Athugasemdir |
- Olav starfaði í vélsmiðju í Reykjavík og fluttist síðan með fjölskylduna til Flateyrar 1959. Hann lærði vélstjórn í Vélskóla Íslands og starfaði sem sjómaður og vélstjóri nánast alla starfsævi sína.
Fyrst var hann annar vélstjóri á togaranum Guðmundi Júní, áður Júpíter, sem gerður var út frá Flateyri. Síðar lét hann smíða og gerði út eigin trillu, Helgu ÍS. Hann var vélstjóri á Mumma ÍS sem fórst 1964 og bjargaðist Olav við annan mann en fjórir félagar þeirra fórust. Síðan var Olav vélstjóri á línubátnum Hilmi II KE, sem var aflahæsti línubátur á landinu 1965. Einnig var Olav vélstjóri á Sóleyju ÍS sem gerði út á net og troll frá Flateyri.
Árið 1969 flutti Olav til Reykjavíkur með fjölskylduna. Hann var vélstjóri á netabátnum Sandafelli GK og lengi á nótaskipinu Hákoni ÞH sem gerði aðallega út á loðnu og síld frá Grenivík. Síðan var Olav vélstjóri á togaranum Hólmadrangi ST sem gerði út frá Hólmavík þar til hann fylgdi honum til Suður-Afríku í mikla ævintýraferð. Að síðustu var hann vélstjóri á Áskeli ÞH frá Grenivík, þar til Áskell var seldur og lauk Olav þar með starfsævi sinni, sjötugur að aldri. [1]
|