Frá því fyrir 1200 og til 1883 var kirkjustaður á Melum í Melasveit og prestssetur og sérstakt prestakall (útkirkja að Leirá), en 1883 var prestsetur og kirkja lagt niður og sameinað Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Síðasta kirkja á Melum var rifin á níunda áratug nítjándu aldar. Kirkjan stóð í kirkjugarðinum – hinum síðasta. En kirkjugarðurinn hafði að minnsta kosti tvisvar verið færður til austurs, fjær sjónum.
Framan við bæinn á Melum – fyrir utan og innan – eru hinir svokölluðu Melabakkar, víða 20-30 metra háir. Jarðvegurinn er sambland af sandi, mold og móhellu. Vegna hæðarinnar, frosta, storma og sjávargangs hefur því landbrotið þarna verið ótrúlega hratt.Túnið á Melum hefur víst um margar aldir náð alveg fram á bakka. Kirkja og kirkjugarður mun alltaf hafa staðið þar framar en bær og aðrar byggingar. Þegar Jónas bóndi Jónssonar (síðar í Sólheimatungu í Stafholtstungum) bjó þar 1884, sagði hann að ræktað land fyrir framan kirkjugarðinn, hafi verið góður stökksprettur fyrir fullfrískan mann.
Þegar Páll Guðmundsson bóndi á Melum (síðar á Innri-Hólmi og á Akranesi) kom að Melum 1910, sló hann og hirti svokallaða tungu, sjávarmegin kirkjugarðsins á bakkanum, norðanvert við gilið, og fékk af henni fullkomnar tvo hestburði af ágætri töðu. Hann rreiddi heyið á hestum og fór með þá sjávarmegin við kirkjugarðinn, og var vegalengdin fram á bakkann, a.m.k. 4 faðmar (6,68 m) á breidd þar sem hann var mjóstur. Páll var á Melum í 10 ár og fylgdist með landbrotinu nákvæmlega, mældi það m.a.s. Hann sagði að á þessum 10 árum hafi brotið af 10 faðma (16,7 m) eða sem svarar 1 faðmi (1,67 m) hvert ár. Stundum meira og stundum minna, eftir veðrum og árferði.
Þegar Páll fór frá Melum 1920, var eftir sem svaraði 2/3 hlutar af kirkjugarðinum. Bein og kistubrot bar Ægir karl með sér og skilaði þeim á austurströnd Borgarfjarðar, allt inn að Straumnesi, litlu utar en gegnt Borgarnesi. Páll lét a.m.k. einu sinni flytja allmikið af beinum og kistubrotum að Leirá og jarðsetja þar. Árið 1943 var allur kirkjugarðurinn farinn í sjóinn og meira en það.
Seinast mun hafa verið jarðað í Melakirkjugarði 1886 eða 1887.
Heimildir:
Sunnudagur fylgirit Þjóðviljans 21.02.1965, s. 81
Tíminn Sunnudagsblað 08.09.1968, s. 678
Akranes 01.07.1951, s. 93
0 |
0 |
Ekki myndaður