Hulda GK 475 – 1932

Hulda GK 475 var smíðuð í Reykjavík árið 1914, úr eik og furu. Var hún um 11 smálestir að stærð.

Hulda kom til viðgerðar í Reykjavík mánudaginn 18. janúar 1932 og lá hún við steinbryggjuna á meðan á viðgerð stóð. Þegar viðgerð var lokið, á miðvikudeginum, var rætt um að Hulda héldi strax af stað til Keflavíkur en formaðurinn, Páll Magnús Pálsson, ákvað að fresta förinni til næsta dags. Um hádegisbil fimmtudaginn 21. janúar, lagði báturinn svo af stað áleiðis til Keflavíkur.

Hulda GK 475 - Mynd: Þórhallur Sófusson Gjörveraa
Hulda GK 475 – Mynd: Þórhallur Sófusson Gjörveraa

Stinningskaldi var þegar Hulda lagði af stað, en útsynningsrok skall á er leið á daginn, með miklum hryðjum. Um fjögurleytið sá Haraldur Jónsson, bóndi í Gróttu, til Huldu um 2 sjómílur vestur af Gróttu. Gerði þá suðvestan hryðju og hvessti svo mjög að Haraldur taldi víst að báturinn myndi snúa við til hafnar. Svo varð þó ekki. Hulda hélt áfram og miðaði vel að því virtist. Hryðjan stóð í um 20 mínútur og syrti mjög í lofti meðan hún gekk yfir. Þegar henni slotaði skyggndist Haraldur aftur eftir bátnum, en sá ekkert, hvorki ljós né annað. Þá var farið að skyggja og hryðjurnar orðnar svo þéttar að lítt birti upp á milli þeirra. Þetta var í síðasta sinn sem sást til vélbátsins Huldu.

Kort
Erlendur Sigurðsson
Erlendur Sigurðsson

Þegar báturinn var ekki kominn fram á föstudagsmorgninum, tóku menn að óttast um afdrif hans. Fyrirspurnir voru gerðar víða, hvort hann hefði leitað til lands, en hvergi hafði sést til bátsins. Var þá varðskipinu Þór falið að leita bátsins og þegar sú leit bar engan árangur, lét Slysavarnarfélag Íslands útvarpa áskorun til allra skipa og báta á Faxaflóanum um að svipast um eftir bátnum. Þór hélt áfram að leita og leitaði alla leið vestur fyrir Þormóðssker, en án árangurs. Auk þess svipaðist Súðin um á leiðinni að vestan. Mörg skip og bátar á Faxaflóa tóku þátt í leitinni. Þann 26. janúar rak bómu úr vélbáti og hurð af stýrishúsi á land á Akranesi, og töldu menn að hvortveggja væri úr Huldu.

Um borð á Huldu voru fjórir menn. Formaðurinn Páll Magnús Pálsson, Magnús Sigurðsson vélstjóri, Dagbjartur Guðbrandsson háseti og Jóhann Ingvason, fyrrverandi oddviti í Keflavík. Fimmti maðurinn, Erlendur Sigurðsson bróðir Magnúsar vélstjóra, ætlaði einnig með Huldu til Keflavíkur þennan dag. Hann var kominn um borð þegar leysa átti landfestar en hætti skyndilega við og stökk í land þegar báturinn var að leggja frá.

Bátshvarf Huldu olli einhverjum hatrömmustu deilum sem um getur í íslenskri verkalýðssögu. Útgerðaraðilar í Keflavík héldu því fram að Verkamálaráð Alþýðusambands Íslands hefði beitt sér fyrir því að Huldu hafi verið neitað um olíu fyrir brottför. Hafði Verkamálaráðið sett afgreiðslubann á Keflavíkurbáta stuttu áður, og því hefði Hulda hvorki fengið afgreidda olíu né vistir þegar hún ætlaði af stað, þrátt fyrir tilraunir til að útvega þessar nauðsynjar í Reykjavík, Hafnarfirði og víðar. Ég mun ekki fara nánar í þessa sögu, en bendi á mjög ítarlegar greinar í 2. og 3. tölublaði Faxa frá árinu 2008, sem hægt er að lesa á Tímarit.is

Með Huldu fórust fjórir menn:


Páll Magnús Pálsson, 40 ára, formaður frá Keflavík.

Magnús fæddist þann 16. nóvember 1891 í Keflavík. Foreldrar hans voru Páll Magnússon (1851-1934) og Þuríður Nikulásdóttir (1855-1940). Snemma hneigðist hugur hans til sjósókna. Árið 1914 gerðist hann formaður á litlum vélbát. En síðar tók hann formennsku á vélbátnum Huldu. Var hann meðeigandi í þeim bát.

Hann var jafnan hinn aflasælasti, og ávallt talinn hinn athugulasti og aðgætnasti af formönnum í Keflavík, en jafnframt hin ötulasti, og fóru störfin svo liðlega úr hendi á bát hans, að hann kom að heita mátti jafnan fyrstur að landi úr hverjum róðri. Naut hann þar þess, hve vel honum tókst að laða til sín hina ötulustu háseta, enda kunni hann vel að meta störf þeirra, og réðust hinir sömu menn á bát hans ár eftir ár.

Magnús heitinn var tæplega meðalmaður á hæð, en þreklega og vel vaxinn. Hann var maður þéttur á velli og karlmenni að burðum. Í skoðunum var hann einbeittur og fylginn sér.

Magnús kvæntist Guðríði Ingibjörgu Jónsdóttur (1891-1945) árið 1913. Þau eignuðust tvo syni:

Magnús hvílir í votri gröf.


Magnús Sigurðsson, 27 ára, vélamaður frá Keflavík.

Magnús fæddist þann 11. október 1904 í Keflavík. Foreldrar hans voru Sigurður Erlendsson (1879-1945) og Ágústa Guðjónsdóttir (1884-1959). Magnús ólst upp hjá móðurafa sínum Guðjóni skipasmið að Framnesi, og konu hans Guðrúnu Torfadóttur. Naut hann hjá þeim hins mesta ástríki í uppvextinum, svo og hjá móðursystrum sínum.

Magnús var jöfnum höndum vélstjóri á vélbát og bifreiðastjóri. Hvort tveggja starfið lék í höndum hans. Var svo um hvert það verk er hann vann, enda sat hann jafnan fyrir um hverja þá atvinnu er hann sóttist eftir. Fór saman hjá honum, verklægni, skyldurækni og hin prúðasta og drengilegasta framkoma, er einkenndi hann jafnan. Hið stutta æviskeið hans hafði fyllilega gefið skyldmennum hans og samferðafólki öllu hinar bestu vonir um hann, sem nýtan og góðan þjóðfélagsborgara.

Árið 1930 kvæntist hann Eyrúnu Eiríksdóttur frá Grindavík. Þau eignuðust eina dóttur saman:

Magnús hvílir í votri gröf.


Dagbjartur Jóhannes Sigurbjörn Guðbrandsson, 20 ára, háseti til heimilis að Grettisgötu 18 í Reykjavík.

Dagbjartur fæddist þann 5. september 1911 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðbrandur Jónsson Valsberg (1877-1941) og Júlíana Stígsdóttir (1886-1961). Dagbjartur ólst upp að Hóli í Bíldudal til 9 ára aldurs, en fór þá suður til Reykjavíkur og átti heima hjá móður sinni á Grettisgötu 18. Þegar hann hafði þroska til gerðist hann sjómaður og stundaði sjómennsku síðan á opnum bátum og vélbátum meðan líf entist. Þessa vertíð var hann ráðinn á Huldu frá Keflavík og var þetta fyrsta för hans með bátnum.

Dagbjartur var ókvæntur en hann átti unnustu, Ragnheiði Jóhönnu Ólafsdóttur (1915-1998) og saman áttu þau eina dóttur:

Dagbjartur hvílir í votri gröf.


Jóhann Ingvason, 45 ára, farþegi frá Keflavík.

Jóhann fæddist þann 10. október 1886 að Snæfoksstöðum, Grímsneshr., Árn. Foreldrar hans voru Ingvi Þorsteinsson (1854-1953) og Þórdís Jónsdóttir (1856-1911). Jóhann kvæntist Kristínu Guðmundsdóttur (1889-1978) frá Þórisstöðum í Grímsnesi árið 1913 og sama ár tók hann við búi á Snæfoksstöðum. En árið 1920 brugðu þau hjón búi og fluttust til Keflavíkur þar sem þau keyptu sér hús og hann keypti hlut í vélbátnum Huldu.

Jóhann var hið mesta prúðmenni í allri framkomu, greindur vel og athugull og hinn orðvarasti. Hann var maður hagsýnn og tillögugóður um öll mál. Mjög var hann því fráhverfur að berast nokkuð á, en þótt hann hefði sig lítt í frammi, komu menn fljótt auga á kosti hans, enda var hann kosinn í hreppsnefnd í Keflavík, skömmu eftir að hann fluttist þangað. Tók hann þá þegar við oddvitastörfum en lét af þeim sakir heilsubrests haustið 1929. Oddvitastörfin fóru honum mæta vel úr hendi. Þar nutu sín vel mannkostir hans, enda aflaði hann sér óskipts trausts hreppsbúa.

Jóhann og Kristín eignuðust 4 syni:

Jóhann hvílir í votri gröf en hans er minnst á legsteini Kristínar konu hans í Keflavíkurkirkjugarði við Aðalgötu.


Heimildir:
Alþýðublaðið 24.01.1932, s. 2
Faxi 01.05.2008, s. 8-12
Vísir 23.01.1932, s. 2

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top