Seglskipið Gyða – 1923

Seglskipið Gyða var eign Péturs J. Thorsteinssonar og var hún gerð út frá Bíldudal. Hún var einmastraður þiljubátur, smíðuð 1892 í Bíldudal upp úr stórum nótabát af Kristjáni Kristjánssyni smið. Gyða var eitt af þremur skipum sem Pétur lét smíða, og voru þau öll látin heita í höfuðið á dætrum þeirra hjóna.

Seglskipið Gyða
Seglskipið Gyða

Föstudagskvöldið, fyrsta í sumri 1923, mætti skip frá Bíldudal Gyðu á innsiglingu út í mynni Arnarfjarðar. Um nóttina, um kl. 1-2, gerði afspyrnuveður af norðri, með frosti og fannkomu, og er álitið að Gyða hafi verið komin inn undir Stapadal er hún fórst þann 23. apríl 1910. Þar rak af henni ýmislegt lauslegt þar á meðal voru tveir þiljuhlera og tvo sjóhatta, á Fífustaðahlíðum, milli Fífustaða og Selárdals, mest af þessu á mánudeginum eftir að slysið varð.

Svo gerist það í nóvember 1953 að Gunnar Jóhannsson og Kristinn Ásgeirsson, báðir frá Bíldudal, eru á rækjuveiðum skammt frá Lokinhömrum á v.b. Frigg, er þeir fá stórt siglutré í vörpuna. eftir mikið erfiði tókst þeim loks að ná siglutrénu og koma því til hafnar í Bíldudal. Þegar þetta gerðist voru liðin 43 ár síðan að Gyða fórst á þessum slóðum, og furðu menn sig á því hversu lítið siglutréið var skemmt. Það var 14 metra langt, en ekki digurt.

Urðu menn frá “skútuöldinni” fljótt sammála um að þetta siglutré væri af Gyðu. Þegar nokkrum ættingjum þeirra sem fórust með Gyðu, varð þetta kunnugt, ákváðu þeir að siglutréð skildi verða hluti af minnisvarða sem um ár og aldir myndi minna á þessa ástvini þeirra. Og sá minnisvarði var afhjúpaður á Bíldudal 24. júlí 1954.

Árið 2003 var mastur Gyðu orðið lélegt og því endunýjað með mastri Katrínar BA sem úreld var árið 1993 og brennd í Fossafirði. Mastur Katrínar hafði verið tekið úr skipinu og sett í geymslu áður en skrokkur hennar var brenndur. Mastrið er 11 metra hátt, líkt og gamla mastrið af Gyðu.

Þeir sem fórust með Gyðu voru:


Þorkell Kristján Magnússon skipstjóri, 45 ára, var fæddur 22. ágúst 1864 í Fremri-Hvestu, Ketildalahr., V-Barð. Hann var til heimilis í Bíldudal.

Þorkell var fyrst skipstjóri með Gyðu 1892 nokkur ár, tók því næst við skipstjórn á ,,Maríu”, því næst á ,,Lull”, báðum frá Bíldudal og loks aftur á ,,Gyðu” skipinu sem hann hvarf með í hafið ásamt skipshöfn sinni. Hann var duglegur og aflasæll formaður eins og margir skipstjórar frá Bíldudal voru á hinu glæsilega tímabili, er Pétur Thorsteinsson var á hinu besta skeiði.

Þorkell var kvæntur Ingibjörgu Sigurðardóttur og átti með henni 9 börn, þar af lifðu 4 á aldrinum 1 árs til 16 ára. Sonur hans Magnús (sjá næsta fyrir neðan) var stýrimaður á Gyðu og fórst með henni eins og faðir hans.

Þorkell hvílir í votri gröf.


Magnús Þorkelsson stýrimaður, 18 ára, var fæddur 7. júlí 1891 á Litlu-Eyri, Suðurfjarðahr., V-Barð. Hann var til heimilis í Bíldudal.

Magnús var sonur Þorkels skipstjóra. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Magnús hvílir í votri gröf.


Einar Jóhannsson háseti, 32 ára, var fæddur 22. júlí 1877 á Hallsteinsnesi, Gufudalshr., A-Barð. Hann var til heimilis að Bakka, Ketildalahr., V-Barð.

Einar var kvæntur Hólmfríði Þorláksdóttur og áttu þau 4 börn saman á aldrinum 2 til 9 ára.

Einar hvílir í votri gröf.


Ingimundur Loftsson háseti, 59 ára, var fæddur 26. apríl 1850 í Hólshúsum, Ketildalahr., V-Barð. Hann var til heimilis að Fossi, Suðurfjarðahr., V-Barð.

Ingimundur var kvæntur Sigríði Þórðardóttur en hún lést 1904. Þau áttu saman tvo syni og tvær dætur en önnur þeirra, Margrét, lést rétt rúmu ári á undan föður sínum.

Ingimundur hvílir í votri gröf.


Jóhannes Leopold Sæmundsson háseti, 30 ára, var fæddur 15. nóvember 1879 að Uppsölum, Barðastrandarhr., V-Barð. Hann var til heimilis að Efra-Vaðli, Barðastrandarhr., V-Barð.

Jóhannes var kvæntur Guðrúnu Guðmundsdóttur og áttu þau einn son saman, Sæmund Leópold. Annar sonur, Jóhannes Leópold, fæddist mánuði eftir að Jóhannes fórst.

Jóhannes hvílir í votri gröf.


Jón Jónsson háseti, 20 ára, var fæddur 19. október 1890 í Tungu, Tálknafirði.

Jón var til heimilis í Gilhaga, Bíldudal og var ókvæntur og barnlaus.

Jón hvílir í votri gröf.


Jón Jónsson háseti, 54 ára, var fæddur 23. ágúst 1855 í Steinanesi, Suðurfjarðahr., V-Barð. Hann var til heimilis í Hokinsdal, Auðkúluhr., V-Ís.

Jón var kvæntur Guðríði Sigmundsdóttur og áttu þau eina uppkomna dóttur.

Jón hvílir í votri gröf.


Páll Jónsson háseti, 16 ára, var fæddur 2. ágúst 1893 í Otradal, Suðurfjarðahr., V-Barð. Hann var til heimilis í Bíldudal.

Páll var sonur séra Jóns Árnasonar, prests á Bíldudal og konu hans Jóhönnu Pálsdóttur. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Páll hvílir í votri gröf.


Heimildir:
Safnaðarblaðið Geisli 24.12.1953, s. 164
Safnaðarblaðið Geisli 01.09.1954, s. 119-122
Sjómannablaðið Víkingur 01.02.1943, s. 57
Sjómannablaðið Víkingur 01.04.2013, s. 56
Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi 05.08.1910, s. 144

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top