Athugasemdir |
- Una Guðmundsdóttir fæddist í Skúlhúsum í Gerðahreppi. Móðir hennar hét Guðríður Þórðardóttir frá Syðri-Hömrum í Rangárvallasýslu, fædd 2. maí 1853, látin 11. janúar 1895. Faðir hennar var Guðmundur Jónsson, sjómaður, fæddur 6. júní 1845 frá Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd. Hann drukknaði 28. mars 1899, þegar átta manna fari hvolfdi í lendingu í Gerðavör í fárviðri, á leið úr fiskiróðri.
Eftir lát Guðríðar tók að sér forstöðu heimilisins Sigurlaug Bjarnadóttir, ættuð frá Hjallanesi í Landsveit í Rangárvallasýslu. Una og Sigurlaug voru síðan saman alla tíð uns hús lést, 9. des. 1927, 82 ára að aldri. Þrjú systkini Unu dóu á barnsaldri, en þau sem upp komust voru: Stefán sjómaður og járnsmiður, bjó lengst af í Reykjavík, ókvæntur. Æsa, húsmóðir, gift Sigurði Þorkelssyni í Efri-Sjólyst í Garði og Guðjón, sem drukknaði um tvítugsaldur. Hálfsystir Unu var Maren Guðmundsdóttir, bjó lengi á Framnesvegi 7 í Reykjavík.
Una ól upp Stefaníu Guðríði, f. í Reykjavík 26. júní 1926. Faðir hennar var Kristvin Þórðarson, járnsmiður, ættaður úr Garðinum. Móðir hennar hét Rannveig Hannesdóttir frá Tandraseli í Borgarfirði. Stefanía varð bráðkvödd 10. ágúst 1953.
Una starfaði mikið að félagsmálum og stundaði kennslu um áratuga skeið, en þekktust var hún fyrir dulræna hæfileika sína, sem gerðu hana þjóðkunna. Um þá ritaði Gunnar M. Manúss bókina Völva Suðurnesja árið 1969, sem varð metsölubók. Una lést á Keflavíkurspítala 4. okt. 1978 og var jarðsungin frá Útskálakirkju 13. okt. af séra Guðmundi Guðmundssyni að viðstöddu miklu fjölmenni. Una var jarðsett við hlið Stefaníu fósturdóttur sinnar í Útskálakirkjugarði. [2]
|