Sæborg SH 377 var 66 tonna stálbátur, smíðuð í Bardenfleth í Þýskalandi árið 1956. Í gegnum árin bar hún alltaf nafnið Sæborg en hafði skráningarnúmerin BA 25, VE 22, KE 177, HU 177, og síðast SH 377. Sæborg var í eigu Hraðfrystihúss Ólafsvíkur, skipstjórans Magnúsar Þórarins Guðmundssonar og Jóhanns Steinssonar, og hafði verið keyptur frá Blönduósi árinu áður.
Sæborg sökk skammt undan Rifi um klukkan 20:30 á þriðjudagskvöldinu 7. mars 1989, ekki langt frá þeim stað sem Bervík SH 43 hafði sokkið tæpum fjórum árum áður. Átta manna áhöfn var á bátnum og tókst sjö af þeim, með mikilli baráttu, að komast í gúmmíbjörgunarbát.
Þessir sjö voru: Sigurður Hafsteinsson, matsveinn, Vagn Ingólfsson, 2. vélstjóri, Eymundur Gunnarsson, stýrimaður, Grímur Th. Stefánsson, háseti, Ingvar Hafbergsson, háseti, Erik Juslin, háseti og Haukur Barkarson, háseti.
Skipstjóri Sæborgar, Magnús Þórarinn Guðmundsson, náði ekki til björgunarbátsins.
Ólafur Bjarnason SH heyrði neyðarkall frá Sæborgu laust fyrir kl. 20:30. Þá var Sæborgin stödd um 4-5 mílur undan Rifi, á leið til heimahafnar í Ólafsvík eftir veiðitúr og átti eftir um klukkutíma siglingu. Sæborgin hafði gefið upp staðsetningu í neyðarkallinu og Ólafur Bjarnason var skammt frá, þannig að ekki liðu meira en 15-20 mínútur frá því kallið heyrðist og þar til mennirnir höfðu náðst. Nokkuð vel gekk að ná mönnunum úr gúmmíbjörgunarbátnum, með aðstoðar Markúsarnetsins.
Eymundur Gunnarsson, stýrimaður á Sæborgu SH lýsir atburðarrásinni svona:
Við vorum á landleið í 7-8 vindstigum þegar við fengum á okkur sjó þannig að báturinn fylltist stjórnborðsmegin. Við gerðum tilraun til að keyra hann upp en það tókst ekki. Þá kom annar hnykkur þannig að báturinn lagðist á hliðina. Við komumst allir átta út um glugga, upp á bakborðshliðina og aftur á, þar sem við slepptum gúmmíbjörgunarbátnum. Síðan stukkum við á eftir honum hver á fætur öðrum. Ég stökk þriðji síðastur, þá Svíi sem var með okkur og síðast skipstjórinn. Ég var í flotgalla og gat því synt að björgunarbátnum. Svíinn náði að grípa í línu og var hífður um borð. Ég sá skipstjórann stökkva en síðan ekki meir. Björgunarbátinn rak fljótt í burtu í ölduganginum og sjórokinu. Það hjálpaðist allt við að gera hjálpartilraunir okkar hinna vonlausar.
Áður en við fengum á okkur sjó hafði skipstjórinn kallað alla aftur þar sem útlitið var ekki gott. Við vorum því við öllu búnir þegar báturinn fór á hliðina. Þetta gerði það að verkum að allir komust upp á bátinn þegar hann lá á hliðinni. Handsleppibúnaðurinn virkaði mjög vel og það er honum að þakka að ég tala við þig núna. Þetta gerðist allt svo snöggt, eins og hendi væri veifað og því eins gott að björgunartækin voru í lagi. Eftir að við vorum komnir í björgunarbátinn horfðum við á Sæborgu sökkva. Sáum við á eftir skrúfublöðunum sem hurfu síðast í hafið.
Vonskuveður var á Breiðafirði er slysið varð, stormur og 7-8 metra háar öldur. Ólafur Bjarnason SH kom til Ólafsvíkur með skipverjana af Sæborgu SH um kl. 21:30 um kvöldið. Þá fóru allir í heilsugæslustöðina en fengu að fara þaðan að lokinni skoðun.
Mikill fjöldi báta leitaði að skipstjóranum strax eftir slysið en hætta varð leit skömmu fyrir miðnætti á þriðjudeginum en þá hafði veður versnað enn, komin blindhríð og skyggni því afleitt. Á Gufuskálum mældist 4 stiga frost, 10 vindstig af austri og mikill sjór og snjókoma. Í Ólafsvík var mikill veðurofsi og nánast ófært milli Ólafsvíkur og Hellissands. Varðskipið Ægir fór til leitar og var kominn til Breiðafjarðar um kl. 4 aðfaranótt miðvikudagsins. Þá hóf Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar leit á svæðinu kl. 9 á miðvikudagsmorgninum en ekki var talið að þyrla Landhelgisgæslunnar kæmi að gagni vegna veðurútlits. Bátar og skip frá Ólafsvík tóku einnig þátt í leitinni.
Leitað var á öllu því svæði, sem til greina kom að annar gúmmíbjörgunarbátur Sæborgar væri á reki, en skipverjarnir sem björguðust höfðu náð að losa þann sem var bakborðsmegin á bátnum. Skömmu fyrir hádegi á miðvikudeginum var leit úr lofti hætt og varðskipið Ægir hætti leit um kl. 12:30. Menn úr björgunarsveitinni Sæbjörgu á Ólafsvík gengu fjörur frá Ólafsvík að Öndverðarnesi á miðvikudeginum og fóru með ströndinni í gúmmíbát en leitin bar engan árangur og ekkert brak úr Sæborgu fannst.
Magnús Þórarinn Guðmundsson, 40 ára, skipstjóri til heimilis að Brautarholti 19 í Ólafsvík.
Magnús fæddist þann 22. október 1948 í Stykkishólmi. Foreldrar hans voru Guðmundur Sigurður Þórarinsson (1923-1989) og Magdalena Margrét Kristjánsdóttir (1928) hjón í Ólafsvík og hjá þeim ólst hann upp ásamt þremur systkinum sínum. Yngri bróðir hans, Freyr Hafþór Guðmundsson (1952-1985) fórst með Bervík SH 43 árið 1985, tæpum fjórum árum áður en Magnús fórst með Sæborgu.
Magnús eða Maggi eins og hann var kallaður, komst snemma í kynni við sjóinn og var aðeins 14 ára er hann byrjaði að stunda sjómennsku. Sýndi Maggi fljótt að hann var efni í góðan sjómann. Var hann annálaður dugnaðarforkur og alla tíð í bestu skipsplássum, fyrst hjá Guðlaugi Guðmundssyni á Snæfelli, síðan hjá Guðmundi Kristjónssyni á Lárusi Sveinssyni, eftir það hjá Hraðfrystihúsi Ólafsvíkur þar sem hann var fyrst í 9 ár samfleytt sem stýrimaður á Garðari II með Einari Kristjónssyni. Veturinn 1985-86 var hann í Stýrimannaskólanum og útskrifaðist þaðan haustið 1986. Í mars 1988 keypti hann Sæborgu SH 377, í félagi við Jóhann Steinsson og Hraðfrystihús Ólafsvíkur.
Maggi var dagfarsprúður, rólegur og yfirvegaður og mjög félagslyndur. Hann var dugmikill og keppinn eins og sjómenn þurfa að vera. Kom sér oft vel hve fljótur hann var að hugsa og laginn að leysa úr vandræðum sem upp kunna að koma á sjó. Hann var alltaf maður fyrir orðum sínum, lét ekki mikið yfir sér en var bestur á hólmi. Stríðinn var hann, glettinn og gamansamur, en öll hans stríðni var meinlaus og í góðu gerð.
Maggi kvæntist Elísabetu Karlsdóttur Mortensen (1949) þann 18. maí 1970. Hjónaband þeirra einkenndist af ástúð og samheldni. Áttu þau þrjú börn saman:
- Maríanna Björg Arnardóttir Recke (1968).
- Guðmundur Jóhann Magnússon (1969).
- Magðalena Magnúsdóttir Mortensen (1976).
Maggi hvílir í votri gröf en í Ólafsvíkurkirkjugarði er legsteinn í minningu hans.