Athugasemdir |
- Frank stundaði nám í myndlist við Art Students League í New York og síðar nám í listasögu og forvörslu við Oxford-háskóla á Englandi. Hann starfaði við kvikmyndadeild City College í New York og síðar sem listráðunautur hjá Guggenheim-safninu í New York.
Árið 1958 fluttist hann til Íslands ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Tómasdóttur söngkonu. Þau reistu bæ sinn Brennholt í Mosfellsdal og áttu þar heima síðan.
Frank vann við forvörslu hjá Þjóðminjasafni Íslands og síðar hjá listasafni Reykjavíkurborgar á Kjarvalsstöðum á fyrstu starfsárum safnsins þar. Jafnframt vann hann að eigin listsköpun, forvörslu, ráðgjöf og sá um ýmsa listviðburði og sýningar, auk þess sem hann stundaði rannsóknir á sviði íslenskrar menningararfleifðar. Liggja eftir hann greinar og bækur um þau efni, þ. á m. bók um Finn Jónsson listmálara. Frank gerði tvær heimildarmyndir um brautryðjendurna dr. Alexander Jóhannesson háskólarektor og Engel Lund söngkonu.
Einnig stundaði Frank sjálfsþurftarbúskap í Brennholti, einkum á sviði ylræktar og fiskeldis.
Á síðari hluta ævinnar sinnti Frank aðallega ritstörfum. Hann skrifaði fjórar veglegar bækur um Ísland á síðustu öldum, byggðar á sýn erlendra leiðangurs- og listamanna í málverkum og ljósmyndum. Síðasta bók Franks er endurminningabókin „Dada Collage and Memoirs. [2]
|