Skuld VE 263 – 1980

Skuld VE 263 var 15 tonn, byggð árið 1921 í Danmörku, lengd árið 1943 og sett í hana156 hestafla Scania Vabis aðalvél árið 1972. Hún var byggð fyrir Ársæl Sveinsson, en komst í eigu Guðjóns Jónssonar 1946 og var í eigu hans þar til 1965 að hann varð að hætta vegna vanheilsu. Þá tók Bergþór Guðjónsson sonur hans við. Þegar hún fórst var hún gerð út frá Vestmannaeyjum. Eigendur hennar voru Ólafur Friðrik Guðjónsson, Gísli Leifur Skúlason, Sigurvin Þorsteinsson og Kristinn Kristinsson, en hann var sá eini sem ekki var á bátnum þegar hann fórst. Höfðu þeir félagarnir keypt Skuld þá um vorið.

Skuld VE 263 - Mynd: Ægir 01.10.1980, s. 559
Skuld VE 263 – Mynd: Ægir 01.10.1980, s. 559

Skuld VE 263 var á lúðuveiðum með haukalóð á Selvogsbanka fimmtudaginn 10. júlí 1980. Þá um morguninn fór að hvessa af suð-vestri og hættu skipverjar veiðum og héldu sjó. Var báturinn þá staddur 14-15 sjómílur suð-vestur af Geitahlíð. Um borð voru fjórir skipverjar. Tveir þeirra, Ólafur Guðjónsson skipstjóri og Þorvaldur Hreiðarsson voru í stýrishúsi, en hinir tveir Gísli Leifur Skúlason og Sigurvin Þorsteinsson, voru í kojum fram í lúkar.

Klukkan 13:15 reið skyndilega brotsjór yfir bátinn. Lagðist hann strax á hliðina, síðan hvolfdi honum og loks sökk báturinn. Gerðist þetta allt á nokkrum sekúndum. Þeim Ólafi og Þorvaldi tókst með naumindum að komast í gúmmíbjörgunarbát en til Gísla Leifs og Sigurvins sáu þeir aldrei.

Svo mikill var flýtirinn að Ólafur og Þorvaldur náðu hvorki að senda út neyðarkall né að taka með sér neyðartalstöð. Rak gúmmíbátinn hratt vestur með Reykjanesi og það var ekki fyrr en klukkan rúmlega tólf að vart var við bátinn þegar þeir félagar sendu út neyðarflugeld en þá voru þeir staddir útaf Grindavík.

Boðum var strax komið til Slysavarnarfélagsins sem gerði ráðstafanir til björgunar. Skipverjar á vöruflutningaskipinu Bifröst sáu einnig neyðarflugeldinn og um kl. 00:30 var búið að bjarga þeim Ólafi og Þorvaldi um borð í skipið.

Þeir sem fórust voru:


Gísli Leifur Skúlason, 35 ára, til heimilis að Brekastíg 31 í Vestmannaeyjum.

Gísli Leifur fæddist þann 20. desember 1944 að Lambhaga í Rangárvallahr., Rang. Foreldrar hans voru Skúli Jónsson (1919-1988) og Guðrún Helga Gísladóttir (1915-2011), fósturfaðir Gísla Leifs var Sveinn Þórarinn Sigurðsson (1905-1996). Gísli Leifur ólst upp hjá móður sinni og stjúpföður, fyrstu árin í Lambhaga og síðan í Vestmannaeyjum. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Gísli Leifur hvílir í votri gröf en hans er minnst á legstein móður hans og fósturföðurs í Vestmannaeyjakirkjugarði (sjá mynd hér til hægri).


Sigurvin Þorsteinsson, 30 ára, til heimilis að Hásteinsvegi 33 í Vestmannaeyjum.

Sigurvin fæddist þann 5. janúar 1950 í Vesturhúsum í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Ólafsson (1896-1967) og Gíslný Jóhannsdóttir (1911-1993). Sigurvin var búinn að vera á mörgum bátum í Eyjum, ásamt togurum. Hann gjörþekkti öll veiðarfæri sem í sjó fara. Alltaf fylgdi Sigurvin fiskur, á hvaða fleyi sem hann var. Hann var að dómi félaga sinna einhver sá allra duglegasti og ósérhlífnasti maður sem á sætrjám hefur flotið. Sigurvin var ókvæntur og barnlaus.

Sigurvin hvílir í votri gröf.


Heimildir:
Dagblaðið 12.07.1980, s. 1
Fylkir 08.05.1980, s. 4
Fylkir 17.07.1980, s. 4
MBL 12.07.1980, s. 40
MBL 27.08.1980, s. 23
Tíminn 12.12.1978, s. 9
Þjóðviljinn 27.08.1980, s. 6
Ægir 01.10.1980, s. 559

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top