Geir GK 198 – 1946

Vélbáturinn Geir GK 198 var 22 smálestir að stærð, smíðaður í Reykjavík árið 1938 og var mjög traustur bátur. Eigandi hans var Guðmundur Kristján Guðmundsson, skipstjóri og aflakóngur Keflvíkinga, en hann fórst með bátnum.

Föstudaginn 8. febrúar 1946 fóru Keflavíkurbátar flestir á sjó. Þó var veðurspá heldur slæm, enda snéru 3 bátar aftur. Fram eftir nóttu var veður sæmilegt en seinni hluta nætur gerði aftakaveður að suðvestan. Bátar voru almennt á sjó sunnan lands og vestan. Hafrót varð þvílíkt að margir sjómenn í Keflavík töldu sig ekki hafa lent í öðru eins á siglingu fyrir Garðskaga. En sigling í suðvestan átt fyrir skagann getur verið afar varasöm þegar mikið hvassviðri er. Ýfist þá röstin fyrir utan og brotsjóir myndast.

Um kl. 4 e. h. á laugardeginum 9. febrúar fóru fyrstu bátarnir að koma að landi í Keflavík. Sóttist sumum ferðin seint, sem nærri má geta, enda óx veðurhæðin stöðugt er á daginn leið. Um miðnætti voru allir Keflavíkurbátarnir komnir í land nema vb. Geir.

V.b. Geir GK 198 í fjörunni við Vatnsneshöfn 1944
V.b. Geir GK 198 í fjörunni við Vatnsneshöfn 1944

Í birtingu sunnudagsmorguninn 10. febrúar, hóf flugvél frá Loftleiðum leit. Var hún á lofti í hálfa þriðju klukkustund, flaug yfir Faxaflóa og 30 mílur í vestur og suður um að Reykjanesi. Skyggni var ágætt, en ekkert fannst. Um hádegisbil sama dag, var skýrt frá því að um morguninn hefði fundist brak í fjörunni við Bæjarsker. Voru það lóðastampar og belgir, merktir Geir GK 198. Einnig fannst þar afturmastur bátsins og brak úr stýrishúsi. Var talið að báturinn hefði farist á heimleið, trúlega út af Garðskaga.

5 menn fórust með vélbátnum Geir. Þeir voru:


Guðmundur Kristján Guðmundsson

Guðmundur Kristján Guðmundsson, skipstjóri, 49 ára, búsettur í Keflavík. Hann lét eftir sig konu, tvo uppkomna syni og unga fósturdóttur.

Guðmundur var fæddur í Keflavík þann 14. janúar 1897. Hann var 13 þegar hann fór fyrst á togara sem hjálparkokkur og eftir 13 mánaða veru við það starf, komst hann á dekk. Síðan var hann á togurum þar til þeir voru seldir í byrjun fyrra stríðsins. Þá fór hann á vélbátaflotann – ísfirsku bátana – og var þar í 8 ár með frægum afla- og ágætismönnum, svo sem Guðmundi Þorláki, Guðmundi Júní og Magnúsi Vagnssyni. Sjómannaskólanámi lauk hann á Ísafirði, en af Guðmundi Þorláki taldi hann sig hafa mest lært af því sem viðkom verklegri sjómennsku. Hann fór svo á togara um 1922 og var þar í nokkurn tíma.
1929 byrjaði hann sem skipstjóri á vb. Gullfossi frá Keflavík, og næstu 13 árin sem hann var formaður, var hann með 6 báta, bæði fyrir sjálfan sig og aðra, og oftast gekk það nokkuð vel.


Sigurður Páll Ebeneser Sigurðsson

Sigurður Páll Ebeneser Sigurðsson, vélstjóri, búsettur í Keflavík.

Páll fæddist þann 29. október 1916 í Skáladal í Aðalvík, Sléttuhr., N-Ís. Hann lét eftir sig konu og tvö börn.

Föður sinn missti hann ½ árs gamall. Í Skáladal ólst hann upp til 12 ára aldurs hjá móður sinni og föðurforeldrum, en fluttist þá með móður sinni og stjúpa til Hnífsdals og átti þar heima til ársins 1936, er hann ásamt þeim flutti til Reykjavíkur. Síðustu 6 ár ævinnar átti hann heima í Keflavík þar sem hann var lengst af vélstjóri á Geir GK, og ávallt með sama skipstjóranum, hinum aflasæla Keflvíking og góða dreng, Guðmundi Kr. – vináttu og gagnkvæms trausts, og var svo til æfiloka beggja. Páll var prúður svo af bar í framkomu, hlýr í viðmóti, einlægur og viðkvæmur. Greindur og víðlesinn.


Mynd vantar

Marías Þorsteinsson, háseti, 39 ára, búsettur á Ísafirði.

Marías fæddist þann 25. mars 1906 á Borg í Skötufirði, Ögurhr., N-Ís. Hann var ekkill, og lét eftir sig einn ungan son.


Ólafur Guðmundsson

Ólafur Guðmundsson, háseti, 20 ára, búsettur í Keflavík.

Ólafur fæddist þann 12. nóvember 1925 í Keflavík.


Kristinn Ragnarsson

Kristinn Ragnarsson, háseti, 21 árs, búsettur á Hellissandi.

Kristinn fæddist þann 21. nóvember 1924 á Hellissandi.


Snemma árs 1947 lét Ingibjörg ekkja Guðmundar Kr. skipstjóra, reisa minnisvarða um áhöfnina á Geir. Varðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík. Ég er því miður ekki með mynd af minnisvarðanum.


Heimildir:
Faxi 01.06.1942, s. 1-2
Faxi 01.03.1946, s.1
Faxi 01.01.1986, s. 26-27
MBL 12.02.1946, s. 1
MBL 23.03.1946, s. 5
Ægir 01.02.1946, s. 75

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top