Syðst í Alþingisgarðinum, undir steinhæð með íslenskum blómum og grösum, hvílir Gunnlaugur Tryggvi Gunnarsson.
Tryggvi fæddist í Laufási við Eyjafjörð 18. október 1835 og var hann elstur 5 systkina. Foreldrar hans voru Gunnar Gunnarsson, prestur í Laufási og kona hans Jóhanna Kristjana Gunnlaugsdóttir Briem. Tryggvi naut í uppvexti meiri menntunar en almennt gerðist, en jafnframt var honum haldið að vinnu. Til 14 ára aldurs ólst hann upp í Laufási. Þá fór hann til móðurbróður síns, Ólafs timburmeistara Briem á Grund til smíðanáms, og dvaldist þar til 16½ árs aldurs en þá fékk hann sveinsbréf.
Árið 1859 gekk Tryggvi að eiga Halldóru Þorsteinsdóttur og sama ár reistu þau bú á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal og þar bjuggu þau til 1863, er þau fóru utan til að leita Halldóru heilsubótar. Dvöldust þau í Kaupmannahöfn veturinn 1863-1864 og lærði Tryggvi m.a. ljósmyndun. Frá Kaupmannahöfn fór Tryggvi til Noregs, en hann hafði fengið 500 ríkisdala styrk í því skyni að kynna sér búnaðarhætti þar. Dvaldi Tryggvi alllengi í Noregi, var á búnaðarskólanum í Ási og nam ostagerð í seljum í Guðbrandsdal og ferðaðist um landið. Má telja víst að við förina til Noregs, hafi hugur Tryggva vaknað, um ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir í búnaði og öðru. Þegar heim kom, settist Tryggvi aftur að á Hallgilsstöðum, en þar var hann bóndi til 1873. Árin 1865-1868 var Tryggvi hreppstjóri í Hálshreppi, en þá vék Pétur Havstein amtmaður honum frá eftir miklar deilur. Þann 7. mars 1873 lést Halldóra kona Tryggva í Kaupmannahöfn, eftir mikil veikindi, en hafði hún verið rúmföst svo lengi að samtals myndi það vera hálfur hjúskapartími þeirra.
Árið 1871 var hann einn af stofnendum Gránufélagsins og var hann kaupstjóri þess frá stofnun til 1893. Þá varð hann bankastjóri Landsbankans í Reykjavík og hélt því starfi til 1909, var þá vikið frá, en Alþingi ákvað að hann nyti fullra eftirlauna til æviloka.
Tryggvi teiknaði og var yfirsmiður bæði kirkjunnar í Laufási, sem og kirkjunnar á Hálsi í Fnjóskadal. Hann var þjóðkjörinn umsjónarmaður með byggingu alþingishússins 1879-1881 en frægastur var hann af brúarsmíðunum. Hann stóð fyrir byggingu brúar á Eyvindará í Fljótshéraði, Skjálfandafljóti, Glerá, Þverá í Eyjafirði og á Jökulsá á Brú. En stærst og merkust er Ölfusárbrúin sem var byggð 1891.
Tryggvi sat fyrst á þingi 1869 og var þá þingmaður Norður-Þingeyinga. Þingmaður Sunnmýlinga var hann 1875-1885. Þá gaf hann ekki kost á sér til þingsetu í bili. Aftur varð hann þingmaður Árnesinga frá 1894-1899 og loks þingmaður Reykvíkinga frá 1901-1907. Eftir það gaf hann ekki aftur kost á sér, en samtals sat hann 16 þing.
Tryggvi var forseti Þjóðvinafélagsins 1880–1911 og 1914–1917. Hann var mikill dýravinur og stofnaði Dýraverndarfélag Íslands árið 1914. Tryggvi var formaður þess frá stofnun til æviloka. Hann unni einnig náttúrunni og í Alþingsgarðinum átti hann margar gleðistundir við að hjúkra nýgræðingnum. Þar kaus hann sér sjálfur legstað og var garðurinn vígður sem heimagrafreitur til að verða við ósk hans. Yfir leiðinu stendur brjóstmynd af Tryggva, gerð af Ríkharði Jónssyni.
Heimildir:
Ægir 01.11.1917, s. 157-168.
Æviágrip Tryggva Gunnarssonar á heimasíðu Alþingis.
blaðið 06.06.2007, s. 24.
1 |
3 |
Hörður Gabríel