Víkurkirkjugarður í Mýrdal

,,Samhliða byggingu Víkurkirkju vaknaði áhugi safnaðarfólks fyrir því að sérstakur kirkjugarður yrði tekin í notkun nálægt hinni nýju kirkju. Áður höfðu Víkurbúar flestir verið jarðsettir í kirkjugörðum Reynissóknar. Úr varð að bræðurnir Ólafur og Jón Halldórssynir gáfu land úr túni Suður-Víkur, sem nýtt grafarstæði Víkursóknar. Valinn var fagur staður ofan kirkjunnar, sem henta þótti vegna jarðvegsdýptar. Að loknum nauðsynlegum undirbúningi var garðurinn girtur smekklegri girðingu og lagður að honum ágætur vegur. Svo sorglega vildi til að annar gefenda landsins undir Víkurkirkjugarð, Ólafur J. Halldórsson andaðist eftir skammvinn veikindi 16. júlí 1934, aðeins 41 árs að aldri og var hann sá fyrsti sem jarðsettur var í Víkurkirkjugarði. Útför hans var gerð 31. júlí 1934 og garðurinn formlega vígður við þá athöfn. Samkvæmt gamalli þjóðtrú telst Ólafur J. Halldórsson „vökumaður“ Víkurkirkjugarðs.”
Heimild: Haraldur M. Kristjánsson

Kjartan Sigurjónsson
Kjartan Sigurjónsson

Í Víkurkirkjugarði í Mýrdal hvílir söngvarinn Kjartan Sigurjónsson (f. 1919 – d. 1945). Kjartan var snemma sönghneigður svo af bar. Hann söng oft á vegum Ríkisútvarpsins, og var um langt skeið einsöngvari hjá Karlakór Rreykjavíkur. Var í London til framhaldsnáms í söng þegar hann veiktist af heilahimnubólgu og lést stuttu síðar. Hann lét eftir sig eiginkonu, Báru Sigurjónsdóttur, danskennara og síðar eiganda verslunarinnar “Hjá Báru”.

Í kirkjugarðinum í Vík í Mýrdal hvílir einnig kirkjulistakonan Sigrún Jónsdóttir. Sigrún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands vorið 1947, þá fráskilin þriggja barna móðir, og hélt til Gautaborgar til framhaldsnáms í listum. Hún útskrifaðist sem meistari úr textíldeild Slöjdföreningens-skóla eftir tíu ára nám og starf að listgreininni í Gautaborg. Sigrún á listaverk í hundraðatali í kirkjum, stofnunum og heimahúsum víða um heim, en lét sig líka almenn menningar- og félagsmál varða.

Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir

Heimildir:
Morgunblaðið, 02.06.1945, s. 8.
Morgunblaðið, 14-12-2001.
Siglfirðingur, 12.05.1945, s. 2.



Scroll to Top