Stuðlaberg NS 102 – 1962

Stuðlaberg NS 102 var 152 lestir að stærð og skráð á Seyðisfirði. Það var smíðað úr stáli í Mandal í Noregi árið 1960, eftir teikningu Hjálmars Bárðarsonar. Systurskip Stuðlabergs var Hrafn Sveinbjarnarson. Eigandi þess var Berg hf. á Seyðisfirði.

Stuðlaberg NS 102 - Mynd: Sunnudagsmogginn 26.02.2012, s. 20
Stuðlaberg NS 102 – Mynd: Sunnudagsmogginn 26.02.2012, s. 20

Stuðlaberg NS 102 hélt af stað til síldveiða frá Vestmannaeyjum, laugardaginn 17. febrúar 1962. Um sjöleytið þá um kvöldið hafði skipstjórinn, Jón Jörundsson, samband við Albert Bjarnason talstöðvarvörð við Keflavíkurradíó, og var báturinn þá staddur út af Selvogi á leið heim til Hafnarfjarðar, en Stuðlabergið lagði afla sinn upp hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Samkvæmt skipstjóranum á Bergvík, sem var á þessari sömu leið fyrir Reykjanesið, var sæmilegt ferðaveður. Mörg skip voru á þessari siglingaleið, bæði á undan bátnum og eftir, en eftir þetta spurðist ekkert til Stuðlabergs.

Skipstjóri Stuðlabergs var einnig útgerðarmaður bátsins, og svo virðist sem enginn hafi uggað að sér þó það kæmi ekki fram. Munu vandamenn skipsmanna í Keflavík hafa gert ráð fyrir því að Stuðlabergið hafi farið til Hafnarfjarðar.

Á sunnudeginum varð fólk á Þóroddsstöðum á Miðnesi, skammt fyrir norðan Sandgerði, vart við brak í fjörunni. Í fyrstu héldu menn að þetta væri brak úr vélbátnum Geir goða, sem strandaði þar sl. vetur, en veittu því síðan athygli að liturinn á brakinu var annar en á Geir. Seint á mánudeginum fundu svo börnin á Þóroddsstöðum, björgunarhring með áletrunni Stuðlaberg – Seyðisfirði.

Klukkan 8:30 á mánudagsmorgninum var Jökulfellið á siglingu um mílu út af Stafnesi er skipsmenn sáu síldarnót þar í sjónum. Héldu menn að nótin hefði tapast af bát og grunaði ekki að hún væri af bát sem hefði farist. Þeir höfðu samband við Landhelgisgæsluna, og hún bað varðskipið Maríu Júlíu um að huga að þessu, en hún komst hvergi nærri vegna þess, hve þar var grunnt, krappur sjór og hvasst.

Það var þó ekki fyrr en á miðvikudeginum að bróðir stýrimannsins á Stuðlaberginu, Björn Þorfinnsson, hringdi til Slysavarnarfélagsins og skýrði frá því að menn væru orðnir uggandi yfir skipinu. Sendi Slysavarnarfélagið þá þegar út tilkynningu um að skipsins væri saknað og fóru Slysavarnardeildirnar frá Höfnum og Garðskaga þá að leita. Á þessum árum var tilkynningarskylda skipa ekki komin á, en hún hófst ekki fyrr en tíu árum síðar.

Á miðvikudeginum flaug landhelgisflugvélin Rán yfir svæðið og sá þá að nótin var enn á svipuðum stað, en lítið eitt innar.

Stuðlaberg - Kort

Fjörur voru stöðugt gengnar, en leit reyndist örðug vegna brims og veðurs. Sérstaklega voru fjörur frá Stafnesi að Skaga gengnar vandlega. Þar var margfarið um og fannst víða reki úr bátnum. Í annarri eða þriðju leitarferðinni, skömmu eftir hádegi fimmtudaginn 22. febrúar, fannst lík Péturs Þorfinnssonar stýrimanns í Fuglavíkurfjöru, . Hann var eini áhafnarmeðlimurinn sem fannst.

Talið er að Stuðlabergið hafi farist aðfaranótt sunnudagsins 18. febrúar 1962 á svipuðum slóðum og nótin fannst. Aldrei fékkst úr því skorið hvað gerðist þótt að ýmsar kenningar hafi komið fram um það.

Á sjómannadaginn 1965 var afhjúpaður minnisvarði um áhöfnina á Stuðlaberg, í Keflavíkurkirkjugarði við Aðalgötu.

Minnisvarði um Stuðlaberg NS 102

Með Stuðlaberginu fórust 11 menn, sá yngsti aðeins 17 ára og sá elsti tæplega fertugur:


Jón Hildiberg Jörundsson, 32 ára, skipstjóri til heimilis að Faxabraut 40B í Keflavík.

Jón fæddist þann 21. mars 1929 að Miðhrauni í Miklaholtshr., Snæf. Foreldrar hans voru Jörundur Þórðarson (1901-1988) og María Óladóttir (1902-1972). Jón lauk hinu minna fiskimannaprófi árið 1960 frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, og fiskimannaprófi 1961.

Jón var kvæntur Ragnheiði Guðmundsdóttur (1931) og áttu þau 4 börn saman, það síðasta fæddist eftir að Jón fórst.

  • María Berglind Jónsdóttir (1951).
  • Heiðar Fjalar Jónsson (1955).
  • Hafrún Jónsdóttir (1960).
  • Brynhildur Jónsdóttir (1961).

Jón hvílir í votri gröf.


Pétur Þorfinnsson, 30 ára, stýrimaður til heimilis að Engihlíð 12 í Reykjavík.

Pétur fæddist þann 20. mars 1931 á Raufarhöfn. Foreldrar hans voru hjónin Þorfinnur Jónsson (1884-1967) og Sumarlín Gestsdóttir (1901-1986). Honum var sjómennskan í blóð borin, og hafði um langt skeið stundað þann atvinnuveg. Hann var greindur vel og þótti góður nemandi í skólum er hann sótti. Hann stundaði nám að Reykjum í Hrútafirði, Haukadal og Stýrimannaskólanum í Reykjavík þar sem hann hafði lokið prófi 3-4 árum áður. Pétur var karlmenni til líkama og sálar, hár vexti og liðsmaður góður til alls. Pétur var kvæntur Svanhvíti Þorgrímsdóttur (1930-1989). Þau eignuðust einn son saman. Hún átti einn son fyrir.

Pétur hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Kristján Jörundsson, 34 ára, 1. vélstjóri til heimilis að Brekku í Ytri-Njarðvík.

Kristján fæddist þann 9. nóvember 1927 að Miðhrauni í Miklaholtshr., Snæf. Foreldrar hans voru Jörundur Þórðarson (1901-1988) og María Óladóttir (1902-1972). Kristján var bróðir Jóns skipstjóra. Hann var kvæntur Jónu Björg Georgsdóttur (1930), þau voru barnlaus.

Kristján hvílir í votri gröf.


Karl Guðmundur Jónsson, 28 ára, 2. vélstjóri til heimilis að Heiðarvegi 6 í Keflavík.

Karl fæddist þann 7. ágúst 1933 á Hellissandi. Foreldrar hans voru hjónin Jón Guðmundsson (1905-1970) og Svanfríður Kristjánsdóttir (1910-1995). Karl var kvæntur Esther Jörundsdóttur (1942) og þeim fæddist dóttir eftir að Karl fórst.

  • Kalla Karlsdóttir (1962).

Karl hvílir í votri gröf.


Birgir Guðmundsson Blöndal, 39 ára, matsveinn til heimilis að Njálsgötu 22 í Reykjavík.

Birgir fæddist þann 19. maí 1922 að Laugavegi 5 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðmundur Þorsteinsson (1898-1970) og Jónína Guðfinna Magnúsdóttir Blöndal (1890-1966). Birgir kvæntist Valdísi Maríu Valdimarsdóttur (1924-2013) þann 16. júní 1956 og eignuðust þau sex börn saman:

  • Díana Íris Þórðardóttir (1944).
  • Jónína Birna Blöndal Birgisdóttir (1953).
  • Ragnar Blöndal Birgisson (1954).
  • Kristbjörg María Blöndal Birgisdóttir (1959).
  • Sigurdur Blöndal (1960).
  • Birgir Blöndal Birgisson (1962).

Birgir eignaðist dóttur með Sigurjónu Gyðu Magnúsdóttur (1926):

  • Anna Fanney Birgisdóttir (1947).

Birgir eignaðist son með Auðbjörgu Brynjólfsdóttur (1929-2000):

Birgir eignaðist son með Ólöfu Guðleifsdóttur (1927-2023):

Birgir hvílir í votri gröf.


Stefán Ingimundur Elíasson, 39 ára, háseti til heimilis að Vesturgötu 24 í Hafnarfirði.

Stefán fæddist þann 8. júní 1922 á Búðareyri. Foreldrar hans voru Elías Eyjólfsson (1877-1950) og Halldóra Guðrún Björg Vigfúsdóttir (1887-1982). Stefán eignaðist dóttur með Guðmundu Jakobínu Ottósdóttur (1932-1999):

  • Jakobína Sigríður Stefánsdóttir (1952).

Stefán hvílir í votri gröf.


Guðmundur Ólason, 33 ára, háseti til heimilis að Stórholti 22 í Reykjavík.

Guðmundur fæddist þann 5. ágúst 1928 á Leirhöfn á Sléttu, Presthólahr., N-Þing. Foreldrar hans voru Óli Jónasson (1895-1936) og Sigríður Aðalbjörg Guðmundsdóttir (1910-1936). Guðmundur missti báða foreldra sína með hálfs árs millibili þegar hann var 7-8 ára. Hann ólst upp hjá föðurbróður sínum á Rifi hin síðari bernskuár, en unglingsárin dvaldist hann hjá móðurbróður sínum á Raufarhöfn og átti þar heimili uns hann fór að heiman. Á Raufarhöfn stundaði Guðmundur unglinganám og vandist verklegu starfi. Hugur hans hneigðist til sjómennsku, og hann var þá hraustur og bjartsýnn eins og margir jafnaldrar hans og félagar. En snemma á ári 1954, er hann var kominn suður á vertíð, veiktist hann og dvaldist eftir það í rétt tvö ár á Vífilsstaðahæli. Þaðan réðist Guðmundur til starfa í Rafha í Hafnarfirði þar sem hann vann í um fjögur ár. Eftir þetta hóf Guðmundur aftur sjómennsku, eins og hugur hans hafði staðið til, og hafði stundað hana um skeið er hann fórst með Stuðlaberginu.
Guðmundur var léttur í skapi, bjartsýnn og brosmildur.
Guðmundur var kvæntur Ragnheiði Líndal Hinriksdóttur (1936-2006) og áttu þau einn son saman. Ragnheiður átti tvær dætur fyrir:

  • Margrét Elín Ragnheiðardóttir (1956).
  • Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir (1957).
  • Óli Guðmundur Guðmundsson (1961).

Guðmundur hvílir í votri gröf.


Örn Snævar Ólafsson, 22 ára, háseti til heimilis að Langeyrarvegi 11 í Hafnarfirði.

Örn fæddist þann 12. febrúar 1940 á Vatneyri á Patreksfirði. Foreldrar hans voru Ólafur Ólafsson (1909-1973) og Sólveig Snæbjörnsdóttir (1915-1999). Örn fluttist ungur með foreldrum sínum til Akureyrar og þaðan til Hafnarfjarðar, þar sem hann átti heima æ síðan. Hann ólst upp í stórum og mannvænlegum systkinahópi og hlaut í vöggugjöf glaðværð í ríkum mæli, eiginleika sem afla mönnum hvarvetna vinsælda. Á sjónum átti hann flestar starfsstundir, bæði á togurum og vélbátum. Hugðist hann einnig helga sjómennskunni starfskrafta sína í framtíðinni, þótt örlög hans yrðu önnur.

Örn kvæntist Halldóru Brynju Sigursteinsdóttur (1941) þann 18. febrúar 1961. Þau voru barnlaus.

Örn hvílir í votri gröf.


Kristmundur Benjamínsson, 32 ára, háseti til heimilis að Kirkjuteig 14 í Keflavík.

Kristmundur fæddist þann 16. september 1929 á Súðavík. Foreldrar hans voru Benjamín Valgeir Jónsson (1884-1967) og Sigríður Friðrikka Kristmundsdóttir (1895-1949). Kristmundur var kvæntur Guðnýju Berentsdóttur (1923-1983) og áttu þau tvær dætur saman. Guðný átti eina dóttur fyrir:

Kristmundur hvílir í votri gröf.


Jóhann Ingvi Ingimundur Sigmarsson, 31 árs, háseti til heimilis að Hafnargötu 18 á Seyðisfirði.

Ingimundur, eins og hann var kallaður, fæddist þann 28. maí 1930 að Sæbóli á Seyðisfirði. Foreldrar hans voru Sigmar Friðriksson (1901-1981) og Svava Sveinbjörnsdóttir (1908-1983). Ingimundur var ókvæntur og barnlaus.

Ingimundur hvílir í votri gröf.


Gunnar Laxfoss Hávarðsson, 17 ára, háseti til heimilis að Kirkjuvegi 46 í Keflavík.

Gunnar fæddist þann 3. júlí 1944 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Hávarður Karl Reimarsson (1917-1991) og Guðný Aalen Jóhannesardóttir (1909-1960). Gunnar var ókvæntur og barnlaus.

Gunnar hvílir í votri gröf.


Heimildir:
Alþýðublaðið 22.02.1962, s. 1, 5
Faxi 01.03.1962, s. 35
Faxi 01.06.1987, s. 147-148
MBL 21.02.1961, s. 4
MBL 20.05.1962, s. 11
Sjómannablaðið Víkingur 01.03.1962, s. 46-48
SunnudagsMogginn 26.02.2012, s. 20-21
Vísir 22.02.1962, s. 1, 10

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top