Pétursey ÍS 100 – 1941

Línuveiðarinn Pétursey ÍS 100 var 91 tonn að stærð, smíðuð árið 1902 í Kristiansund í Noregi. Var hún eign hlutafélagsins Vísis frá Súgandafirði, en gerð út frá Ísafirði. Pétursey hafði áður verið gerð út frá Hafnarfirði en var seld þaðan árinu áður en hún fórst.

Pétursey ÍS 100
Pétursey ÍS 100

Pétursey lagði af stað þann 10. mars 1941 frá Vestmannaeyjum, en þar hafði hún tekið kol, áleiðs til Fleetwood með fiskfarm. Þegar hún átti ófarinn fimmtung leiðarinnar til Barra Head, eða 300 mílur suður af Vestmannaeyjum mætti hún vb. Dóru frá Hafnarfirði, er þá var á heimleið. Var þá komið besta veður. Síðan spurðist ekkert til hennar.

3. september sama ár var vélbáturinn Svanur frá Keflavík, staddur um 18 mílur út af Garðsskaga, og sá þá fleka í sjónum, sem merktur var íslenska fánanum. Innbyrtu þeir flakið og létu fara svo um það, að sem minnst rask yrði á því. Flutti Svanur flakið síðan til Reykjavíkur, þar sem Friðrik Ólafssyni, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Sveini Sæmundssyni, yfirlögregluþjóni, var falið að rannsaka það. Við rannsóknina kom í ljós, að skothríð hafði dunið á stýrishúsinu, sérstaklega á bakborða. Voru víða brot úr sprengikúlum í þakinu og á þeim voru stafir. Flakið var 3 m á lengd og 1½ m á breidd.

Síðar kom í ljós að þýski kafbáturinn U-37 undir stjórn Asmus Nicolais Clausen hafði sökkt Pétursey, þann 12. mars við 59,33°N og 12,16°V. Pétursey reyndist vera síðasta skipið af 55 sem kafbáturinn sökkti, því eftir þessa ferð var hann gerður að kennslu og þjálfunarbát.

Eftirfarandi texti er úr Dagblaðinu Vísir – DV 20.12.1997, s. 45.
…er einungis leiðarbók kafbátsins sem þarna var að verki til vitnis um atburðinn. Í henni segir að áhöfn U-37 hafi séð nokkur skip síðdegis 12. mars, þar á meðal tundurspilla eða fylgdarskip sem hafi varpað djúpsprengjum.
Klukkan rúmlega sex að kvöldi að þýskum tíma hafi kafbátsforinginn séð skip sem greinilega var fiskiskip og sigldi í krákustígum í suðurátt til Bretlandseyja. Það hafi ekki verið þess virði að eytt yrði á það tundurskeyti. Taldi hann sig sjá greinilega togbúnað á afturskipinu og áleit að hér væri á ferðinni dráttarskip sem notað væri til björgunar skipa á höfum úti. Tók hann fram að ekkert væri grunsamlegt við skipið og það óvopnað.
Kom kafbáturinn úr kafi klukkan 18:26 og hóf áhöfnin þegar að skjóta á skipið úr fallbyssu og 37 mm hríðskotabyssu. Segir að fyrsta skotið hafi misheppnast og er tekið fram að áhöfnin hafi haft tækifæri til að sleppa frá borði. Hittu nú skot kafbátsmanna skipið af miklum þunga og lögðu brúna í rúst. Sáu þeir frammastur skipsins falla fyrir borð. Skot hittu vélarrúmið og gaus þar upp mikill gufumökkur. Þrátt fyrir að skipið væri allt sundurskotið ofansjávar var erfitt að koma skotum á það neðan sjólínu, en skotin sem hitt höfðu vélarrúmið virtust hafa sett leka að skipinu sem nægði til að það tók að sökkva.
Segir síðan í leiðarbókinni: ,,Tók nú að rökkva. Við færðum okkur nær og sáum þá að hlutleysisfáni Íslands var málaður á kinnung skipsins. Erfitt er að greina bláan lit hans á svörtum skipsskrokknum og rauði og hvíti liturinn er nánast hulinn ryði og skít. Skothríð hætt.” Var klukkan þá 18:43. Níu mínútum síðar sökk skipið með stefnið á undan á stað er kafbátsmenn töldu vera 59 gráður, 33 mínútur norður og 12 gráður, 16 mínútur vestur. Engan björgunarbát sáu þeir, en þrír menn sáust á braki úr skipinu. Sigldi kafbáturinn við svo búið á tólf mílna ferð til suðausturs.

Kortið hér fyrir neðan sýnir hvar Pétursey sökkt af þýska kafbátnum U-37.

Á Pétursey voru tíu menn, tveir úr Reykjavík (báðir vélstjórarnir) og hinir voru flestir af Vestfjörðunum. Þeir voru:


Þorsteinn Magnússon

Þorsteinn Magnússon, skipstjóri, 27 ára frá Þingeyri.

Þorsteinn fæddist 13. apríl 1913 í Kálfavík, Ögurhr., N-Ís. Hann var trúlofaður stúlku frá Þingeyri og höfðu þau ætlað að gifta sig meðan þessi ferð var farin, en hann fékk ekki staðgengil.

Hálfbróðir Þorsteins, Óskar Magnússon, fórst með vélbátnum Sæbirni frá Súðavík 24. janúar 1930.


Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson, stýrimaður, 24 ára frá Flateyri.

Hallgrímur fæddist 16. desember 1916 í Hnífsdal. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Þeir Þorsteinn og Hallgrímur höfðu alist upp saman, enda systrasynir, og höfðu haldið félagsskap sín á milli frá barnæsku til dauðadags.


Guðjón Vigfússon

Guðjón Vigfússon, vélstjóri, 42 ára, til heimilis að Lindargötu 44 í Reykjavík.

Guðjón fæddist 28. júní 1898 á Bjarnastöðum í Bessastaðahr. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Bróðir hans, Kristófer Óskar Vigfússon, fórst með Reykjaborginni deginum á undan Guðjóni.


Sigurður Jónsson

Sigurður Jónsson, 2. vélstjóri, 52 ára, til heimilis að Hvammi í Dýrafirði.

Sigurður fæddist 10. júlí 1888 að Næfranesi, Mýrahr., V-Ís. Hann var kvæntur og átti 9 uppkomin börn.

Elsti sonur Sigurðar, (Sigurður) Pétur, fórst með línuveiðaranum Fjölni ÍS 7 frá Þingeyri 9. apríl 1945.


Kristján Sigurður Kristjánsson

Kristján Sigurður Kristjánsson, kyndari, 29 ára.

Kristján fæddist 12. ágúst 1911 á Suðureyri við Súgandafjörð. Hann var ókvæntur.


Óskar Ólafur Guido Gíslason, kyndari, 31 árs.

Ólafur fæddist 9. apríl 1909 í Gunnólfsvík í Skeggjastaðahr., N-Múl. Hann var kvæntur og átti 2 börn.


Theódór Jónsson

Theódór Jónsson, matsveinn, 27 ára.

Theódór fæddist 29. október 1913 á Látrum í Aðalvík, Sléttuhr., N-Ís. Hann var kvæntur og lét eftir sig 4 börn, það yngsta ófætt.


Óli Pétur Kjartansson

Óli Pétur Kjartansson, háseti, 32 ára.

Óli Pétur fæddist 21. september 1908 í Hnífsdal. Hann var ókvæntur en lét eftir sig tvö börn, annað fæddist eftir að Óli Pétur fórst.


Halldór Georg Magnússon

Halldór Georg Magnússon, háseti, 22 ára, búsettur á Suðureyri við Súgandafjörð.

Halldór fæddist 4. október 1918 á Suðureyri við Súgandafjörð. Hann var ókvæntur.


Hrólfur Jóhannes Þorsteinsson

Hrólfur Jóhannes Þorsteinsson, háseti, 34 ára.

Hrólfur Jóhannes fæddist 25. janúar 1907 á Ósum í Þverárhr., V-Hún. Hann var kvæntur.


Heimildir:
Alþýðublaðið 06.09.1941, s. 1
Dagblaðið Vísir – DV 20.12.1997, s. 45
Heima er bezt 01.11.2000, s. 403
MBL 01.09.2019, s. 14
Sjómaðurinn 01.05.1941, s. 5
Sjómannablaðið Víkingur 01.12.2003, s. 53
Vísir 21.03.1941, s. 2
Þjóðviljinn 25.03.1941, s. 1, 4
Þjóðviljinn 05.04.1941, s. 3
Þjóðviljinn 23.01.1990, s. 5

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top