Jarlinn GK 272 var byggður árið 1890 í Bretlandi sem togari en var síðar breytt í línuveiðara. Hann fékk upprunalega nafnið Stanley Africanus og skráningarnúmerið GY267. Árið 1925 var hann keyptur til Íslands, eftir að hafa verið í Svíþjóð í nokkur ár, og árið 1930 fékk hann nafnið Jarlinn. Hann var 190 rúml. brúttó, með 250 hestafla gufuvél, og því einn með stærstu hérlendum línuveiðurum. Þegar hann fórst, voru eigendur hans sameignarfélagið Jarlinn, eða Óskar Halldórsson og börn hans. Eitt af börnum Óskars, Theodór, var þá starfandi sjómaður á skipinu.
Jarlinn GK 272 fór með ísfiskfarm frá Ísafirði 21. ágúst 1941 áleiðis til Englands, en hann hafði verið í ísfiskflutningum þangað frá ársbyrjun 1940. Á leiðinni út kom hann við í Vestmannaeyjum og hélt af stað þaðan 23. ágúst. Þann 1. sept. seldi hann afla sinn í Fleetwood, og hélt þaðan af stað heimleiðis miðvikudaginn 3. sept., og ætlaði þá beina leið til Vestmannaeyja. Um miðjan septembermánuð var farið að óttast um Jarlinn og reynt var að grennslast eftir ferðum þess frá Englandi, en þá var sæsíminn slitinn og því erfitt að síma nokkuð sem að skipaferðum laut.
Fyrir milligöngu breskra yfirvalda á Íslandi barst Óskari Halldórssyni, eiganda skipsins, skeyti frá umboðsmanni hans í Fleetwood, Þórarni Olgeirssyni, en til hans hafði Óskar komið fyrirspurn. Skeyti Þórarins var svohljóðandi:
,,Símskeyti móttekið í dag. Það hryggir mig mjög að frjetta að ,,Jarlinn” er ekki kominn fram. Hann sigldi frá Fleetwood miðvikudagsmorguninn 3. september og ætlaði að halda beina leið til Vestmannaeyja. Hefi ekkert frjett síðan skipið sigldi.”
Þar með var ekki lengur efast um afdrif Jarlsins. Síðar kom í ljós að þann 5. september 1941 kl. 23:37 var Jarlinum sökkt af þýska kafbátnum U-141 undir stjórn Philipps Schülers. Tundurskeyti hitti Jarlinn miðskips og sökk hann samstundis. Jarlinn varð síðasta fórnarlamb U-141, eftir þetta var hann gerður að kennslubát.
Kortið hér fyrir neðan sýnir hvar Jarlinum sökkt af U-141.
Með Jarlinum fórust 11 menn:
Jóhannes Jónsson, 64 ára, skipstjóri til heimilis að Öldugötu 4 í Reykjavík.
Jóhannes fæddist þann 22. apríl 1877 að Efri-Lág, Eyrarsveit, Snæf. Foreldrar hans voru Jón Árnason (1843-1913) og Kristín Sigurðardóttir (1844-1910). Jóhannes var ókvæntur og barnlaus.
Jóhannes hvílir í votri gröf.
Guðmundur Matthíasson Thordarson, 37 ára, stýrimaður búsettur í Kaupmannahöfn.
Guðmundur fæddist þann 26. janúar 1904 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Matthías Þórðarson (1872-1959) og Sigríður Guðmundsdóttir (1875-1949). Guðmundur lét eftir sig eiginkonu og ungan son.
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Eyjólfur Björnsson, 58 ára, 1. vélstjóri til heimilis að Laxnesi í Mosfellssveit.
Eyjólfur fæddist þann 23. febrúar 1883 í Vilborgarkoti, Mosfellssveit, Kjós. Foreldrar hans voru Björn Kaprasíusson (1849-1891) og Margrét Jónsdóttir (1852-1930). Eyjólfur var kvæntur Guðrúnu Guðmundsdóttur (1895-1973) og áttu þau þrjú börn saman:
- Sigurrós Eyjólfsdóttir Laramy (1918-1986).
- Kristófer Eyjólfsson (1920-2007).
- Friðmey Eyjólfsdóttir (1923-2016).
Eyjólfur hvílir í votri gröf.
Jóhann Sigurjónsson, 45 ára, 2. vélstjóri til heimilis að Siglufirði.
Jóhann fæddist þann 12. febrúar 1896 að Sigurðarstöðum í Presthólahr., N-Þing. Foreldrar hans voru hjónin Sigurjón Hrólfsson (1866-1924) og Ingibjörg Árnadóttir (1863-1924). Í bernsku fluttist hann með foreldrum sínum til Austfjarða og ólst upp á Seyðisfirði og stundaði þar sjó. Til Siglufjarðar flutti hann með fjölskyldu sína árið 1930. Á sumrum vann hann í Ríkisverksmiðjunum og sumarið áður en hann fórst vann hann í Rauðku, allt til þess að hann réðst 2. vélstjóri á Jarlinn. Jóhann var vel látinn og hinn duglegasti maður. Jóhann kvæntist Kristjönu Halldórsdóttur (1892-1970) árið 1923 og áttu þau tvö börn saman:
- Matthías Jóhannsson (1923-1995).
- Sigurbjörg Jóhannsdóttir (1925-2004).
Jóhann hvílir í votri gröf.
Sigurður Óskar Gíslason, 26 ára, kyndari til heimilis á Óðinsgötu 16 í Reykjavík.
Sigurður fæddist þann 21. janúar 1915 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Sigurðsson (1889-1980) og Anna Einarsdóttir (1883-1958). Sigurður eignaðist son með Guðlaugu Tómasdóttur (1911-1957):
- Tómas Halldórsson Sigurðsson (1937-1924).
Sigurður var kvæntur Guðnýju Helgu Sigurjónsdóttur (1911-1940) og eignaðist með henni eina dóttur:
- Helga Sigurðardóttir (1940-1959).
Sigurði fæddist dóttir með Sigríði Septínu Þórarinsdóttur (1920-1971) eftir að hann fórst:
- Sigrún Steinunn Sigurðardóttir (1942).
Sigurður hvílir í votri gröf.
Dúi Guðmundsson, 40 ára, kyndari til heimilis á Siglufirði.
Dúi fæddist þann 4. febrúar 1901 að Langhúsum í Fljótum í Haganeshr., Skag. Foreldrar hans voru Guðmundur Árni Ásmundsson (1871-1950) og Lovísa Sigríður Grímsdóttir (1878-1940). Dúi ólst upp með foreldrum sínum í Fljótum en fluttist síðar til Siglufjarðar. Hann fékkst aðallega við sjómennsku. Hann hafði minna próf í skipstjórnarfræðum og bjó sig undir að taka próf úr Stýrimannaskólanum. Hann var oft formaður á bátum á síldveiðum á Siglufirði og þótti ötull sjómaður. Dúi þótti hinn vænsti maður af öllum sem til þekktu. Dúi var ekki kvæntur en hann eignaðist dóttur með Emelíu Ísfold Gunnarsdóttur (1918-1993):
- Pálína Sædís Dúadóttir (1939).
Dúi hvílir í votri gröf.
Halldór Sigurðsson Björnsson, 21 árs, matsveinn til heimilis að Ingólfsstræti 21 í Reykjavík.
Halldór fæddist þann 20. febrúar 1920 að Bergstaðastræti 40 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Björn Sæmundsson (1885-1925) og Guðrún Jónsdóttir (1894-1933). Hann missti foreldra sína þegar hann var ungur, Björn föður hans tók út af togaranum Snorra goða RE 141, þegar Halldór var aðeins fimm ára gamall og móðir hans lést þegar hann var 13 ára. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Halldór hvílir í votri gröf.
Konráð Elís Ásgeirsson, 30 ára, háseti frá Bolungarvík.
Konráð fæddist þann 17. júlí 1911 að Ytri-Búðum í Bolungarvík. Foreldrar hans voru hjónin Ásgeir Jónsson (1866-1920) og Elísabet Soffía Guðmundsdóttir (1874-1939). Konráð var ókvæntur og barnlaus.
Konráð hvílir í votri gröf.
Ragnar Guðmundsson, 30 ára, háseti til heimilis að Gufuá í Borgarhr., Mýr.
Ragnar fæddist þann 13. ágúst 1911 að Lundi í Þverárhlíð í Þverárhlíðarhr., Mýr. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Ásmundsson (1880-1955) og Anna María Jónsdóttir (1875-1959). Ragnar var ókvæntur og barnlaus.
Ragnar hvílir í votri gröf.
Sveinbjörn Jóelsson, 17 ára, háseti til heimilis að Skólavörðustíg 15 í Reykjavík.
Sveinbjörn fæddist þann 23. nóvember 1923 að Skólavörðustíg 15. Foreldrar hans voru hjónin Jóel Sumarliði Þorleifsson (1874-1962) og Sigríður Kristjánsdóttir (1880-1954). Sveinbjörn var ókvæntur og barnlaus.
Sveinbjörn hvílir í votri gröf.
Óskar Theodór Ottesen Óskarsson, 23 ára, háseti til heimilis að Ingólfsstræti 21 í Reykjavík.
Theodór fæddist þann 22. febrúar 1918 að Bergstaðastræti 45 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Óskar Georg Halldórsson (1893-1953) og Guðrún Ólafsdóttir (1893-1939). Theódór var einn af eigendum Jarlsins. Theodór var ókvæntur og barnlaus.
Theodór hvílir í votri gröf en hans er minnst á legstein ömmu hans og systur í Hólavallagarði.
Heimildir:
MBL 23.09.1941, s. 5
Mjölnir 21.10.1941, s. 2
Fálkinn 26.09.1941, s. 14
Sjómannablaðið Víkingur 01.10.1941, s. 10
Ægir 01.09.1941, s. 228-230
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3976
https://uboat.net/allies/merchants/ship/1082.html