Vélbáturinn Sæfell SH 210 var 74 tonna eikarbátur, með 400 ha. MaK dísel vél, smíðaður í Travemünde í Þýskalandi árið 1959. Hann var fyrst í eigu kaupfélagsins Dagsbrúnar á Ólafsvík, en var seldur til Flateyrar vorið 1963.

Sæfell hafði síðast samband við land um talstöð á miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 11. október 1964. Var skipið þá statt í ofsaveðri 20-30 sjómílur austur af Horni á leið til Flateyrar (sjá á korti u.þ.b. hvar heyrðist síðast frá Sæfelli).
Skipið hafði verið á annan mánuð í slipp á Akureyri. Settur var nýr hvalbakur á skipið eins og gert hafði verið við mörg samskonar skip og gefist vel. Auk þess var skipið í slippnum til vélarhreinsunar og almennar hreinsunar.
Sæfell var ferðbúið frá Akureyri á fimmtudagskvöldinu, en skipstjóri vildi bíða veðurs og fór ekki fyrr en kl. níu á laugardagsmorgun áleiðis til Flateyrar. Þegar báturinn var ekki kominn fram á mánudagsmorgninum, var ákveðið að hefja leit að honum. Tvær flugvélar voru sendar í leitina, SIF frá Landhelgisgæslunni, sem leitaði samtals í tíu tíma á mánudeginum við vond skilyrði í dimmviðri, eða frá 10:30-20:30, og flugvél frá Birni Pálssyni sem hann stýrði sjálfur.
Varðskipið Ægir hóf leit snemma á mánudagsmorgni, ásamt þremur stórum bátum frá Ísafirði, þeim Guðrúnu Jónsdóttur, Guðbjarti Kristjáni og Guðbjörgu. Hófu þau leitina við Straumnes. Umfangsmikil leit úr landi fór einnig fram. Eitthvað var gengið á fjörur en öll skilyrði voru afar óhagstæð til leitar. Var t.d. gengið á fjörur frá Ingólfsfirði að Horni og frá Horni, Dröngum, og Ófeigsfirði.

Þrátt fyrir mikla leit, fannst ekkert sem gefið gæti til kynna hver afdrif Sæfells hefðu orðið.
Með Sæfelli fórust þrír ungir menn:

Haraldur Olgeirsson, 27 ára, skipstjóri til heimilis á Flateyri.
Haraldur fæddist þann 5. júní 1937 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Olgeir Ísleifur Benediktsson (1902-1959) og Helga Þórunn Guðmundsdóttir (1912-1937).
Haraldur kvæntist Báru Guðmundsdóttur (1941) þann 20. desember 1960. Þau eignuðust þrjú börn saman:
- Olgeir Ísleifur Haraldsson (1959).
- Albert Guðmundur Haraldsson (1961).
- Helga Haraldsdóttir (1962).
Haraldur hvílir í votri gröf.

Ólafur Sturluson, 19 ára, háseti til heimilis að Neðri-Breiðadal í Mosvallahr., V-Ís
Ólafur fæddist þann 16. maí 1945 í Neðri-Breiðadal. Foreldrar hans voru hjónin Sturla Þórðarson (1901-1986) og Ólöf Herborg Bernharðsdóttir (1913-1983). Ólafur var ókvæntur og barnlaus.
Ólafur hvílir í votri gröf.

Sævar Sigurjónsson, 25 ára, háseti til heimilis á Flateyri.
Sigurjón fæddist þann 14. september 1939 á Hellissandi. Foreldrar hans voru hjónin Sigurjón Illugason (1914-1994) og Gísllaug Guðmunda Elíasdóttir (1918-1994).
Sigurjón var kvæntur Ósk Elínu Jóhannesdóttur (1941-2017) og áttu þau eina dóttur saman:
- Sigurlaug Ragnhildur Sævarsdóttir (1962).
Sævar hvílir í votri gröf.
Heimildir:
Alþýðublaðið 13.10.1964, s. 1, 13
Ísfirðingur 08.01.1961, s. 4
MBL 13.10.1964, s. 12
MBL 15.10.1964, s. 2
Tíminn 16.10.1964, s. 16
Sjómannablaðið Víkingur 01.12.1964, s. 246
Sæfell SH 210. TFBY. – Þórhallur Sófusson Gjöveraa