DS Bisp – 1940

DS Bisp var norskt flutningaskip frá Haugasundi, byggt árið 1889 í hafnarborginni Sunderland í Englandi af Sunderland Shipbuilding Co. Var það 1000 brúttótonn og 64 m á lengd. Hafði það áður m.a. heitið Truro City, Normandie og Norli, en þegar útgerðarfyrirtækið O. Kvilhaug í Haugasundi yfirtók skipið árið 1913, fékk það nafnið Bisp.

Gufuskipið D/S „Bisp“ við bryggju.
Gufuskipið DS Bisp – Mynd: https://digitaltmuseum.no

Skipstjóri Bisp var Rolf Kvilhaug, 35 ára gamall, og var hann sonur útgerðarmannsins. Bróðir hans, Sverre, var 2. stýrimaður. Bisp var mikið í Íslandsferðum og 12. nóvember 1939 var það statt í Vestmannaeyjum til að losa kol. Þar réðust þrír Íslendingar á skipið, þeir Þórarinn Sigurður Thorlacius Magnússon, Haraldur Bjarnfreðsson og Guðmundur Eiríksson.

Þann 20. janúar 1940 lagði Bisp af stað frá Sunderland með farm af kolum og koksi, og var stefnan tekin á Åndalsnes í Noregi. Bisp náði hinsvegar aldrei á leiðarenda, og 16. febrúar var það skráð sem saknað. Í fyrstu var talið að skipinu hafi verið sökkt af þýska kafbátnum U-23 undir stjórn Otto Ketschmer, þann 23. janúar. En síðar hefur komið í ljós að hér mun hafa verið um að ræða kafbátinn U-18 sem stýrt var af Ernst Mengersen. Skv. skýrslum sem Mengersen skráði kom kafbáturinn auga á Bisp rétt eftir miðnætti þann 24. janúar og var það ljóslaust og sigldi sikk-sakkandi. Kafbáturinn elti Bisp en það var of bjart til árásar. Rétt fyrir klukkan sjö að morgni til var tundurskeyti skotið á Bisp, en skeytið missti marks. Tíu mínútum síðar, 07:01 var öðru skeyti skotið og hitti það í mark. Þetta gerðist þrátt fyrir að Noregur væri yfirlýst hlutlaust ríki á þessum tíma, og með þessu skoti lauk lífi þeirra 14 manna sem um borð voru. Íslendingarnir þrír sem fórust, voru fyrstu Íslendingarnir sem búsettir voru á Íslandi, til að farast í seinni heimsstyrjöldinni.

Kortið hér fyrir neðan sýnir hvar DS Bisp var sökkt.

Þeir sem fórust voru:



Haraldur Bjarnfreðsson, 22 ára, frá Efri-Steinsmýri í Leiðvallahr., V-Skaft.

Haraldur fæddist þann 23. desember 1917 að Efri-Steinsmýri. Foreldrar hans voru hjónin Bjarnfreður Jóhann Ingimundarson (1889-1962) og Ingibjörg Sigurbergsdóttir (1893-1945). Haraldur kom úr stórum systkinahóp og meðal systkina hans voru Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir (1921-1994) verkalýðskona og alþingismaður og Magnús Bjarnfreðsson (1934-2012) fréttamaður. Haraldur hafði dvalið í Eyjum næstliðið ár áður en hann réð sig á Bisp. Hann var ókvæntur og barnlaus en lét eftir sig foreldra á Efri-Steinsmýri.

Haraldur hvílir í votri gröf.



Heimildir:
DS Bisp á Wikipedia
Minnehallen.no
Eyjafréttir 31.05.2012, s. 12-13
Fylkir 01.12.2017, s. 17
MBL 27.02.1940, s. 3
Sjómannablaðið Víkingur 01.03.1940, s. 29
https://krigsseilerregisteret.no/skip/3729

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top