Hvanneyrarkirkjugarður er á lágum ávölum hól, Kirkjuhól, austan við kirkjuna. Garðurinn er á hólnum norðanverðum og hallar honum til norðurs en þó einkum til austurs. Kirkjur á Hvanneyri stóðu inni í garðinum en 1893 var byggð timburkirkja utan garðs á háhólnum sunan við kirkjugarðinn, en hún fauk 1902. Var núverandi kirkju þá valinn staður vestan við kirkjugarðinn.
Hvanneyrarkirkjugarður er ferhyrningur að lögun, um 42 m á breidd frá suðri til norðurs og 53 að lengd frá austri til vesturs, en norðvesturhorn hans er sneitt. Gert er um garðinn að vestan og norðan með steinsteyptum stólpum, typptum að ofan, og lágum vegg á mmilli þeirra. Keðja hangir á milli stólpanna. Að sunnanverðu er girðing úr steinsteyptum typptum stólpum og timburslám á milli þeirra en að austanverðu er girt með timburgirðingu úr stólpum og slám.
Sáluhlið er á miðri vesturhlið garðsins og tvö þrep upp í það. Í hliðinu eru steinsteyptir stólpar búnir flötum hatti með barði og kverkbrún undir. Bogmyndað járnrör er upp af og á milli stólpanna og fyrir hliðinu eru járngrindur. Þær eru nýlegar, bogformaðuar að ofan og í þeim lóðréttir teinar, liljuslegnir til endanna og að ofanverður situr hnöttur á enda hvers þeirra.
Í vesturhluta og jafnframt elsta hluta kirkjugarðsins eru allhá birkitré og standa þétt saman, en í austurhluta garðsins, sem enn er ógrafið í að kalla, eru örfá tré. Garðurinn hefur verið sléttaður. Á milli trjánna getur að líta mismunandi minningarmörk að formi og efni. Krossar eru þar úr steypujárni og tré, hellur úr grjóti og steypujárni, steinar höggnir úr grjóti og steinsteyptar umgjarðir eru og um sum leiði.
Undir lundi norðaustarlega í garðinum er að finna grafarplötu úr pottjárni og eru þær afar sjaldgæfar hérlendis. Letrið er á fremur þunnum járnbekkjum sem festir eru við plötuna og virðist letrið vera úr messing eða álíka efni. Víða eru þessi járnbekkir eða járnborðar fallnir af og vantar því í textann. Eru þær eyður táknaðar með punktastriki. Þetta verður lesið af plötunni:
HÉR UNDIR HVÍLA
LEIFAR JARÐNESKAR LANDS HÖFÐINGJA
STEPHANS STEPHENSEN
HANN VAR FÆDDUR 27DA DECEMBER 1767
………………………
EFSTI LANDS YFIRRÉTTAR ASSESSOR
………
………………………..
AMTMAÐUR YFIR VESTUR AMTINU 6TA JÚNÍ
1806
TVIGYPTR FAÐIR 5 DÆTRA
OG 9 SONA
HVORRA TVEIR HANS OG IONAS
……………………
HANN ANDAÐIST ÖLLUM ………..
20 DECEMBR 1820
LOFSTÝR GODRA LIFIR ………..
H. ST. TH. S.
Stafirnir H. ST. og TH. S. gætu verið fyrir Hannes Stephensen og Þórð Sveinbjörnsson. Stefán Stephensen var sonur Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns og konu hans Sigríðar Magnúsdóttur amtmanns Gíslasonar. Hann var íslenskur lögfræðingur sem var varalögmaður norðan og vestan frá 1790 og amtmaður í Vesturamti frá 1806 til dauðadags.
Sunnan við grafarplötu Stefáns er legsteinn konu hans Mörtu Maríu. Er þetta flatur erlendur sandsteinn og hafa líklegast verið marmarakringlur í hornum en þær eru horfnar svo eftir standa skálarnar. Nánast er ógjörningur að lesa á steinninn, svo mikið er kvarnað upp úr letrinu. Ástand steinsins var orðið svona sumarið 1909 þegar Matthías Þórðarson þjóðminjavörður skráði kirkjugripi á staðnum. Marta er skráð höfundur fyrstu íslensku matreiðslubókarinnar, sem nefnist Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur og kom út árið 1800, en líklega var þó Magnús mágur hennar höfundur bókarinnar að hluta eða öllu.
Næsti steinn sunnan við legstein Mörtu Maríu er brotinn og kvarnað upp úr framhlið hans. Efni hans og leturgerð bendir til þess að þetta sé Húsafellssteinn, en ekki hefur tekist að komast að því yfir hvern steinninn var settur.
Enn einn steinninn sem ég hef ekki getað lesið á er á myndinni hér til hægri. Ef þú átt leið um kirkjugarðinn á Hvanneyri og gætir séð hvar í garðinum hann er, væri möguleiki á að ég get fundið út úr hverjum hann tilheyrir. Hægt er að lesa efstu línuna á steininum “Hér blundar vært” en svo gengur mér erfiðlega að lesa meir. Endilega láttu mig vita ef þú getur sagt mér eitthvað meira um þennan stein sem og aðra ólæsilega steina í þessum kirkjugarði.
Heimildir:
Kirkjur Íslands 13. bindi, s. 158-163
Stefán Stephensen – Wikipedia, frjálsa alfræðiritið
142 |
120 |
Laufey Vilhjálmsdóttir Hjörvar (2020).