Fjölnir ÍS 7 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi í janúar árið 1922 og hét þá Coutea. Var báturinn upprunalega 98 brl og hafði 220 hestafla gufuvél. Frá 1927 til 1930 hét báturinn Þuríður sundafyllir, frá 1930 til 1933 hét hann Fjölnir RE 271 og frá 1933 hét hann Fjölnir ÍS 7. Árið 1940 var hann lengdur og mældist 123 brl. eftir það. Fjölnir var í eigu h/f Fjölnis á Þingeyri þegar hann fórst.
Fjölnir var á leið frá Vestmannaeyjum hlaðinn fiski. Var þetta fyrsta ferð hans út á árinu, þar sem hann var nýkominn úr langri viðgerð. Ferðin hafði gengið að óskum og skipið farið að nálgast strendur Skotlands þegar slysið vildi til, um kl. 11 að kvöldi þess 9. apríl 1945.
Breskt skip, Lairdsgrove frá Glasgow, um 2000 tonna flutningaskip, sigldi á Fjölni framanverðan, í myrkrinu. Fjölnir lagðist þegar á hliðina og sökk á þrem mínútum, eftir því, sem skipverjum á Lairdsgrove taldist til. Skipverjarnir á Fjölni sáu engin ljós á Lairdsgrove, en Fjölnir var með fullum ljósum. Skipstjóri, ásamt tveimur hásetum, var í brúnni er áreksturinn varð. Gat skipstjóri stokkið út á síðuna og komið sér í sjóinn. Annar þeirra, sem var í brúnni með skipstjóra, komst af, en hinn týndist.
Skipstjóri telur, að allir skipverjar, að einum undanskildum, hafi komist frá skipinu. Björgunarflekanum skaut upp þegar skipið var sokkið og komust fjórir skipverjanna, er voru syndir, upp á hann af eigin rammleik. Stýrimanninum, Steinþóri Benjamínssyni var bjargað upp á flekann, en hann var ósyndur. Svo var dimmt að varla sá út úr augunum, en á flekanum var ljós, svo auðvelt var að finna hann.
Breska skipið mun hafa staðnæmst eftir áreksturinn varð, því að þegar skipbrotsmennirnir fimm komu upp á flekann, sást það rétt hjá þeim, og eftir nokkra stund kom bátur frá því og tók þá um borð. Flutti skipið þá síðan til Londonderry á Írlandi. Þar fengu þeir hina bestu aðhlynningu á sjómannaheimili, m.a. ný föt, yst sem innst.
Þeir fimm sem komst af voru:
Jón Sigurðsson
(1906-1995)
Skipstjóri
Steinþór Ingimundur Benjamínsson
(1886-1971)
Stýrimaður
Jón Gíslason
(1912-1982)
1. vélstjóri
Þorkell Þórðarson
(1906-1970)
2. vélstjóri
Þorlákur Halldór Arnórsson
(1924-2016)
Háseti
Þeir sem fórust voru:
Guðmundur Snorri Ágústsson, 22 ára, kyndari frá Sæbóli í Aðalvík í Sléttuhr., N-Ís.
Guðmundur fæddist þann 21. apríl 1922 að Sæbóli í Aðalvík. Foreldrar hans voru Ágúst Ísleifsson (1893-1975) og Halldóra Ingibjörg Hjálmarsdóttir (1896-1980). Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Sigurður Pétur Sigurðsson, 27 ára, kyndari frá Hvammi í Dýrafirði, Þingeyrarhr., V-Ís.
Pétur fæddist þann 25. mars 1918 að Hvammi í Dýrafirði. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson (1888-1941) og Margrét Jóna Petrína Arnfinnsdóttir (1895-1969) hjón þar. Sigurður faðir Péturs, var 2. vélstjóri á línuveiðaranum Pétursey, og fórst á leið til Englands með því skipi í mars 1941. Pétur var elstur af 6 sonum þeirra hjóna og mesta stoð móður sinnar eftir það, að hún missti mann sinn. Pétur var nærgætinn og umhyggjusamur sonur. Fylginn sér og fjölhæfur. Vinsæll og hjartahlýr. Hann hafði réttindi til at færa skip frá 6-15 rúmlesta stærð. Var handgenginn vélum og átti og hélt úti um skeið, mótorbátnum ,,Auði djúpúðgu”. Pétur var ókvæntur og barnlaus.
Pétur hvílir í votri gröf.
Gísli Aðalsteinn Gíslason, 30 ára, háseti frá Ísafirði.
Gísli fæddist þann 19. júní 1914 á Ísafirði. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Þorbergsson (1870-1963) og Gestína Sigríður Þorláksdóttir (1876-1952). Gísli var ókvæntur og barnlaus.
Gísli hvílir í votri gröf.
Magnús Gestur Jóhannesson, 22 ára, matsveinn frá Þingeyri við Dýrafjörð.
Magnús fæddist þann 25. júní 1922 að Ásgarðsnesi á Þingeyri við Dýrafjörð. Foreldrar hans voru hjónin Jóhannes Þórður Jónsson (1880-1949) og Þorvaldína Jóna Helgadóttir (1881-1972). Bróðir Magnúsar, Óskar Helgi Jóhannesson fórst með vélbátnum Hólmsteini ÍS 155 árið 1941. Að loknu barnaskólanámi gekk Magnús einn vetur á héraðsskólann á Núpi. Veturinn 1942-43 sótti hann vélanámskeiði á Þingeyri og aflaði sér vélstjórnarréttinda. Stundaði hann svo jöfnum höndum sjómennsku og landvinnu, og var ötull og lagvirkur að hverju sem hann gekk. Natni hans og ástundun gerði hann færan um að reynast vel, þótt hann legði fyrir sig fjölþætt og ólík verk, og kunni til sjómennsku jafnt og almennra sveitastarfa.
Hann var glaðlyndur, en þó viðkvæmur í lund. Fór sínu fram og hafði lítt orð á, þótt hann skipti skapi. Góður félagi og vinsæll. Saknað mest af þeim, er þekktu hann best. Hreinlundaður og tryggur. Magnús var ókvæntur og barnlaus.
Magnús hvílir í votri gröf.
Pálmi Jóhannsson, 30 ára, háseti frá Miðkrika í Hvolhr., Rang.
Pálmi fæddist þann 4. nóvember 1914 að Miðkrika í Hvolhr. Foreldrar hans voru hjónin Jóhann Pétur Þorkelsson (1870-1936) og Valgerður Guðmundsdóttir (1875-1962). Pálmi var ókvæntur og barnlaus.
Pálmi hvílir í votri gröf, en hans er minnst á legstein foreldra hans í Stórólfshvolskirkjugarði.
Heimildir:
Sjómannablaðið Víkingur 01.04.1945, s. 78
Sjómannablaðið Víkingur 01.09.1945, s. 223-
Ægir 01.02.1945, s. 70-71
Tíminn 20.04.1945, s. 1
Víkurfréttir 20.10.2021, s. 6
Þjóðviljinn 12.04.1945, s. 8
Þórhallur Sófusson Gjörveraa
https://www.humberpacketboats.co.uk/selby.html