Stóra-Holtskirkjugarður í Fljótum

Kirkja er nefnd í Holti í registri yfir kirkju í Hólabiskupsdæmi 1318. Hún var með prestskyldu í máldaga frá 1461 og fékk ljós- og heytoll af 22 bæjum. Árið 1569 var Holtskirkja sóknarkirkja í bændaaeign og hún hélt þeirri stöðu fram á 20. öld. Á seinni hluta 18. aldar var hún annexía frá Barði. Stóra-Holtkirkja var lögð niður árið 1909, en þá fauk þáverandi kirkja í ofviðri og varð úr að byggja hana ekki upp aftur, en Kirkjuhóll heitir þar sem kirkjan stóð síðast. Holt var aldrei prestssetur eftir siðaskipti, heldur þjónaði presturinn á Barði, Stóra-Holtskirkju.

Stóra-Holtskirkjugarður er staðsettur sunnan og neðan við eldra húsið, og sér móta fyrir lágum hól þar í túninu þar sem eru nokkur minningamörk. Kirkjugarðurinn virðist ná yfir svæði sem er u.þ.b. 37x47m á kant (A-V), vegurinn á milli íbúðarhúss og útihúsanna liggur yfir austurhluta þessarar upphækkunar. Haldið var áfram að grafa í hann eftir að kirkjan fauk. Síðasta greftrun í Stóra-Holti var árið 1942 þegar Guðmundur Davíðsson á Hraunum var borinn þar til moldar. Vestarlega í garðinum á steyptri undirstöðu er minningarplata um sjö einstaklinga frá Hraunum. Auk þess er einn legsteinn yfir Jórunni Magnúsdóttur Waage sem lést áttræð 1904 og hafði um tíma verið á Hraunum. Utan um þann stein er ,,stakett” hið eina í garðinum. Auk þess eru sjáanlegir fimm legsteinar frá 19. öld. Einn þeirra er útlendur, hinir fjórir eru tilhöggnir af Myllu-Kobba.

Stærsti steinninn er útlendur. Hann er tæpir 190 cm á lengd og 86 á breidd og skaddaður af tímans tönn þar sem stór hluti leturflatarins hefur sprungið frá, en er samt læsilegur. Steinninn er áreiðanlega fenginn að tilhlutan Einars Baldvins Guðmundssonar á Hraunum einhvern tíma á sjöunda áratugi aldarinnar. Hann er settur yfir Einar Guðmundsson (1774-1855) á Hraunum og Guðrúnu Pétursdóttur (1768-1851) konu hans og börn, Guðmund Einarsson (1811-1841) og Ólöfu Einarsdóttur (1812-1835).

Hinir steinarnir fjórir eru allir höggnir af Myllu-Kobba. Jafnan setur hann ramma utan um helsta leturflötinn og ferst það heldur vel úr hendi. En þegar kemur að textanum fer allt í handaskol, meira eða minna. Það er augljóst að Kobbi hefur aldrei teiknað fyrirfram á steinana heldur byrjar óskipulega og lendir þráfallt í vandræðum. Stafagerðin er heldur groddaleg og óskipulögð af manni sem lagði fyrir sig steinhögg og leturgerð, stundum með ártalavillum og furðulegu styttingaklúðri.

Minnsti steinninn er yfir Jóhann Jónsson, sagður fæddur 1809 og dáinn 1881. Þetta getur varla verið annar en Jóhann Ísak Jónsson bóndi í Stóru-Brekku 1855-1872 og húsmaður þar 1880, en hann var fæddur 1815 og ekki 1809 eins og meitlað er á steininn. Og svo undarlegt sem það er, þá finnst greftrun hans ekki skráð í Barðskirkjubók.
Steinninn er 80 cm á lengd og 37 cm breiður.

Annar steinn er yfir Jónatan Ögmundsson, síðast bónda á Reykjarhóli 1862-1866; fallegt hellublað, 11-15 cm þykkt um 26 cm á breidd en 126 á lengd.

Þriðji steinninn er yfir séra Pál Tómasson (1797-1881) á Knappsstöðum og Maríu Jóakimsdóttur (1804-1884) konu hans. Er hér rangt farið með fæðingarár prests. Steinninn er fallegur fimmstrendur stuðlabergskubbur, 76 cm langur (62 cm innan ramma) og 25 cm á breidd. Áletrun um Maríu er á þeirri hlið sem frá snýr á myndinni.

Fjórði steinninn er yfir Jón Ólafsson (1808-1873) bónda á Sléttu 1830-1854 og konu hans Ingibjörgu Þórðardóttur (1808-1857). Þau giftu sig 1830 og áttu 14 börn. Steinninn er fallega lagaður úr stuðlabergi, þykkur og fimmstrendur en mesta raun að ráða í letrið og uppsetning með furðulegum hætti. Heildarlengd steinsins er 100 cm en innan ramma 87 cm, breiddin um 40 cm og þykkt að því skapi.

Af lýsingu í örnefnaskrá að dæma gætu kirkjugarðarnir á Stóra-Holti hafa verið tveir. Einn á Kirkjuhóli og annar skammt norður af hólnum sem fjárhúsin standa á, en kirkjuhóll er um 50m norður af fjárhúsunum og mögulegt að um einn og sama garðinn sé að ræða þótt orðalag virðist benda til annars. Engar minjar eru sýnilegar á yfirborði norðan við útihúsin fyrr en komið er að kirkjugarði sunnan íbúðarhússins, engu að síður er mögulegt að grafir gætu verið undir sverði á svæðinu þar á milli.

Í örnefnaskrá Margeirs Jónssonar fyrir Stóra-Holt segir:
Fyrir sunnan lækinn [bæjarlækinn] nefnist Suðurtún en Úttún fyrir utan. Í Suðurtúni neðst er Kirkjuhóll, þar stóð kirkja sú hin stóra og vandaða, sem fauk skömmu eftir aldamótin síðustu [1900].
Í örnefnaskrá Kristjáns Eiríkssonar segir: „Kirkjuhóll. Áður en kirkjan var á Kirkjuhóli var hún á hólnum, þar sem fjárhúsin eru, og kirkjugarðurinn norðan við hólinn. Hestarétt var við kirkjugarðinn, norðan kirkjunnar.“

Í Stóra-Holtskirkjugarði var staðsettur rúnasteinn, sem nú er varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands undir safnnúmerinu 8195. Steinninn var fluttur þangað árið 1920 að frumkvæði Eðvalds Möller verslunarstjóra í Haganesvík sem uppgötvaði hann jarðsokkinn sumarið 1918.

Í steinninn er grunnt hoggin áletrunin:
Hér hvílir undir Thómas Brandarson, hvörs sál eð Guð varðveiti undir sinni blessan.

Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 01.01.1971, s. 59-65 er rökum leitt að því, að hér sé um þann Tómas Brandsson að ræða sem fæddist um 1490, og var bróðir séra Jóns Brandssonar, sem varð prestur á Barði í Fljótum árið 1512. Tómas var sonur Brands Pálssonar og Sigríðar nokkurrar dóttur Guðrúnar Brandsdóttur. Nánari upplýsingar um þetta má finna í fyrrnefndri grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags.

Í hluta af sendibréfi og teikningu Eðvalds Möllers af rúnasteininum kemur staðsetning steinsins var í garðinum. ,,Liggur nú í vestur og austur á leiðinu næsta norður af leiði síra Páls Thómassonar Knappsstaðaprests. Gras gróið yfir suðurbrún og vesturenda rúnaflatar steinsins. Geitaskóf var mikil á steininum og varð að nugga hana af með spýtu til að sjá stafina.”

Heimildir:
Byggðasaga Skagafjarðar IX, s. 246, 342-343
Fornleifaskráning vegna lagningar hitaveitu í Fljótum í Skagafirði
https://is.wikipedia.org/wiki/Stóra-Holt
Rit Byggðarsafn Skagfirðinga I, 2. útg. 2018, s. 41

Fjöldi einstaklinga
21
Fjöldi ljósmynda
15
Ljósmyndari

Hjalti Már Bjarnason


Líka kallaður: Stórholtskirkjugarður, Holtskirkjugarður.




Scroll to Top