Teinæringurinn Snarfari – 1861

Teinæringur
Teinæringur

10. desember 1861 lögðu þrír teinæringar frá Flatey og Bjarneyjum af stað í hákarlaleguferð. Formennirnir voru Ólafur Guðmundsson, oft nefndur Bárar-Ólafur og Jón Þorkelsson, báðir úr Flatey en úr Bjarneyjum var Bjarni Jóhannesson fyrir þriðja skipinu. Ólafur átti sjálfur sitt skip sem bar nafnið Gustur og á því voru 12 skipverjar. Skip Bjarna, Sæmundur, var eign Jóhannesar Magnússsonar í Magnúsarbúð í Bjarneyjum, föður Bjarna. Á því voru einnig 12 skipverjar, allir úr Bjarneyjum. Skip Jóns Þorkelssonar úr Flatey bar nafnið Snarfari og á því voru 12 skipverjar á aldrinum 17 til 41 árs. Snarfari var talið “annað skip mest á Breiðafirði” en eigandi þess var Brynjólfur Bogason Benediktsen kaupmaður í Flatey.

Veður var gott þennan dag og lögðust skipin á innstu miðum í svonefndum Bjarneyjarál, og lagðist Snarfari innst, eða næst landi. Um nóttina gerði norðaustan veður og um morguninn sigldu skipin úr legunni. Náði skip Ólafs Stykkishólmi og skip Bjarna Elliðaey og skip Jóns Þorkelssonar hefði átt að geta náð Fagurey. En í stað þess að sigla suður, er það talið öruggt að Jón hafi siglt norður og ætlað sér að ná Oddbjarnarskeri, sem er gömul verstöð og 1½ mílu vestur af Flatey. Í þessu veðri mun þetta hafa verið hið mesta óráð og varð hann að snúa við og leita suður yfir Breiðafjörð. Þykir víst að þegar hér ber sögu hafi verið mjög á dag liðið og veðrið mun hafa verið orðið talsvert verra.

Flatey á Breiðafirði
Flatey á Breiðafirði

Talið er ólíklegt að skipið hafi lent á skeri, heldur mun óveður og stórsjór hafa valdið því að skipið fórst. Líklegt þykir, miðað við það sem rak af skipinu en það rak rak hjá Rauðusteinum á Harðakambi undir Jökli, að það hafi farist undir segli, því stýrið rak með sveifinni á. Einnig getur verið að siglutréð hafi dottið út í hléborða, því bæði höfuðböndin á kulorða voru slitin. Þetta getur borið að með margvíslegum hætti, þannig að ekkert er hægt með vissu um það að segja.

Með Snarfara fórust 12 menn, þeir voru:

  • Jón Þorkelsson, 36 ára, var fæddur 1825 í Moshlíð, Barðastrandarhr., V-Barð. Jón var formaður Snarfara. Hann skildi eftir sig eiginkonu og eitt barn.
  • Andrés Andrésson, 33 ára, var fæddur 23. apríl 1828 í Skáleyjum, Flateyjarhr., A-Barð. Andrés var fóstursonur Jóhönnu, ekkju Ólafs prófasts Sívertsen í Flatey. Var hann maður í sinni röð einstaklega vel menntaður, duglegur mjög og hvers manns hugljúfi er þekkti hann, og mátti telja hann einhvern hinn efnilegasta af yngri bændum í Eyjahrepp. Fullyrða má og að sem sjómaður hafi hann verið besti liðsmaðurinn á Snarfara. Andrés hafði verið á Snarfara veturinn áður, þegar þeir voru hætt komnir. Bað Jóhanna fóstra hans hann oft um að fara ekki í þessa legu á Snarfara, og hafði hann heitið því, en brá út af loforði sínu á síðustu stundu, sumir segja fyrir þrábeiðni Jóns. Andrés lét eftir sig eiginkonu, sex dætur og þá sjöundu á leiðinni. Þegar hún fæddist var hún skírð í höfuðið á föður sínum; Andrésa.
  • Þorgeir Einarsson, 34 ára, var fæddur 4. september 1827 í Klettakoti, Fróðárhr., Snæf. Þorgeir var kvæntur Guðrúnu Andrésdóttur, systur Andrésar hér fyrir ofan. Þau áttu þrjár dætur og fjórða barnið á leiðinni. Það var sonur, sem var skírður í höfuðið á föður sínum; Þorgeir.
  • Konráð Jónsson, 32 ára, var fæddur 11. janúar 1829 að Hólum, Tálknafjarðarhr., V-Barð. Hann skildi eftir sig eiginkonu.
  • Stefán Jónsson, 41 árs, var fæddur 7. júlí 1820 í Litla-Holti, Saurbæjarhr., Dal. Hann lét eftir sig eiginkonu og sex börn.
  • Jóhannes Dagsson (sumsstaðar skrifaður Davíðsson), 36 ára, var fæddur 7. september 1825 í Hergilsey, Klofningshr., Dal.  Jóhannes var trésmiður í Flatey og lét eftir sig eiginkonu og eina dóttur.
  • Jens Pétur Pétursson, 28 ára, var fæddur 8. október 1833 í Arney, Klofningshr., Dal. Eftir því sem ég kemst næst var hann einhleypur.
  • Sigurður Björnsson, 36 ára, var fæddur 1825. Hann var einhleypur. (Ef þú veist eitthvað meira um Sigurð máttu gjarnan láta mig vita).
  • Davíð Ólafsson, 18 ára, var fæddur 1843 í Hamri, Barðastrandarhr., V-Barð. Davíð var einhleypur. Davíð var fóstursonur Bergsveins bónda í Hergilsey, en hann var bróðir Jóns Þorkelssonar. Davíð var ekki ætlað að vera með í legu þessari, en Bergsveinn bóndi kom til Flateyjar daginn áður og stóð þá svo á, að einn af þeim sem var ráðinn í leguna hætti við að fara og réðst Davíð í hans stað.
  • Bjarni Pétursson, 17 ára, var fæddur 3. febrúar 1844 í Bjarnarhöfn, Helgafellssveit, Snæf. Bjarni var fóstursonur Brynjólfs Benediktsen kaupmanns sem átti Snarfara.
  • Finnbogi Þórðarson, 24 ára, var fæddur 16. janúar 1837 í Haga, Barðastrandarhr., V-Barð. Finnbogi var einhleypur.
  • Bjarni Jónsson, 20 ára, var fæddur 2. maí 1841 í Markúsarbúð í Ólafsvík. Bjarni var einhleypur.

Ef þú hefur einhverju við að bæta máttu endilega láta mig vita.

Heimildir:
Blanda 01.01.1944, s. 100-109
Fiskifréttir 06.06.1986, s. 12
Íslendingur 22.05.1862, s. 23-24
Vísir 17.09.1939, s. 5

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top