Skipið Reykjavíkin kom til Reykjavíkur 25. mars 1873. Var þetta nýsmíðað danskt skip, tvísiglt með skonnortulagi og var stærð þess mæld 27,38 lestir. Svo er skýrt frá í blöðum sem töluðu um þessa skipakomu, að Reykjavíkin hafi ,,kostað 2900 ríkisdali, en ýmislegt vantaði til seglbúnaðar og annarra áhalda og útgerðar, er kaupa varð að auki.“ Var það Geir Zoëga kaupmaður sem stóð fyrir þessum kaupum, ásamt Kristni Péturssyni í Engey og Jóni Þórðarsyni í Hlíðarhúsum.
Reykjavíkin var bæði á fiskveiðum sem og hákarlaveiðum í gegnum árin. En í lok mars 1889, er hún var á hákarlaveiðum fyrir sunnan land, lenti hún í hinu mesta illviðri og er talið að hún hafi farist með manni og mús 31. mars 1889.
Föstudaginn langa, 19. apríl 1889, fundu skipverjar á ,,Clarina“, þilbát Seltirninga, smábát (jullu) frá Reykjavíkinni á floti úti á Bollasviði svonefndu á Faxaflóa, heila og óskemmda, en skömmu áður höfðu þeir séð nokkuð álengdar stöng upp úr sjónum og lýsisbrák talsverða umhverfis. Þóttust menn eftirá vita að það gæti naumast hafa verið annað en siglutoppurinn á Reykjavíkinni, sem hafi marað þar í kafi.
Eftir að Reykjavíkin fórst, kom upp orðrómur um að hún hafi verið orðin svo úr sér gengin, að hún væri ekki í sjó leggjandi. En þeir sem til þekktu sögðu þetta tilhæfulausan orðróm, því eftir aðalviðgerð rúmu ári áður hafi hún verið gallalaus að viðum öllum, hvergi fúablettur, ágætlega þétt og allur útbúnaður traustur og vandaður, eins og á öðrum skipum Geirs Zoëga. Enda var hann sagður orðlagður fyrir það hversu annt hann lét sér um að vanda útbúnað skipa sinna, og vildi jafnan ekkert til þess spara.
10 menn fórust með Reykjavíkinni. Þeir voru eftirfarandi:
Einar Sigurðsson, 33 ára, skipstjóri, búsettur í Bræðraborg í Reykjavík.
Einar var fæddur þann 25. febrúar 1856 á Búastöðum í Vestmannaeyjum. Hann var kvæntur og átti þrjú börn með konu sinni, en það fjórða fæddist eftir að hann lést.
Einar hvílir í votri gröf.
Jón Jónsson, 36 ára, stýrimaður, búsettur í Nýholti í Reykjavík.
Jón var fæddur þann 23. ágúst 1852 í Dúkskoti í Reykjavík. Hann var kvæntur og átti 5 börn með konu sinni, Ragnheiði Vigfúsdóttur, en það sjötta fæddist eftir að hann lést.
Jón hvílir í votri gröf.
Magnús Hjartarson, 24 ára, húsmaður í Kaplaskjóli í Reykjavík.
Magnús var fæddur þann 5. maí 1864 í Skorhaga í Kjósarhr., Kjós. Hann var kvæntur og lét eftir sig tvö ung börn.
Magnús hvílir í votri gröf.
Magnús Oddsson, 25 ára, tómthúsmaður í Barði í Reykjavík.
Magnús var fæddur þann 9. júní 1863 í Barði í Reykjavík. Hann var kvæntur.
Magnús hvílir í votri gröf.
Einar Pálsson, 32 ára, lausamaður á Skólavörðustíg 3 í Reykjavík.
Einar var fæddur þann 25. september 1856 í Skálholtskoti í Reykjavík. Hann var ókvæntur.
Einar hvílir í votri gröf.
Steindór Bjarnason, 27 ára, vinnumaður hjá foreldrum sínum í Ánanaustum í Reykjavík.
Steindór var fæddur 1862. Hann var ógiftur. Bróðir Steindórs, Sigurbjörn (sjá hér fyrir neðan), var einnig í áhöfn Reykjavíkurinnar og fórst með henni.
Sigurbjörn Bjarnason, 23 ára, vinnumaður hjá foreldrum sínum í Ánanaustum í Reykjavík.
Sigurbjörn var fæddur þann 20. maí 1865 á Helgastöðum í Biskupstungnahr., Árn. Bróðir Sigurbjörns, Steindór (sjá hér fyrir ofan), var einnig í áhöfn Reykjavíkurinnar og fórst með henni.
Sigurbjörn hvílir í votri gröf.
Jón Halldór Jörgensson, 21 árs, vinnumaður á Bakka í Reykjavík.
Jón Halldór var fæddur þann 17. september 1867 á Rauðará í Reykjavík. Hann var ógiftur.
Jón Halldór hvílir í votri gröf.
Guðmundur Sigfússon, 21 árs, vinnumaður á Króksstöðum, Ytri-Torfustaðahr., V-Hún. en hann var í Reykjavík til sjómennsku.
Guðmundur var fæddur þann 13. október 1867 í Miðhúsum í Sveinsstaðahr., A-Hún. Hann var ógiftur.
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Theódór Kristinn Guðmundsson, 20 ára, vinnumaður í Melshúsum í Reykjavík.
Theódór Kristinn var fæddur 23. október 1868 í Torfabæ í Reykjavík. Hann var ógiftur.
Theódór Kristinn hvílir í votri gröf.
Heimildir:
Akranes 01.03.1945
Fréttir frá Íslandi 01.01.1889, s. 24
Ísafold 24.04.1889, s. 131
Sjómannadagsblaðið 01.06.1989, s. 84
Sjómannadagsblaðið 04.06.2004, s. 6