Athugasemdir |
- Friðrik bjó alla tíð í Vestmannaeyjum, og var hann lengst af kenndur við æskuheimilið sitt Lönd. Friðrik lauk námi frá farmannadeild Stýrimannskólans í Reykjavík 1957, kenndi á námskeiðum til fiskimannaprófs í Vestmannaeyjum frá árinu 1958.
Friðrik hóf sjómennsku 15 ára gamall á nýsköpunartogurunum Elliðaey VE 10 hjá föður sínum og síðan á á Elliða SI og Keflvíkingi GK. Þá var hann á ýmsum vertíðarbátum í Eyjum og stundaði síldveiðar á sumrin fyrir Norðurlandi. Var farmaður á Drangajökli og fleiri skipum Eimskipa með hléum allt til ársins 1990.
Friðrik var skipstjóri á nokkrum bátum í Vestmannaeyjum, Öðlingi, Sindra, Kára, Mars, Sigurði Gísla sem hann gerði út ásamt Guðna Þorsteinssyni og Jóhanni Sigurðssyni og fleiri bátum frá Eyjum.
Friðrik varð skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum 1975 og alls í 27 ár og útskrifaði hundruð skipstjórnarmanna og hefur hann fylgst ótrúlega vel með öllum sínum nemendum eftir að þeir fóru frá skólanum og hefur verið í persónulegu sambandi við fjölmarga þeirra alla tíð.
Friðriki hlotnaðist margskonar heiður á ferli sínum sem skipstjóri og skólastjóri. Hann hlaut viðurkenningu sjómannadagsráðs fyrir störf sín að öryggismálum sjómanna, heiðursskjal S.S. Verðandi fyrir björgun áhafnar Frigg VE veturinn 1973, kjörinn heiðursfélagi Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi.
Friðrik gaf út rit um sögu Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum 2012, var ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja í áratug og skrifaði fjölda greina um sjómennsku og öryggismál sjómanna. Friðrik hlaut fálkaorðuna 2012 fyrir störf sín að öryggismálum sjómanna. [2]
|