Athugasemdir |
- Var á Svarðbæli, Melstaðarsókn, Hún. 1890. Var í Svarðbæli, Ytri-Torfustaðahr., V-Hún. 1957. Síðast bús. í Ytri-Torfustaðahreppi. [1]
- Guðrún Guðmundsdóttir var fædd 25. ágúst 1885 að Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði. Faðir hennar var Guðmundur (d. 1937), sonur Jónasar (d. 1907) er bjó að Ytri-Völlum, Stóra-Ósi og síðast í Svarðbæli. Móðir hennar var Guðrún, dóttir Jóns Teitssonar (d. 1901) að Syðri-Reykjum, Sveðjustöðum og Núpsdalstungu og konu hans, Elínborgar Guðmundsdóttur, systur Jónasar í Svarðbæli.
Tveimur dögum eftir fæðingu Guðrúnar, andaðist móðir hennar og fluttust þau feðgin þá í Svarðbæli til Jónasar. Þar elur hún síðan allan sin aldur að heita má. Hún mun hafa dvaið í Reykjavík 1908-09 og numið eitthvað til handanna, og í Skagafirði 1919-23, en þangað fór hún með vinkonu sinni Elínborgu Jóhannesdóttur frá Útibleiksstöðum en snéri heim í Svarðbæli að henni látinni.
Hún var ráðskona hjá föður sínum og síðan hálfbróður Birni Bergmann, er var bóndi í Svarðbæli til ársins 1964. Menntunar naut hún ekki, aðeins heimiliskennslu er þá tíðkaðist. Hún sleit því ekki spjörum á skólabekk eða gerði víðreist um dagana. Frá barnæsku var hún nær blind á öðru auga, en þrátt fyrir þetta aflaði hún sér fróðleiks með bókalestri hvenær sem tími og aðstæður leyfðu. Dýravinur var hún mikill, enda hændust að henni húsdýr öll, einkum kisur sem jafnan voru margar í Bæli (Svarðbæli). Hafði hún af þessu mikla ánægju og dægrastyttingu, ekki síst hin síðustu ár, er hún þurfti mest á því að halda.
Lengi hin síðari ár voru þau systkin tvö ein mestallt árið, en þó urðu viðbrigðin mest er Björn varð að hætta búskap af heilsufarsástæðum og flytjast suður vorið 1964. Eftir það var hún alein í Bæli þau 7 ár hún átti ólifuð.
Guðrún lést 2. ágúst 1971 og hvílir í Melstaðarkirkjugarði við hlið bróður síns. [2]
|