Símon Johnsen Þórðarson, f. 1 júl. 1888, Vesturgötu 10, Reykjavík, Íslandi d. 26 mar. 1934, Landspítalanum í Reykjavík, Reykjavík, Íslandi (Aldur 45 ára)
Guðrún Ágústa Símonardóttir óperusöngkona eða Guðrún Á. Símonar eins og hún var kölluð, fæddist þann 24. febrúar 1924 á Lindargötu 8 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru hjónin Símon Johnsen Þórðarson lögfræðingur og Steinþóra Ágústa Pálsdóttir. Faðir hennar var afburða raddmaður sem átti mikinn þátt í sönglífi höfuðstaðarins meðan hans naut við, en hann lést eftir langvinn veikindi þegar Guðrún var 10 ára gömul. Guðrún var yngst þriggja systkina; Elst var Sigríður en svo kom Símon en hann fórst með e.s. Heklu árið 1941.
Þegar Guðrún var fimmtán ára tók Ólafur Þorsteinsson læknir úr henni hálskirtlana og þá tók hún eftir því að röddin í henni breyttist. Eða eins og hún segir sjálf í ævisögu sinni: ,,...ég fór að finna, að ég gat sungið, svo það er eiginlega Ólafi Þorsteinssyni að þakka, að ég fór að syngja." Í bernsku hafði Guðrúnu langað að verða hattasaumakona en eftir þetta vildi hún bara verða söngkona, ekkert annað.
Guðrún stundaði fyrst söngnám hjá Sigurði Birkis, en síðan söng- og leiklistarnám og nám í skyldum greinum í "Guildhall School of Music and Drama" í London 1946 til 1950. Næstu tvö ár var hún við nám í "The English Opera Studio". Öll dvalarárin í London var Guðrún við söngnám í einkatímum hjá Lorenzo Medea í Wigmore Hall auk þess sem hún stundaði háskólanám í ensku. Hún var við söngnám á Ítalíu hjá Carmen Melis í Mílanó til 1954.
Guðrún hélt fjölmarga tónleika víða um heim, svosem í Danmörku, Noregi, Bretlandi, Sovétríkjunum, Bandaríkjunum, Kanada og að sjálfsögðu á Íslandi. Hún söng í útvarpi og sjónvarpi og sígild lög og létt lög á hljómplötur. Hún söng aðalhlutverk í óperum, m.a. Tosca úr samnefndri óperu, Mímí í La Boheme, Santuzza í Cavalleria Rusticana, Rósalindu í Leðurblökunni, Sertínu í Ráðskonuríkinu og Amor í Orfeus og Evridís. Hún kom fram sem einsöngvari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Ríksútvarpsins.
Guðrún var ein vinsælasta söngkona þjóðarinnar og löngu orðin landskunn sem dýravinur og þá sérstaklega kattavinur, en hún hélt m.a. fyrstu kattasýninguna á Íslandi árið 1975.
Guðrún var heiðursborgari Winnipeg-borgar og var sæmd skjaldarmerki borgarinnar úr gulli. Hún var sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1981. Árið 1973 kom út ævisaga hennar, skráð af Gunnari M. Magnúss, ,,Eins og ég er klædd". Guðrún giftist árið 1960 Garðari Forberg. Þau skildu árið 1967. Þau eignuðust einn son saman.
Guðrún lést þann 28. febrúar 1988 á heimili sínu í Reykjavík eftir erfið veikindi. Hún hvílir í Hólavallagarði við Suðurgötu hjá foreldrum sínum og systur. [3, 4, 6, 7, 8]
Kort yfir atburði
Fæðing - 24 feb. 1924 - Lindargötu 8, Reykjavík, Íslandi
Menntun - Stundaði söng- og leiklistarnám og nám í skyldum greinum. - 1946-1950 - Guildhall School of Music and Drama, London, Englandi
Andlát - 28 feb. 1988 - Reynimel 51, Reykjavík, Íslandi
Greftrun - 9 mar. 1988 - Hólavallagarði við Suðurgötu, Reykjavík, Íslandi