Athugasemdir |
- Indriði stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri 1940-1941 og síðar við Héraðsskólann á Laugarvatni 1942-1943. Hann vann við verslunarstörf 1943-1945, var bifreiðarstjóri 1945-1947 og lausamaður í Skagafirði 1947-1950. Hann starfaði sem blaðamaður á Tímanum 1951-1959, en fór þá á Alþýðublaðið. Á árunum 1961-1972 var hann ritstjóri Tímans. Árið 1972 var hann ráðinn framkvæmdastjóri þjóðhátíðar 1974. Frá 1975 til dauðadags vann hann við ritstörf, að undanskildum árunum 1987-1991 er hann varð á ný ritstjóri Tímans. Indriði lét mjög til sín taka í menningar- og þjóðmálum alla tíð, bæði í ræðu og riti.
Eftir Indriða liggur fjöldi verka; skáldsögur, smásögur, ævisögur, minningarþættir, þýðingar og annað efni. Skáldsögur hans eru: 79 af stöðinni (1955), Land og synir (1963), Þjófur í paradís (1967), Norðan við stríð (1971), Unglingsvetur (1979) og Keimur af sumri (1987). Smásagnasöfn hans eru: Sæluvika (1951), Þeir sem guðirnir elska (1957), Mannþing (1965), Vafurlogar (úrval, 1984) og Átján sögur úr álfheimum (1986). Indriði birti einnig margar af smásögum sínum í blöðum og tímaritum. Að auki skrifaði Indriði eftirtaldar ævisögur: Áfram veginn (ævisaga Stefáns Íslandi, 1975), Fimmtán gírar áfram (ævisaga Péturs á Hallgilsstöðum, 1981), J.S. Kjarval ævisaga (1985), Skýrt og skorinort - bókin um Sverri Hermannsson (1989) og ævisögu Hermanns Jónassonar í tveimur bindum. Fyrra bindið nefnist Fram fyrir skjöldu (1990) en seinna bindið Ættjörð mín kæra (1992). Minningarþættir eftir Indriða eru: Samtöl við Jónas (1977) og Söngur lýðveldis (1997). Indriði þýddi m.a. eftirfarandi verk: Ekki af einu saman brauði (eftir skáldsögu Vladimirs Dudentsevs), Beðið eftir Godot (Samuel Beckett), Leiguhjallur (Tennessee Williams) og Ó, þetta er indælt stríð (Joan Littlewood og Charles Hilton). Af öðrum verkum Indriða má t.d. nefna Dagbók um veginn (ljóðabók, 1973), Útlagann (kvikmyndasaga, 1981), sögu þjóðhátíðarinnar 1974 í tveimur bindum (1987) og Húðir Svignaskarðs (leikrit, 1988).
Heildarsafn skáldverka Indriða var gefið út 1992.
Indriði var einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar og á síðasta ári var hann sérstaklega heiðraður af samtökum kvikmyndagerðarmanna fyrir framlag sitt til hennar. Hann sat í stjórn kvikmyndafélagsins Edda-film, sem m.a. framleiddi kvikmynd eftir skáldsögunni 79 af stöðinni og var formaður þess frá 1976. Hann var einn af stofnendum kvikmyndafyrirtækisins Ísfilm sem m.a. gerði kvikmyndirnar Land og syni (1980) og Útlagann (1981).
Indriði hlaut margháttaðar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Bækur hans voru tilnefndar til Norðurlandaráðsverðlauna, hann hlaut Silfurhestinn, Bókmenntaverðlaun dagblaðanna, 1971 og var í heiðurslaunaflokki listamanna.
Indriði var formaður Varðar, Félags ungra sjálfstæðismanna, á Akureyri 1944-1946, formaður Blaðamannafélags Íslands 1960, formaður Félags íslenskra rithöfunda 1962, ritari þjóðhátíðarnefndar 1967-1975, formaður rithöfundaráðs 1977, í útgáfuráði Almenna bókafélagsins frá 1969, í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva og í orðunefnd. Þá var hann virkur félagi í Lionsklúbbnum Þór til margra ára. [2]
|