Fiskiskútan „Riddarin“ frá Trangisvági í Færeyjum, var 90 tonna eikarskip, smíðað í Englandi og var 22ja manna áhöfn á honum. Í lok september 1927 var Riddarin að ljúka sinni þriðju veiðiferð það árið, og hafði verið við veiðar undan Langanesi frá því í byrjun ágústmánaðar. Veiðarnar höfðu gengið nokkuð vel og var skipið fyllt á sex vikum.
Um klukkan 8 að morgni sunnudagsins 25. september lagði skipsbátur Riddarans áleiðis til lands við Fagranes á Langanesi, en erindið var að gera upp reikninga við bóndann þar, Jón Jónasson, fyrir sauði og annað matarkyns sem skipstjórinn Mortan Nielsen hafði keypt af honum yfir sumarið.
Þau tuttugu ár sem Mortan hafði stundað veiðar við Langanes höfðu þeir Jón bóndi á Fagranesi og hann, átt mikil og góð viðskipti saman. Hafði gegnum árin myndast með þeim góð vinátta og var það ekki að skapi Mortans að sigla án þess að gera upp sínar skuldir við bónda þótt nú gæfist góður byr til heimsiglingar, en um það leiti er veiðum lauk gekk í hvassa norðaustanátt og samfara því jókst brim við landið.
Á bátnum voru 8 menn, þar á meðal skipstjórinn. Reyndar hafði Mortan skipsjóri átt frívakt um morguninn og hafði hann áður uppálagt stýrimanni sínum að fara til lands með sjö öðrum og ljúka þessum viðskiptum við bóndann. En þegar Mortan kom upp á dekk um morguninn sá hann að þeir voru ófarnir og undraðist hann það stórlega. Stýrimaðurinn tók hann þá afsíðis og sagði honum að enginn af áhöfninni á sinni vakt fengist til að fara í land.
Má ætla að þar hafi valdið stór og mikill selur sem hafði verið förunautur Riddarans í dágóðan tíma og sem skipverjum stóð nokkur stuggur af. Það var trú færeyskra sjómanna að selir sem fylgdu skipum boðuðu ekkert gott og reyndu þeir oft að losa sig við slíka förunauta með því að skjóta á þá. Áhöfnin á Riddaranum hafði líka gert nokkrar tilraunir til að losa sig við förunautinn, en allt kom fyrir ekki. Fylgdi skepna þessi skipinu á meðan á veiðunum stóð og hafði verið venju fremur nærgöngull og haft sig mjög í frammi við skipið meðan því var lagt við anker á legunni undan landi.
Eins og áður segir undraðist Mortan það háttalag skipverja sinna að neita förinni og ákvað hann að fara sjálfur á skipsbátnum í land. Til ferðarinnar kvaddi hann sjö af hásetum sínum og hreyfði enginn þeirra mótmælum. Segir svo í „Þrautgóðir á raunastund“:
„Það tók mennina átta um það bil hálfa klukkustund að róa til lands og var klukkan orðin um níu er þeir nálguðust lendinguna við Fagranes… Blindboði er þarna við lendinguna og vissi Morten um hann… Á meðan Morten kannaði aðstæðurnar við landið barst báturinn að boða þessum og skipti það engum togum að um leið og skipstjóri skipaði mönnum sínum að róa til lands reis mikið brot frá boðanum, skall á bátnum og hvolfdi honum samstundis. Um leið og þetta gerðist sáu mennirnir sem í bátnum voru að selurinn rauði virtist koma út úr boðanum. Sýndist þeim hann rísa að mestu úr sjó, andartak, en síðan féll hann í sjóinn með mikilli skvettu.“
Aðeins einn hinna átta er á bátnum voru, náði landi, maður að nafni Nils Petur Nielsen. Aðsogið hafði borið flak af bátnum, annan helminginn, upp í fjörugrjótið og hann þar á, með handleggi kreppta undir þóftu. Hvernig þetta sviplega slys hefir að höndum borið, kvaðst maðurinn sem bjargaðist, aðeins geta sér grein fyrir á þessa leið: Er þeir voru komnir nálægt landi, fannst þeim sem ókyrð eða hryllingur í sjónum, hægðu róður um stund og ráðguðust um að leita að landi á öðrum stað. Rétt í því rís brotsjór við borðstokkinn, fyllir bátinn og hvolfir honum. Síðan veit hann ekkert um sig fyrr en uppi í fjörugrjótinu og þá undir bátsflakinu á hvolfi. Fimm af líkunum ráku upp síðar, en tvö vantaði þar á meðal skipstjórans. Reyndar rak seinna um haustið hönd sem reyndist vera af Mortan skipstjóra. Höndin þekktist á gullhring en innan í honum stóð nafn Espu Nielsen, konu Mortans.
Þeir sem fórust voru:
Mortan Nicolaj Nielsen skipstjóri, 45 ára, var fæddur 15. október 1881 í Sumba í Færeyjum. Mortan var kvæntur og lét eftir sig 5 börn.
Jacob Sigurd Niels Hansen háseti, 20 ára, var fæddur 4. október 1902 í Tvøroyri í Færeyjum. Jacob Sigurd lét eftir sig barnshafandi eiginkonu og eitt barn.
Thomas Jacob Stenberg háseti, 21 árs, var fæddur 26. júlí 1906 í Sumba í Færeyjum.
Poul Nicolaj Kjærbo háseti, 31 árs, var fæddur 23. júlí 1896 í Sumba í Færeyjum. Poul Nicolaj lét eftir sig eiginkonu og tvö börn.
Johan Nielsen háseti, 20 ára, var fæddur 24 september 1907 í Sumba í Færeyjum. Johan var sonur Mortans skipstjóra.
Mikkel Sofus Frederik Kristiansen háseti, 20 ára, var fæddur 20. september 1907 í Sumba í Færeyjum.
Niels Jacob Sofus Nielsen háseti, 38 ára, var fæddur 30. september 1888 í Sumba í Færeyjum. Niels Jacob var bróðir Mortans skipstjóra.
Hvíla fimm þeirra (allir nema Mortan skipstjóri og Poul Nicolaj Kjærbo háseti) í Seyðisfjarðarkirkjugarði, en þar stendur þessi steinn með nöfnum allra sjö sem fórust.
Heimildir:
Hænir 01.10.1927, s. 1
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Sjóólukkan við Langanes
Havið tók teir. Søgen um teir, sum ikki bóru boð í bý. – Óli Jacobsen.
Sjóslys við Langanes 1927. Eftir Helga Kristjánsson.