Valur AK 25 var 66 rúmlesta eikarbátur, smíðaður í Svíþjóð árið 1946. Var hann keyptur til landsins af hlutafélaginu Víði á Akranesi.
Eitt mesta fárviðri í manna minnum, gekk yfir landið helgina 4.-5. janúar 1952. Mestur varð veðurofsinn á Suðvesturlandi, þótt hvassviðri væri um allt land. Mun vindhraðinn hafa náð 10-12 vindstigum en mikil úrkoma fylgdi með.
Valur AK 25 fór í róður föstudaginn 3. janúar. Er veðrið skall á, aðfaranótt laugardags voru fjórir Akranesbátar á sjó, Fram, Ásmundur, Valur og Sigrún, og hafði Valur samflot við vélbátinn Ásmund. Ferðin heim sóttist mjög seint sakir veðurs og stórsjóa. Skipstjórarnir á Ásmundi og Val höfðu samband við miðlunarstöðina á Akranesi kl. 13:30 á laugardeginum og var þá ákveðið að þeir myndu næst hafa samband hálftíma síðar eða klukkan tvö. Svo skammt var milli bátanna að þeir sáu til hvors annars, en skömmu eftir að þeir höfðu talast við kl. 13:30, syrti að með stormhryðju. Er aftur rofaði til, sáu skipverjar á Ásmundi ekki lengur til Vals. Klukkan tvö, er skipstjórarnir áttu að hafa samband við Akranes aftur, fékkst ekkert svar frá Vali.
Seint á laugardeginum komu Fram og Ásmundur að landi. En þar sem ekkert hafði heyrst frá Sigrúnu og Val, voru varðskipið Þór og björgunarskipið Sæbjörg farin að leita þeirra úti á flóanum. Sex menn voru um borð Sigrúnu og Val hvorum um sig. Eftir að hafa leitað alla nóttina frá því síðdegis á laugardag, fann varðskipið Þór loks Sigrúnu þegar komið var upp undir Reykjanes, og fylgdi henni til lands. Hafði Sigrún fengið á sig áföll og var hætt komin. Tók stýrimanninn, Þórð Sigurðsson út, en hann hélt sér á floti uns hann náðist aftur inn. Um 200 manns úr öllum stéttum kaupstaðarins, mættu niður á bryggju í útsynningsgarranum til að fagna sjóhröktum skipverjum úr helju heimtum, þegar brotinn og ljóslaus bátur lónaði inn í hléið fyrir innan hafnargarðinn um klukkan fimm á sunnudeginum. Sagði Guðmundur Jónsson skipstjóri Sigrúnar að brot hafi gengið yfir bátinn og fært hann á kaf, þannig að stýrishúsið og skipstjóraklefinn fylltust alveg af sjó. Töldu menn að báturinn hafi hreinlega snúist á hvolf við þetta. Hver einasta rúða var brotin úr stýrishúsinu og skipstjórnarklefanum.
Valur fannst aldrei þrátt fyrir mikla leit, en ýmislegt brak fannst rekið á fjöru skammt frá bænum Ökrum á Mýrum, þar á meðal tveir björgunarhringar merktir “Valur – Akranesi”.
Sunnudaginn 20. janúar fór fram minningarathöfn í Akraneskirkju, um þá sem fórust með Val hinn 5. janúar. Minningarsteinn um skipverjana sem fórust með Val, var afhjúpaður við minnismerki drukknaðra sjómanna að Görðum á Akranesi 24. september 1994.
Á Val var 6 manna áhöfn, mest ungir menn.
Sigurður Guðni Jónsson, 33 ára, skipstjóri til heimilis að Heiðarbraut 41 á Akranesi.
Sigurður Guðni fæddist þann 21. október 1918 að Lokinhömrum, Auðkúluhr., V-Ís. Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson (1893-1925) og Guðrún Sigríður Guðjónsdóttir (1894-1962). Jón faðir hans fórst með togaranum Leifi heppna í Halaveðrinu mikla. Þegar Sigurður Guðni var 15 ára fór hann fyrsta skipti á vertíð. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum vorið 1951 en tveimur árum áður hafði hann flutt til Akraness. Þar gerðist hann fljótt stýrimaður á vélbátnum Ásmundi. Á síldarvertíðinni 1951 var hann formaður á vélbátnum Fylki. En um áramótin 1951-1952 tók hann við skipstjórn á vélbátnum Val, sem svo fórst með allri áhöfn 5. janúar 1952. Sigurður Guðni var meðalmaður á hæð, fremur grannvaxinn, ljóshærður og laglegur. Hann var góður verkmaður, bæði á sjó og landi, lagtækur í betra lagi, félagslyndur og bráðskemmtilegur í hópi góðra vina.
Sigurður Guðni var kvæntur Sigríði Ólöfu Sigurðardóttur (1915-2003) og eignuðust þau fimm börn saman, það yngsta fæddist eftir að Sigurður fórst:
- Jón Sigþór Sigurðsson (1944-1944).
- Valgerður Sólveig Sigurðardóttir (1945).
- Jón Sigþór Sigurðsson (1946).
- Guðrún Helga Sigurðardóttir (1949).
- Sigurður Guðni Sigurðsson (1952).
Sigurður Guðni hvílir í votri gröf.
Sveinn Traustason, 23 ára, 1. vélstjóri til heimilis á Hólmavík.
Sveinn fæddist þann 24. júní 1928 á Kirkjubóli í Staðardal í Hrófbergshr., Strand. Foreldrar hans voru Trausti Sveinsson (1898-1941) og Hólmfríður Jónsdóttir (1901-1993). Sveinn var ókvæntur og barnlaus. Ingimundur, 2. vélstjóri, yngri bróðir Sveins var líka í áhöfn Vals og fórst með bróður sínum (sjá hér fyrir neðan).
Sveinn hvílir í votri gröf.
Ingimundur Traustason, 18 ára, 2. vélstjóri til heimilis hjá móður sinni á Hólmavík.
Ingimundur fæddist þann 16. apríl 1933 að Þiðriksvöllum í Hrófbergshr., Strand. Foreldrar hans voru Trausti Sveinsson (1898-1941) og Hólmfríður Jónsdóttir (1901-1993). Ingimundur var ókvæntur og barnlaus. Ingimundur var yngri bróðir Sveins 1. vélstjóra á Val (sjá hér fyrir ofan).
Ingimundur hvílir í votri gröf.
Brynjólfur Önfjörð Kolbeinsson, 22 ára, matsveinn til heimilis á Ísafirði.
Brynjólfur fæddist þann 20. janúar 1929 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Kolbeinn Steinleifur Brynjólfsson (1895-1953) og Sigríður María Erlendsdóttir (1904-1980). Brynjólfur var kvæntur Ásu Kristínu Hermannsdóttur (1928-2019) og áttu þau tvo unga syni:
- Kolbeinn Hermann Brynjólfsson (1948).
- Reynir Brynjólfsson (1951).
Brynjólfur hvílir í votri gröf.
Guðmundur Hansson, 19 ára, háseti frá Reykjavík.
Guðmundur fæddist þann 2. maí 1932 á Framnesvegi 13 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Hans Steinason (1900-1985) og Kristbjörg Guðmundsdóttir (1910-1968). Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Sævar Sigurjónsson, 19 ára, háseti til heimilis á Heiðarbraut 11 á Akranesi.
Sævar fæddist þann 30. ágúst 1932 á Hellissandi. Foreldrar hans voru Kristján Sigurjón Kristjánsson (1902-1989) og Sigríður Vilhelmína Ólafsdóttir (1904-1987). Sævar ætlaði aðeins í þessa einu sjóferð með Val. Faðir hans hafði lofað að fara þessa ferð vegna fjarverandi manns og var að búa sig af stað þegar Sævar kom inn og aftekur að hann fari, því að veðurútlit sé ískyggilegt. Varð því úr að Sævar fór þennan eina róður. Það varð hans síðasta ferð eins og hans félaga allra. Sævar var ókvæntur og barnlaus.
Sævar hvílir í votri gröf.
Heimildir:
Alþýðublaðið 06.01.1952, s. 1
Bæjarblaðið 20.01.1952, s. 1
Íslendingur 09.01.1952, s. 1
Íslensk skip 1. bindi, s. 25
Sjómannablaðið Víkingur 01.02.1952, s. 4.
Sjómannablaðið Víkingur 01.02.1953, s. 34.
Skessuhorn 29.04.2015, s. 35.
Tíminn 08.01.1952, s. 1, 4, 7.
Tíminn 09.01.1952, s. 1.
Tíminn 11.01.1952, s. 8.
Verkamaðurinn 11.01.1952, s. 4.
Ægir 01.01.1952, s. 19.