Skarðskirkjugarður á Skarðsströnd er staðsettur í Skarðshr. í Dalasýslu. Garðurinn hefur verið myndaður og skráður eftir bestu getu, þ.e.a.s. allir sem skráðir eru hjá garður.is eru nú líka skráðir í Legstaðaleit, sem og aðrir sem við höfum heimildir fyrir því að hvíli í garðinum.
Skarðskirkja er í Hvammsprestakalli í Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi. Skarð er bær og kirkjustaður á Skarðsströnd. Skarð hefur líklega verið kirkjustaður síðan um árið 1200. Í katólskri tíð voru kirkjur staðarins helgaðar Maríu Mey, Jóhannesi postula og Ólafi konungi helga. Skarðskirkja var löngum höfuðkirkja Skarðsþinga og aðrar kirkjur brauðsins voru í Búðardal og Dagverðarnesi. Brauðið var lagt niður 1907 og varð hluti Staðarhólsþinga í Saurbæ. Samkvæmt lögum frá 1970 tilheyrir Skarðskirkja Hvammsprestakalli.
Kirkjugarðurinn er allt umhverfis kirkju og hefur allur verið sléttaður nýlega. Hann er girtur vírneti á járnslám að sunnan og austan, en að norðan er steinhleðsla og er slétt út á hana úr garðinum. Hellustétt er frá sáluhliði og að kirkjudyrum. Annað stærra hlið er við norðausturhorn.
Í garðinum eru nokkrir gamlir legsteinar, er legið hafa á leiðum, íslenzkir frá 19. öld, einnig trékrossar. Hvítmálað járngrindarverk er austan við kirkju um leiði Ingibjargar Ebenezersdóttur Magnúsen og Kristjáns Klingenberg Skúlasonar Magnúsen kammerráðs, yfir hana er settur dökkur marmarasteinn en kalksteinsvarði með marmaraplötu og krossi eru á leiði hans.
Þar hjá liggja einnig þrjár steinhellur, ein úr marmara yfir Kristínu Bogadóttur Magnúsen, d. 1851, er átti fyrst Þórð Ólafsson aðstoðarprest, en síðar Skúla Magnússon sýslumann á Skarði. Hinar tvær eru útlendar einnig og önnur með skjaldarmerkjum efst. Marmarahella er þar einnig á leiði Ebenezers Kristjánssonar Magnusen, d. 1875.
Margir nýlegir minnisvarðar úr marmara eru á leiðum ýmissa ábúenda á Skarði og ættmenna þeirra. Einn þeirra er settur Kristni Indriðasyni bónda á Skarði, og Ingibjörgu Bogadóttur Magnúsen konu hans, er bjuggu á Skarði, og eru myndir af þeim á steininum.
Nokkrir legsteinar eru greinilega fengnir úr Harastaðaklifi á Fellsströnd. Járngrindverk með járnkrossi er um leiði Sturlaugs Einarssonar bónda í Rauðseyjum. Sumir steinar eru fallnir og liggja í grassverðinum.
Fram undan kirkjunni var 1911 gamall legsteinn, yfir Lýð Magnússon, er prestur var til Skarðsþinga frá 1699 til æviloka 1746. Steinninn sést ekki nú, hann er úr blágrýti og virtist nokkuð mótaður af mannahöndum, skjaldarmyndaður, mjórri í neðri endann og með topp upp af efri endanum, lengdt 97 cm, breidd mest 46 cm en neðst aðeins um 20 cm. Letrið er latínuleturs upphafsstafir, um 4 cm háir víðast hvar, áletrunin er í 21 línu, mjög illlæsileg, en Matthías Þórðarson gat lesið á hann:
VIRE. / VERENDUS
/ DN LYDIUS MAGNÆUS SKA /RDIÆ : AC
: BVDARDALENS / ECCLESIARUM PASTOR
VI / SILANTISSMVSSVB HOCIA / CET SAXO
: ANNO DNDENAT / VS M : DCC : XLVI
: ÆTAT = LX / XXVII : NATVS MDCLIX /
PASTORATVS XLIX / PS : XVI: NOTAMT /
AM FACIS MIHLSE / MIITAM VITÆ S / AT
IETATEM SAV / DIOR MINCONSPECCIVTVDA
/ MÆNISSIMO / RVM : DEXTE / RATVAINÆ
/TERNI /TATEM.
Sem útleggst: Undir steini þessum hvílir maður, heiðarlegur herra Lýður Magnússon árvökull hirðir kirknanna að Skarði og Búðardal, látinn á því herrans ári 1746, 87 ára að aldri, fæddur 1659, prestur í 49 ára. Davíðssálmur 16: Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðsignótt er fyrir augnliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
Sumarið 1981 var ráðist í umfansmiklar viðgerðir og endurbætur á gömlu kirkjunni á Skarði á Skarðsströnd. Framan við kirkjutröppurnar var stór steinn. Þegar hann var reistur upp á rönd kom í ljós að þetta var legsteinn Skúla Magnússonar sýslumanns og var áletrun á hliðinni sem snéri niður. Áletrunin var sæmilega læsileg og virtist standa: Hér hvílir Skúli Magnusen… (vantar)… Sýslumaður í Dala-sýslu. Fæddur 6. apríl 1768. Giftur 14. september eftirlifandi ekkju Kristínu Bogadóttur. Sálaðist 14 júní 1837.
Tvö lítil skjaldarmerki voru efst á sitt hvoru horni steinsins.
Við sama tilefni, sumarið 1981, voru steyptir nýir undirstöðustöplar undir grunn kirkjunnar. Er verið var að grafa fyrir nýjum stöpli undir miðjum austurgafli kirkjunnar komu iðnaðarmenn niður á kistuleifar. Datt heimamönnum þá í hug að þar kynnu að vera fundin kista Ólafar ríku, sem sagt var að hefði verið jarðsett veturinn 1479-80 undir altari Skarðskirkju. Kirkjan fauk af grunni sínum í miklu ofviðri árið 1910 og mun í kjölfarið hafa verið stytt um tvo metra, og því var talið líklegt að þessi staðsetning passaði vel við altari gömlu kirkjunnar.
Kistan var gegnsósa af vatni og mjög morkin. Lokið var fallið inn og vegna jarðrasks var ekki hægt að greina með vissu hvernig það hafði verið í laginu. Kistan reyndist vera um 1,9 m að lengd. Neðri hluti kistunnar var betur varðveittur og sást að hliðar og gaflar víkkuðu út, þannig að við fótagafl var kistan um 16 cm að breidd við botninn og um 30 cm við efri brún. Við höfðagafl var hún 60 cm að breidd við efri brún. Þetta bendir til þess að hún hafi verið
sexstrend í laginu og af gerð, sem nefnd hefur verið gerð C, sem talið er að hafi farið að tíðkast á fyrri hluta 18. aldar. Ekki er þó hægt að fullyrða neitt um þetta. Yfir kistunni komu í ljós af gylltum málmþræði, sem glitraði á í jarðveginum. Klæðið sjálft var allt eytt, en málmurinn hafði varðveist.
Þegar grafið hafði verið frá kistunni allri varð ljóst að kistan hafði legið öll utan við kirkjuna og að gröfin var tekin alveg upp að kirkjugaflinum, en lá ekki inn undir hann, eins og í upphafi var talið. Gryfjan sem grafin var fyrir undirstöðustöpli hafði hins vegar komið niður á höfðagafl kistunnar. Svartur litur var utan á kistunni og gæti hún hafa verið svartmáluð. Í líkkistunni fundust engin bein, en um 1 – 2 cm þykkt fitulag lá á botni kistunnar.
Árið 2007 fékk fornleifafræðingurin Dr. Sebastian Värmländer sýnishorn af þráðunum í sambandi við ransnókn sem hann var þá að gera á íslenskum málmþráðum sem fundist höfðu við fornleifarannsóknir á Íslandi. Niðurstöðurnar eru mjög athyglisverðar og sýndu m.a. að þræðirnir eru þeir fínustu sem enn hafa fundist í jörðu hér á landi. Þetta eru útflattir, gylltir silfurþræðir sem sem snúnir hafa verið utan um ullarþráð, sem síðan var ofinn í klæði. Ullarþráðurinn var horfinn og aðeins málmurinn hafði varðveist.
Okkur vantar upplýsingar um legsteinana þrjá sem sjást á myndunum hér fyrir neðan. Ef þú veist eitthvað um þá máttu mjög gjarnan vera í sambandi svo við getum skráð það hjá okkur.
Heimildir:
Kirkjur Íslands 16. bindi, s. 180-181
https://is.nat.is/skardskirkja/
Rannsóknaskýrslur fornleifadeildar 1981: Rannsókn undir kirkjunni á Skarði á Skarðsströnd, eftir Guðmund Ólafsson.
121 |
97 |
Soffía Guðrún Gunnarsdóttir.