andreassen/Andersen, 40 ára, háseti frá Mjóafirði.
Peder fæddist þann 30. nóvember 1879 í Langvåg í Nordland, Noregi. Foreldrar hans voru Karl Johan Petter Andreassen/Andreasen/Andersen sjómaður og Anna Jakobsdotter kona hans. Peder kom til Mjóafjarðar árið 1905 og árið 1907 kvænist hann Þórstínu Jóhönnu Árnadóttur (1886-1923), með henni eignast hann tvær dætur:
- Þóranna Arnolda Pétursdóttir Andersen (1907-1972) og
- Karen Halldóra Pétursdóttir (1912-1926)
Peder hvílir í votri gröf.
Friðrik Guðbjörn Jónsson, 24 ára, háseti frá Einarslóni.
Friðrik fæddist þann 23. mars 1895 í Einarslóni, Breiðuvíkurhr., Snæf. Foreldrar hans voru Ásgerður Vigfúsdóttir (1863-1950) og Jón Ólafsson (1864-1956) hjón í Einarslóni. Bróðir Friðriks, Ólafur Jakob (sjá hér fyrir neðan), var einnig í áhöfn Valtýs og fórst með honum. Friðrik var ókvæntur og barnlaus.
Friðrik hvílir í votri gröf, en í Hellnakirkjugarði hefur verið reistur steinn til minningar um einstaklinga sem drukknuðu á 20. öldinni og hlutu ekki leg í vígðri mold og er Friðrik einn af þeim sem þar eru nefndir.
Ólafur Jakob Jónsson, 27 ára, háseti frá Einarslóni.
Ólafur fæddist þann 16. janúar 1893 í Einarslóni, Breiðuvíkurhr., Snæf. Foreldrar hans voru Ásgerður Vigfúsdóttir (1863-1950) og Jón Ólafsson (1864-1956) hjón í Einarslóni. Bróðir Ólafs, Friðrik Guðbjörn (sjá hér fyrir ofan), var einnig í áhöfn Valtýs og fórst með honum. Ólafur var ókvæntur og barnlaus.
Ólafur hvílir í votri gröf, en í Hellnakirkjugarði hefur verið reistur steinn til minningar um einstaklinga sem drukknuðu á 20. öldinni og hlutu ekki leg í vígðri mold og er Ólafur einn af þeim sem þar eru nefndir.
Guðmundur Tómas Pálsson, 24 ára, háseti frá Hellissandi.
Guðmundur fæddist þann 31. desember 1895 í Beruvík í Breiðuvíkurhr., Snæf. Foreldrar hans voru hjónin Páll Daníelsson (1865-1923) og Ragnhildur Matthildur Guðmundsdóttir (1857-1900). Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Vigfús Sigurvin Hansson, 20 ára, háseti frá Hellissandi.
Vigfús fæddist þann 29. ágúst 1899 í Einarslóni í Breiðuvíkurhr., Snæf. Foreldrar hans voru Hans Ólafsson (1861-1937) og Sigurbjörg Jakobína Vigfúsdóttir (1861-1941) hjón í Einarslóni og síðar Snoppu á Hellissandi. Vigfús var ókvæntur og barnlaus.
Vigfús hvílir í votri gröf.
Stefán Guðmundsson, 24 ára, háseti frá Litla-Kambi í Breiðuvíkurhr., Snæf.
Stefán fæddist þann 10. júlí 1895 á Ytri-Þorsteinsstöðum í Haukadalshr., Dal. Foreldrar hans voru Guðmundur Magnússon (1861-1952) og Svanborg Guðmundsdóttir (1859-1949) hjón að Litla-Kambi. Stefán var ókvæntur og barnlaus.
Stefán hvílir í votri gröf.
Sigurður Guðmundsson, 32 ára, háseti frá Breiðuvík í Rauðasandshr., V-Barð.
Sigurður fæddist þann 11. desember 1887 að Hvallátri, Rauðasandshr., V-Barð. Foreldrar hans voru Guðmundur Sigurðsson (1853-1941) og Helga Beata Árnadóttir (1861-1948) hjón í Breiðuvík. Sigurður var kvæntur Ingibjörgu Aðalheiði Jóhannsdóttur (1891-1949) og áttu þau þrjú börn:
- Guðmundur Sigurðsson (1915-1977).
- Ósk Sigurðardóttir (1917-1992).
- Jóhann Gunnar Sigurðsson (1919-1981).
Sigurður hvílir í votri gröf.
Lárus Elísson, 25 ára, háseti frá Berserkseyri í Eyrarsveit, Snæf.
Lárus fæddist þann 31. júlí 1894 að Berserkseyri. Foreldrar hans voru Elís Guðnason (1866-1949) og Gróa Herdís Hannesdóttir (1857-1933) hjón á Berserkseyri og Kolgröfum í Eyrarsveit.
Lárus hvílir í votri gröf.
Kærar þakkir til allra þeirra sem sendu mér myndir af þeim sem fórust með Valtý RE 98!
Heimildir:
Austurland 17.04.1920, s. 3
Frjáls þjóð 11.06.1960, s. 5
MBL 11.04.1920, s. 1
Sjómannablaðið Víkingur 01.03.1964, s. 70-71
Ægir 01.04.1920, s. 45-46