Max Pemberton RE 278 var 320 lesta togari, smíðaður í Englandi árið 1917. Var hann upphaflega frá Hull, en strandaði á Kilsnesi á Melrakkasléttu árið 1928. Var hann þá talinn ónýtur og seldur sem brak fyrir 250 kr., en náðist þó út og var endurbyggður í Englandi. Aðaleigandi skipsins var Halldór Þorsteinsson skipstjóri í Reykjavík. Þótt að skipið væri orðið 26 ára gamalt var það talið með traustari skipum í togaraflotanum, enda alltaf mjög vel við haldið og allur útbúnaður þess eins vandaður og frekast var völ á.
Max Pemberton fór á veiðar í síðustu för sína frá Reykjavík, fimmtudaginn 30. desember 1943 og stundaði veiðar við Ísafjarðardjúp. 3. janúar kom togarinn inn til Patreksfjarðar og setti í land 1. vélstjóra, Baldur Kolbeinsson, er hafði slasast á hendi. Var ráðinn maður í hans stað, og lagði skipið upp 35 tunnur af lýsi á Patreksfirði, en síðan haldið aftur á veiðar. Þann 10. janúar, að loknum veiðum, kom skipið síðast að landi á Patreksfirði og lét manninn aftur í land, en hélt svo áfram til Reykjavíkur.
Síðar sama dag, eða kl. 17, barst útgerð skipsins svohljóðandi skeyti frá skipstjóranum: ,,Komum um eða eftir miðnætti”, en kl. 19:40 barst annað skeyti er sagði: ,,Komum ekki fyrr en á morgun”.
Klukkan 7:30 á þriðjudagsmorgninum 11. janúar mætti Maxinn á venjulegum sambandstíma skipanna og þá voru skilaboðin frá honum: ,,Lónum innanvið Malarrif.”,
En eftir það virðist slysið bera svo skjótt að höndum að hvorki er ráðrúm til þess að senda út neyðarmerki, né koma út björgunarfleka sem þó var þannig búinn að það átti ekki að taka einn mann nema andartaka að losa hann.
Aldrei heyrðist til skipsins aftur eftir þetta, en strax var farið að óttast um afdrif þess og var hafin leit á víðáttumiklu svæði af skipum og flugvélum. Ennfremur var leitað með fjörum á Snæfellsnesi, allt frá Ólafsvík út og suður með nesinu og Staðarsveit allri, en ekkert sást eða fannst er gefið gæti bendingu um afdrif þess.
Á skipinu var 29 manna áhöfn, flestir úr Reykjavík og Hafnarfirði. Voru það allt menn á besta aldri og létu flestir eftir sig konu og börn. Var þetta eitt af stærstu sjóslysunum sem orðið hafði við Ísland um margra ára skeið.
Þeir sem fórust voru:
Pétur Andrés Maack Pétursson, 51 árs, skipstjóri til heimilis að Ránargötu 30, Reykjavík.
Pétur fæddist þann 11. nóv. 1892 að Stað í Grunnavík, Grunnavíkurhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Pétur Andrés Maack Þorsteinsson (1859-1892) og Vigdís Einarsdóttir Maack (1859-1943). Tveimur mánuðum áður en Pétur fæddist drukknaði faðir hans við lendingu í Grunnavík. Stóð móðir hans þá ein uppi með 4 kornungar dætur og þennan óborna son sinn. Bjó hún áfram á Stað þangað til vorið 1894 að hún fluttist að Faxastöðum í Grunnavík og bjó hún þar með börnum sínum í 17 ár.
Pétur Maack var á 14. ári, þegar hann byrjaði sjóróðra á árabát. Var það á tveggja manna fari með Kristjáni gamla Eldjárnssyni í Grunnavík haustið 1906. Hlutur Péturs var milli 20 og 30 krónur. Fimmtán ára gamall fór hann til róðra í Bolungarvík og réri þar vetrar- og vorvertíðina 1908. Var hlutur hans þá um 200 krónur. Næstu árin réri hann á vorin frá Kálfadal og á haustin í Grunnavík en á sumrum vann hann heima hjá móður sinni við heyskap.
Haustið 1912 fluttist Pétur til Reykjavíkur. Um veturinn leitaði hann sér menntunar þar og falaðist jafnframt eftir skiprúmi hjá Halldóri Þorsteinssyni skipstjóra á Skúla fógeta. Réðist hann til Halldórs um vorið 1913 og var háseti á Skúla fógeta þangað til hann fórst á tundurdufli 26. ágúst 1914, en Halldór hafði þá látið af skipstjórn Skúla fyrir 2-3 mánuðum.
Haustið 1914 fór Pétur í Stýrimannaskólann og var þar þangað til í feb. 1915, að hann réðist á togarann Earl Hareford. Fór Pétur í Stýrimannaskólann aftur og útskrifaðist úr honum vorið 1916. Upp frá því var hann ýmist bátsmaður á Earl Hareford eða stýrimaður á Varanger þar til þeir voru seldir úr landi haustið 1917. Þá varð hann háseti á e.s. Gullfoss og 2. stýrimaður á honum frá ársbyrjun 1919. Hann varð 1. stýrimaður á nýja Skallagrími vertíðina og vorið 1920. Síðan skipstjóri um tíma á Hilmi og stýrimaður á honum með Halldóri Þorsteinssyni. Frá 1922 og til dauðadags var Pétur óslitið skipstjóri á togurum. Fyrst á Hilmi til 1927, síðan tvær vertíðir á færeyska togaranum Royndin og loks á Max Pemberton frá því í júlímánuði 1929.
Pétur var kvæntur Hallfríði Hallgrímsdóttur Maack (1885-1967) og áttu þau 6 börn saman:
- Pétur Andrés Maack Pétursson (1915-1944). – Fórst ásamt föður sínum með Max Pemberton (sjá hér fyrir neðan).
- Aðalheiður Pétursdóttir Maack (1916-1919).
- Karl Pétursson Maack (1918-2005).
- Aðalsteinn Pétursson Maack (1919-2009).
- Viggó Einar Pétursson Maack (1922-2013).
- Elísabet Maack Thorsteinsson(1925-2003).
Pétur hvílir í votri gröf.
Pétur Andrés Maack Pétursson, 28 ára, 1. stýrimaður til heimilis að Ránargötu 2 í Reykjavík.
Pétur var fæddur þann 24. febrúar 1915 að Nýlendugötu 19 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Pétur Andrés Maack Pétursson (1892-1944) (sjá hér fyrir ofan) og Hallfríður Hallgrímsdóttir Maack (1885-1967).
Pétur var kvæntur Önnu Ragnhildi Björnsdóttur Maack (1911-2000). Þau eignuðust tvær dætur saman:
- Guðrún Hallfríður Pétursdóttir Maack (1939-2013).
- María Bóthildur Jakobína Pétursdóttir Maack (1940-2001).
Anna Ragnhildur átti eina dóttur fyrir:
- Katrín Karlsdóttir (1935-1988).
Pétur hvílir í votri gröf.
Jón Guðmundur Sigurgeirsson, 31 árs, 2. stýrimaður til heimilis að Ásvallagötu 28 í Reykjavík.
Jón fæddist þann 9. nóvember 1912 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Sigurgeir Kristjánsson (1872-1925) og Bjarney Jóna Einarsdóttir (1877-1959).
Jón var kvæntur Aðalheiði Sigurðardóttur (1915-1998) og áttu þau tvö börn saman:
- Sigrún Kristjana Jónsdóttir (1938).
- Sigurður Ægir Jónsson (1943-1987).
Jón hvílir í votri gröf.
Þorsteinn Þórðarson, 51 árs, 1. vélstjóri til heimilis að Sólnesi við Baldurshaga.
Þorsteinn fæddist þann 19. maí 1892 að Höfða, Biskupstungnahr., Árn. Foreldrar hans voru Þórður Halldórsson (1864-1937) og Guðrún Guðmundsdóttir (1852-1918).
Þorsteinn lauk járnsmíðanámi hjá Bjarnhéðni Jónssyni járnsmíðameistara í Reykjavík í kringum 1916 og vélstjóraprófi í Vélstjóraskólanum í Reykjavík 1921. Hann var vélstjóri á togurum, meðal annars lengi hjá Kveldúlfi hf. Hann fór í sögurfræga ferð til Kúbu um 1920 með es. Villemoes en það skip var eign Landsjóðs.
Þorsteinn var kvæntur Margréti Jódísi Pálsdóttur (1895-1982) og áttu þau 7 börn saman:
- Þórður Þorsteinsson (1924-1944). Fórst líka með Max Pemberton – sjá hér fyrir neðan.
- Jóhanna Þorsteinsdóttir (1925-1973).
- Gunnar Þorsteinsson (1928-2000).
- Haraldur Þorsteinsson (1930-1965).
- Helga Guðrún Þorsteinsdóttir (1933-2005).
- Hólmfríður Þorsteinsdóttir (1937-2000).
- Jódís Steinunn Þorsteinsdóttir (1941-2018).
Þorsteinn hvílir í votri gröf.
Þórður Þorsteinsson, 19 ára, 2. vélstjóri til heimilis hjá foreldrum sínum að Sólnesi við Baldurshaga.
Þórður fæddist þann 10. maí 1924 á Lokastíg 25 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þórðarson (1892-1944) (sjá hér fyrir ofan) og Margrét Jódís Pálsdóttir (1895-1982).
Þórður var ókvæntur og barnlaus.
Þórður hvílir í votri gröf.
Aðalsteinn Árnason, 19 ára, háseti til heimilis að Efstasundi 14 í Reykjavík.
Aðalsteinn var fæddur þann 16. september 1924 á Þórarinsstaðaeyrum, Seyðisfjarðarhr., N-Múl. Foreldrar hans voru Árni Friðriksson (1878-1938) og Vilborg Jónsdóttir (1880-1967).
Aðalsteinn var ókvæntur og barnlaus.
Aðalsteinn hvílir í votri gröf.
Hilmar Emil Jóhannesson, 19 ára, kyndari til heimilis að Framnesvegi 13 í Reykjavík.
Hilmar fæddist þann 4. mars 1924 á Óðinsgötu 14 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Jóhannes Gísli Brynjólfsson (1896-1988) og Gestfríður Ingveldur Ólafsdóttir (1895-1947).
Hilmar var kvæntur Ólínu Björnu Guðlaugsdóttur (1925-1979) og fæddist þeim dóttir rúmum mánuði eftir að Hilmar fórst með Max:
- Hilda Emilía Hilmarsdóttir (1944).
Hilmar hvílir í votri gröf.
Benedikt Rósi Sigurðsson, 36 ára, kyndari til heimilis að Hringbraut 47 í Reykjavík.
Benedikt fæddist þann 19. desember 1906 að Nesi í Grunnavík, Grunnavíkurhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Sigurður Einarsson (1841-1920) og Mikkalína Jónsdóttir (1863-1943).
Benedikt var kvæntur Solveigu Sigþrúði Magnúsdóttur (1893-1951) og áttu þau 5 börn saman:
- Kristinn Aðalsteinn Benediktsson (1927-1927).
- Jón Magnús Benediktsson (1928-1988).
- Kristrún Ólöf Benediktsdóttir (1928-1990).
- Jóhannes Steingrímur Benediktsson (1929-1993).
- Gunnar Benedikt Benediktsson (1937-2014).
Benedikt hvílir í votri gröf.
Gísli Eiríksson, 49 ára, bátsmaður til heimilis að Vífilsgötu 3 í Reykjavík.
Gísli fæddist þann 1. apríl 1894 á Miðbýli, Skeiðahr., Árn. Foreldrar hans voru Eiríkur Eiríksson (1851-1932) og Sigríður Einarsdóttir (1853-1904). Gísli missti móður sína þegar hann var tæplega 10 ára. Heimilið flosnaði upp og börnunum var komið fyrir hjá vinum og ættingjum. Frá 1903-1907 er Gísli að Ásum í Gnúpverjahreppi hjá móðurbróður sínum, Gísla Einarssyni, en 1907 fer hann til Sigrúnar systur sinnar að Úthlíð í Biskupstungum. Frá Úthlíð flyst hann með mági sínum og systur að Gljúfri í Ölfusi. Í byrjun 1913, þá 18 ára gamall, fer hann til Reykjavíkur að leita sér atvinnu og kemst í skipsrúm hjá Halldóri Kr. Þorsteinssyni.
Gísli var duglegur og hlífði sér lítt við erfiði. Hann var kröfuharður við sjálfan sig og mörgum hefði fundist hann vinnuharður bátsmaður, hefði hann ekki sjálfur gengið fyrir í öllu. Nærgætni hans og aðgæsla var sérstök og mörgum viðvaningi var hlýtt til hans vegna tilsagnar hans og vakandi eftirtektar. Vegna þessa eiginleika var Gísli eftirsóttur í skipsrúm og var snemma trúað fyrir verkstjórn á þilfari. Hann skipti sjaldan um skipsrúm eða skipstjóra í 30 ára starfi á sjónum og hafði verið bátsmaður á Max Pemberton árum saman.
Gísli var kvæntur Guðríði Guðrúnu Guðmundsdóttur (1892-1978) og áttu þau 6 börn saman:
- Björn Guðmundur Gíslason (1922-1980).
- Guðrún Munda Gísladóttir (1923-2007).
- Guðmundur Kristinn Gíslason (1925-1926).
- Sigríður Kristín Gísladóttir (1926-2011).
- Ólafur Jóhann Gíslason (1929-1976).
- Eiríkur Garðar Gíslason (1932-1983).
Gísli hvílir í votri gröf.
Björgvin Halldór Björnsson, 28 ára, stýrimaður til heimilis að Hringbraut 107.
Björgvin fæddist þann 24. ágúst 1915 að Ánanaustum í Reykjavík. Foreldrar hans voru Björn Jónsson (1880-1946) og Anna Pálsdóttir (1888-1961). Björgvin byrjaði sjómennsku með föður sínum og var með honum næstum óslitið þar til að hann hóf nám í stýrimannaskólanum. Lauk hann þar prófi með 1. einkunn vorið 1938 og sigldi síðan sem skipstjóri og stýrimaður á línuskipum. Eftir að stríðið hófst var hann í millilandasiglingum á sömu skipum, bæði sem stýrimaður og skipstjóri og farnaðist mjög vel, þar til hann fór á Max Pemberton tveimur árum áður en hann fórst. Var hann þar bæði sem háseti og stýrimaður og naut þar mikils traust sem var, því hann var framúrskarandi reglu- og dugnaðarmaður.
Guðjón, bróðir Björgvins, var líka í áhöfn Max Pemberton og fórst með honum (sjá hér fyrir neðan).
Björgvin var kvæntur Ástu Sigríði Þorkelsdóttur (1915-2008) og áttu þau tvær dætur saman, sú yngri fæddist eftir að Björgvin fórst:
- Unnur Björgvinsdóttir Morgan (1941-2015).
- Björg Halldóra Björgvinsdóttir (1944).
Björgvin hvílir í votri gröf.
Guðjón Björnsson, 17 ára, háseti til heimilis hjá foreldrum sínum að Sólvallagötu 57 í Reykjavík.
Guðjón fæddist þann 27. febrúar 1926 að Ánanaustum í Reykjavík. Hann var bróðir Björgvins sem er nefndur hér fyrir ofan. Foreldrar hans voru Björn Jónsson (1880-1946) og Anna Pálsdóttir (1888-1961).
Þrátt fyrir ungan aldur, var Guðjón búinn að vera á sjónum í 10 sumur. 7 ára fór hann með föður sínum á síldveiðar og var með honum á hverju sumri til 13 ára aldurs að hann fór á annað skip sem háseti. Stóð hann þar ekki að baki þeim er eldri voru, enda var það þannig að eftir að hann varð 15 ára, þá gat hann valið um skipsrúm á línu- og síldveiðarskipum. Haustið áður en Maxinn fórst, fór hann þangað um borð og lét Pétur Maack skipstjóri þau orð falla um hann þar, að ungling, óvanan togveiðum, hefði hann aldrei fengið um borð í sitt skip efnilegri, því hann hefði strax orðið sem hver annar maður.
Guðjón var hvers manns hugljúfi, allir vildu með honum vera og allir virtu hann fyrir dugnað og framúrskarandi góða framkomu. Einn af hans mörgu kostum var það að ef hann vissi um eitthvert verk, er framkvæma þurfti, þá gekk hann að því ótilkvaddur og framkvæmdi það. Guðjón var ákveðinn í því að fara í Stýrimannaskólann strax og aldur leyfði, en aldrei varð af því.
Bróðir þeira Guðjóns og Björgvins, Anton Björn Björnsson, fórst með vélbátnum Hilmi ÍS 39 á leið frá Rvík til Arnarstapa 26. nóvember 1943.
Guðjón var ókvæntur og barnlaus.
Guðjón hvílir í votri gröf.
Valdimar Guðjónsson, 46 ára, matsveinn til heimilis að Sogamýrarbletti 43 í Reykjavík.
Valdimar fæddist þann 21. ágúst 1897 í Auðsholti, Hrunamannahr., Árn. Foreldrar hans voru Guðjón Tómasson (1870-1949) og Guðlaug Sigurðardóttir (1868-1900).
Valdimar var kvæntur Rósu Kristbjörgu Guðmundsdóttur (1902-1994) og áttu þau fjögur börn saman, það yngsta fæddist eftir að Valdimar fórst:
- Hlíf Petra Valdimarsdóttir (1932-2015).
- Guðlaug Valdimarsdóttir (1935).
- Guðmundur Þ Valdimarsson (1937).
- Valdimar Guðjón Valdimarsson (1944).
Valdimar hvílir í votri gröf.
Guðmundur Einarsson, 45 ára, netamaður til heimilis að Bárugötu 36 í Reykjavík.
Guðmundur fæddist þann 19. janúar 1898 í Brandshúsum, Gaulverjabæjarhr., Árn. Foreldrar hans voru Einar Einarsson (1858-1920) og Þórunn Halldórsdóttir (1856-1951).
Guðmundur var kvæntur Jónu Björgu Magnúsdóttur (1910-1997) og áttu þau tvö börn saman:
- Ástríður Guðmundsdóttir (1943-1949).
- Halldór Guðmundsson (1933-2022).
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Guðmundur Jón Þorvaldsson, 43 ára, bræðslumaður til heimilis að Selvogsgötu 24 í Hafnarfirði.
Guðmundur fæddist þann 6. desember 1899 að Hvammi í Dýrafirði, Þingeyrarhr., V-Ís. Foreldrar hans voru Þorvaldur Jón Kristjánsson (1873-1960) og Sólborg Matthíasdóttir (1875-1957).
Guðmundur var kvæntur Friðrikku Bjarnadóttur (1905-2001) og áttu þau 9 börn saman:
- Þórir Guðmundsson (1924-1924).
- Drengur Guðmundsson (1924-1924).
- Sólborg Guðmundsdóttir (1925-2012).
- Þorgerður Guðmundsdóttir (1926-2018).
- Bjarnfríður Guðmundsdóttir (1928-1999).
- Lúter Guðmundsson (1929-1941).
- Guðmundur Kristján Guðmundsson (1931-2003).
- Ingibjörg Guðmundsdóttir (1934).
- Lovísa Guðmundsdóttir (1939).
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Sigurður Viggó Pálmason, 49 ára, netamaður til heimilis að Bræðraborgarstíg 49 í Reykjavík.
Sigurður fæddist þann 25. nóvember 1894 á Breiðabóli, Hólshr., N-Ís. Foreldrar hans voru Pálmi Bjarnason (1854-1921) og Kristín Friðbertsdóttir (1858-1944).
Sigurður var kvæntur Evlalíu Gróu Halldórsdóttur (1901-1941) en hún lést úr berklum þremur árum áður en Sigurður fórst með Max. Þau eignuðust 5 börn saman:
- Ingibjörg Herdís Sigurðardóttir (1920-1945).
- Helga Sigurðardóttir (1923-1940).
- Kristín Sigurðardóttir (1926-1991).
- Sigríður Sigurðardóttir (1929-2012).
- Halldór Sigurðsson (1932-2017).
Sigurður hafði áður eignast dóttur með Ástu Júlíusdóttur (1900-1970):
- Unnur Sigurðardóttir (1919-2000).
Sigurður hvílir í votri gröf.
Sæmundur Halldórsson, 33 ára, netamaður til heimilis að Hverfisgötu 61 í Reykjavík.
Sæmundur fæddist þann 4 júlí 1910 í Kothrauni, Helgafellssveit, Snæf. Foreldrar hans voru Halldór Guðmundur Pétursson (1864-1921) og Guðmundína Kristjana Guðmundsdóttir (1873-1963).
Sæmundur missti föður sinn þegar hann var aðeins 10 ára. Tvístraðist heimili hans þá, og fluttist móðir hans þá að Bjarnarhöfn í sömu sveit, með hann og Kristján bróðir hans (sjá fyrir neðan). Það má því telja Bjarnarhöfn bernskuheimili Sæmundar. Um tvítugt fluttist Sæmundur til Stykkishólms en þar dvaldi hann tvö ár og vann við trésmíðar. Frá Stykkishólmi fluttist hann til Reykjavíkur og hefst þá sjómannslíf hans, sem hann svo stundaði upp frá því. Í rúman áratug var Sæmundur búinn að sækja sjóinn og lengst af á Maxinum. Hann þótti þar sem annarsstaðar hinn vaskasti maður, ósérhlífinn, áræðinn og flestum mönnum afkastameiri.
Sæmundur var kvæntur Elísabetu Jónsdóttur (1910-2002) og áttu þau eina dóttur saman:
- Sæunn Margrét Sæmundsdóttir (1942).
Sæmundur hvílir í votri gröf.
Kristján Halldórsson, 38 ára, háseti til heimilis í Innri-Njarðvík.
Kristján fæddist þann 20. mars 1905 í Kothrauni, Helgafellssveit, Snæf. Foreldrar hans voru Halldór Guðmundur Pétursson (1864-1921) og Guðmundína Kristjana Guðmundsdóttir (1873-1963). Kristján var bróðir Sæmundar hér fyrir ofan. Hann byrjaði að starfa á æskuárum því að hann missti föður sinn er hann var ungur. Brátt gerðist hann athafnamaður og lærði trésmíði og stundaði hana mest alla ævi sína. Hann vann nokkur ár hjá skipasmíðastöinni í Innri-Njarðvík er hann fór þaðan fór hann til Reykjavíkur og fór á Max Pemberton. Var hann búinn að vera nokkra mánuði á Maxinum er hann fórst.
Kristján var í sambúð með Önnu Vilmundardóttur (1916-2003) en þau slitu samvistum. Þau eignuðust 3 syni saman:
- Lúther Steinar Kristjánsson (1934-2016).
- Halldór Kristján Kristjánsson (1936-2016).
- Ólafur Þór Kristjánsson (1938-2021).
Kristján hvílir í votri gröf.
Guðni Kristinn Sigurðsson, 50 ára, netamaður til heimilis að Laugavegi 101 í Reykjavík.
Guðni fæddist þann 16. janúar 1893 í Smiðshúsum í Njarðvík. Foreldrar hans voru Sigurður Jóhannesson (1857-1902) og Guðríður Jónsdóttir (1859-1921).
Guðni var kvæntur Jensínu Guðrúnu Jóhannesdóttur (1895-1963) og voru þau barnlaus.
Guðni hvílir í votri gröf.
Jens Konráðsson, 26 ára, stýrimaður búsettur að Öldugötu 47 í Reykjavík.
Jens fæddist þann 25. september 1917 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Konráð Jensson (1890-1964) og Þorbjörg Sveinbjörnsdóttir (1891-1958). Þegar í barnæsku ákvað Jens að verða sjómaður. Innan við fermingaraldur fór hann fyrst til sjós, undir handleiðslu föður síns, er þá var dugandi sjómaður. Jens var því ekki gamall er hann var orðinn töluvert reyndur og mjög dugandi sjómaður. Hann var háseti á stærri og smærri bátum við ýmiskonar veiðar í nokkur ár, undi sér hvergi betur en úti á hafsauga, og skipaði ávalt rúm sitt með sæmd.
En hugur hans stefndi hærra. Hann ákvað að læra og verða skipstjóri. Fluttist hann frá Ísafirði til Reykjavíkur og tók að stunda sjómennsku á togurum. Árið 1941 innritaðist hann í Stýrimannaskólann og útskrifaðist hann úr skólanum vorið 1943 með góðum vitnisburði og réðst þá á Max Pemberton. Var hann þar háseti á fiskveiðunum en stýrimaður í Englandssiglingunum. Jens kom sér hvarvetna vel, þar sem hann vann, enda var hann laginn verkamaður, þaulvanur öllum þeim störfum er vinna þarf um borð í skipi, duglegur með afbrigðum, ósérhlífinn og áræðinn.
Jens var kvæntur Þórunni Benjamínsdóttur (1915-1981). Þau voru barnlaus.
Jens hvílir í votri gröf.
Jón Magnús Jónsson, 29 ára, stýrimaður til heimilis að Hringbraut 152 í Reykjavík.
Jón fæddist þann 10. október 1914 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Jón Pétursson (1874-1939) og Guðbjörg Magnúsdóttir (1884-1969). Jón eldri lést þegar hann tók út af síldveiðiskipinu Hafþóri árið 1939.
Jón lét eftir sig unnustu, Þórdísi Aðalbjörnsdóttur. Þau voru barnlaus.
Jón hvílir í votri gröf.
Valdimar Hlöðver Ólafsson, 22 ára, háseti til heimilis hjá foreldrum sínum að Skólavörðustíg 20a í Reykjavík.
Valdimar fæddist þann 3. apríl 1921 að Skólavörðustíg 20a. Foreldrar hans voru Ólafur Kristinn Teitsson (1891-1974) og Vilborg Magnúsdóttir (1892-1983).
Valdimar var ókvæntur og barnlaus.
Valdimar hvílir í votri gröf.
Magnús Jónsson, 23 ára, háseti til heimilis að Frakkastíg 19 í Reykjavík hjá foreldrum sínum.
Magnús fæddist þann 11. ágúst 1920 í Stóra-Seli í Reykjavík. Foreldrar hans voru Jón Guðmundsson (1886-1967) og Guðrún Júlíana Sveinsdóttir (1890-1945). Magnús var mágur Péturs, 1. stýrimanns.
Magnús var ókvæntur og barnlaus.
Magnús hvílir í votri gröf.
Jón Þórður Hafliðason, 28 ára, háseti til heimilis að Baldursgötu 9 í Reykjavík.
Jón fæddist þann 19. september 1915 í Skáleyjum. Foreldrar hans voru Hafliði Pétursson (1885-1956) og Steinunn Þórðardóttir (1886-1974).
Jón var kvæntur Láru Þóru Magnúsdóttur Andersson (1918-2016) og áttu þau einn son saman:
- Jón Þórður Jónsson (1943).
Jón hvílir í votri gröf.
Halldór Sigurðsson, 23 ára, háseti til heimilis að Jaðarkoti, Villingaholtshr., Árn. (Hverfisgötu 89 í Reykjavík).
Halldór fæddist þann 26. september 1920 í Jaðarkoti, Villingaholtshr., Árn. Foreldrar hans voru Sigurður Guðmundsson (1895-1936) og Halldóra Halldórsdóttir (1888-1988).
Halldór var ókvæntur og barnlaus en fyrirvinna móður sinnar sem var ekkja, og yngri systkina sinna.
Halldór hvílir í votri gröf.
Gunnlaugur Guðmundsson, 26 ára, háseti til heimilis að Óðinsgötu 17 í Reykjavík.
Gunnlaugur fæddist þann 15. janúar 1917 að Gjögri, Árneshr., Strand. Foreldrar hans voru Guðmundur Sveinsson (1875-1929) og Vigdís Gunnlaugsdóttir (1876-1924). Gunnlaugur missti ungur foreldra sína og fór í fóstur á Súðavík.
Gunnlaugur var kvæntur Þorgerði Jónsdóttur (1918-1999) og áttu þau son saman sem var aðeins 8 daga gamall þegar Gunnlaugur fórst.
- Gunnlaugur Vignir Gunnlaugsson (1944-2002).
Gunnlaugur hvílir í votri gröf.
Kristján Karl Kristinsson, 14 ára, aðstoðarmatsveinn til heimilis í Háteigi í Reykjavík.
Kristján fæddist þann 2. júní 1929 á Grundarstíg 2 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Kristinn Halldór Kristjánsson (1892-1952) og Karólína Ágústína Jósepsdóttir (1903-1984).
Kristján hvílir í votri gröf.
Ari Friðriksson, 19 ára, háseti til heimilis hjá systur sinni að Hörpugötu 9 í Reykjavík.
Ari fæddist þann 4. apríl 1924 að Látrum í Aðalvík, Sléttuhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Friðrik Geirmundsson (1891-1967) og Mikkalína Þorsteinsdóttir (1892-1942) og var hann einn af tíu börnum þeirra, en af þeim dóu þrjú sem ungabörn. Ari var að sögn elstu systur hans, stríðinn og glaðvær.
Ari var ókvæntur en átti unnustu. Hann hafði fyrir öldruðum föður að sjá.
Ari hvílir í votri gröf.
Jón Ólafsson, 39 ára, háseti til heimilis í Keflavík.
Jón fæddist þann 22. mars 1904 að Aðalbóli, Auðkúluhr., V-Ís. Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson (1874-1935) og Ásta Magnfríður Magnúsdóttir (1885-1941). Jón fór þessa einu ferð með Max Pemberton í staðinn fyrir annan mann sem forfallaðist.
Jón var ókvæntur og barnlaus.
Jón hvílir í votri gröf.
Arnór Sigmundsson, 52 ára, háseti til heimilis að Vitastíg 9 í Reykjavík.
Arnór fæddist þann 3. október 1891 í Sútarabúðum, Grunnavíkurhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Sigmundur Hagalínsson (1853-1929) og Elín Arnórsdóttir (1854-1933). Arnór hafði áður verið skipverji á Skúla Fógeta er hann strandaði fyrir vestan Staðarhverfi í Grindavík 10. apríl 1933.
Arnór var kvæntur Þórdísi Magnúsdóttur (1887-1962). Þau voru barnlaus.
Arnór hvílir í votri gröf.
Heimildir:
Akranes 01.08.1947, s. 95
Faxi 01.01.1986, s. 26
Morgunblaðið 09.02.1944, s. 8
Morgunblaðið 13.02.1944, s. 5
Morgunblaðið 15.03.1944, s. 8
Morgunblaðið 29.07.1984, s. 85
Sjómannablaðið Víkingur 01.01.1944, s. 3-6
Sjómannablaðið Víkingur 01.12.2003, s. 58
Sjómannablaðið Víkingur 01.01.2020, s. 47
Þjóðviljinn 16.01.1944, s. 1
https://solir.blog.is/blog/solir/?offset=840