Ari VE 235 – 1930

Aðfaranótt 24. janúar 1930 réru flestir bátar frá Vestmannaeyjum. Veður var þá dágott, austankaldi. Veðurspáin kvöldinu áður sagði verða mundu hæga SV átt um nóttina, en vaxandi SA átt þegar fram á daginn kæmi. Bátarnir réru allir skammt austur fyrir Eyjar. Voru sumir nýbyrjaðir að leggja línu er hann brast á með austan ofviðri. Var þetta um kl. 8 um morguninn. Snéru þá allir heimleiðis undireins. En svo var illt í sjó og veður mikið, að þeir fyrstu náðu ekki höfn fyrr en um hádegi. Voru þeir svo smám saman að tínast inn þangað til kl. að ganga 8 í þá um kvöldið, en þá vantaði enn þó enn einn bátinn, Ara VE 235, eign Árna Sigfússonar og Ólafs Auðunssonar. Voru á honum 5 menn. Hinir bátarnir vissu ekkert um Ara, nema að hann hafði orðið þeim samflota út á mið. Leit hófst en hún bar engan árangur. Veðurhæð var mikil daginn eftir, en hitt bar þó af hvað vont var í sjó. Gamall og reyndur formaður, sem var á traustum og góðum bát, sagðist aldrei á æfi sinni hafa beitt í annan eins sjó og þá.

Ari VE 235 á siglingu. - Mynd: Tryggvi Sigurðsson
Ari VE 235 á siglingu. – Mynd: Tryggvi Sigurðsson

Daginn eftir var stillt veður, og var þá almennt róið. Einn bátur lagði línu sína suður af Bjarnarey og er hann fór að draga kom upp lína frá Ara. Alls komu upp 14 bjóð en meiru var ekki hægt að ná af línunni, því aftur var komið vonzkuveður. Þarna hefur þá meiripartur af línunni legið, svo Ari hefur lítið verið búinn að draga, þegar slysið varð.
Ýmsar getgátur urðu um afdrif Ara. Sumir héldu, að hann hefði farizt í línudrættinum, en aðrir á heimleið, og er hvort tveggja ágizkun. 

Ari VE 235 var smíðaður í Friðrikssundi í Danmörku árið 1921, hann var mældur 13,25 tonn og búinn 30 hestafla Alfa vél. Það voru margir bátar smíðaðir þar fyrir Vestmannaeyinga sem voru eins og Ari, og voru taldir góðir bátar í sjó að leggja.

Eftirfarandi upplýsingar koma frá Sigmari Þór Sveinbjörnssyni, en hann er barnabarn Matthíasar Gíslasonar, formanns Ara VE 235.

Við minningarathöfn sem haldin var vegna Ara slyssins var eftirfarandi minningarljóð mjög líklega flutt, frá vandamönnum og vinum, en gamalt bréf hefur geymst sem innihélt þetta ljóð. Minningarljóðið er að öllum líkindum eftir Unu Jónsdóttur skáldkonu frá Sólbrekku, en undirskriftin er upphafstafirnir U.J.D.

Nú sælir vinir blunda hafs í bárum,
en blessuð lifir minning þeirra kær.
þó öll við berum sorg með trega tárum,
því takmörk setur drottins náðin skær.

En konur mæður börn og systkin blíða,
og bljúga kveðju senda af einum hug.
Og vona um eilífð sæla anda svífa,
um sólarlönd við dýrðlegan fögnuð.

Þau öll nú þakka ást og tryggðir veittar,
og allt það sem þeim létu falla í skaut,
því öll þau vona, óska, biðja og treysta,
þið öðlist sælu lífs á helgri braut.

Og liðnir vinir líta á ástmenn sína,
og ljúfar kveðjur einnig senda heim.
Þeir óska að huggun skært þeim megi skína
og skuggi sorgar hverfi burt frá þeim.

U.J.D.

Undirskrift þessa bréfs er “Frá vandamönnum og vinum”.

Árið 2015 stóð Ólafur Hermannsson fyrir því að sett var upp minningarplata um áhöfn Ara á minningarstein við Landakirkju. Þar kemur fram nafn og fæðingardagur þeirra sem fórust.

Minningarsteinn við Landakirkju.
Minningarsteinn við Landakirkju.
Minningarplata um áhöfn Ara.
Minningarplata um áhöfn Ara.

Á Ara var fimm manna áhöfn og fórust þeir allir.


Matthías Gíslason, 36 ára, formaður til heimilis að Byggðarenda í Vestmannaeyjum.

Matthías fæddist þann 14. júní 1893 í Vatnsholti í Villingaholtshr., Árn. Foreldrar hans voru Gísli Karelsson (1868-1908) og Jónína Margrét Þórðardóttir (1870-1951), en Gísli faðir hans drukknaði á Stokkseyrarsundi ásamt sjö öðrum þegar Matthías var 14 ára. Matthías byrjaði 15 ára gamall sjómennsku en fór til Vestmannaeyja árið 1915. Formennsku byrjaði hann 1919 á Heklu. Síðar var Matthías formaður á fleiri bátum, Unni ÁR, 1920, Kristbjörgu I 1926-1928 og Enok 1929. Árið 1930 var hann formaður á Ara og á honum fórst hann. Matthías kvæntist Þórunni Júlíu Sveinsdóttur þann 10. maí 1917 og eignuðust þau fjóra syni saman:

Matthías hvílir í votri gröf.


Páll Gunnlaugsson, 34 ára, sjómaður til heimilis að Ráðagerði í Vestmannaeyjum.

Páll fæddist þann 11. júní 1895 að Uppsalakoti í Svarfaðardalshr., Eyj. Foreldrar hans voru Gunnlaugur Pálsson (1867-1914) og Una Guðríður Rósamunda Jóhannesdóttir (1869-1939). Páll var með foreldrum sínum í Svarfaðardal fram eftir árum en 1914 fór fjölskyldan til Fáskrúðsfjarðar og þar var Páll sjómaður í mörg ár. 1918 fór Páll fyrst til Vestmannaeyja og stundaði þar sjómennsku á ýmsum bátum, lengi á Úndínu með Þórarni Guðmundssyni á Jaðri. 1926 byrjaði Páll formennsku á mb. Elliða og síðar á Gústaf. 1930 er Páll ráðinn formaður á Gullfoss og er hann þá í stórviðgerð, sem var að verða lokið. Þannig að Páll réði sig á mb. Ara til Matthíasar Gíslasonar nokkra róðra þar til Gullfoss var tilbúinn. En 24. janúar 1930 fórst Ari með allri áhöfn, þar á meðal Páli. Páll var hreystimaður og dugnaðarsjómaður.

Páll kvæntist Ingveldi Pálsdóttur (1900-1958) og áttu þau tvö börn saman:

Páll hvílir í votri gröf.


Baldvin Ingiberg Kristinsson, 23 ára, sjómaður til heimilis á Siglufirði.

Baldvin fæddist þann 5. september 1906 að Mýrakoti, Hofshr., Skag. Foreldrar hans voru Kristinn Rögnvaldur Egilsson (1881-1933) og Kristín Rut Jóhannsdóttir (1878-1951). Baldvin stundaði sjómennsku frá fermingu og tók vélstjórapróf 1924-25. Var vélstjóri á ýmsum bátum, dugnaðarmaður. Þetta var fyrsta vertíð hans í Vestmannaeyjum.

Baldvin var ókvæntur og barnlaus.

Baldvin hvílir í votri gröf.


Eiríkur Auðunsson, 21 árs, sjómaður frá Svínhaga í Rangárvallahr., Rang.

Eiríkur fæddist þann 19. júlí 1908 að Svínhaga. Foreldrar hans voru hjónin Auðunn Jónsson (1863-1923) og Jóhanna Katrín Helgadóttir (1874-1956).

Eiríkur var ókvæntur og barnlaus.

Eiríkur hvílir í votri gröf.


Hans Andreasen, 25 ára, sjómaður frá Færeyjum.

Hans fæddist þann 19. janúar 1905 í Haldersvig í Færeyjum. Foreldrar hans voru Andreas Andreasen og Davine Birgithe Christine Guttesen. Hans var ókvæntur og barnlaus.

Hans hvílir í votri gröf.


Heimildir:
MBL 26.01.1930, s. 3
Sjómannablaðið Víkingur 01.08.1968, s. 250, 258
Tryggvi Sigurðsson
https://heimaslod.is/index.php/Sjómannadagsblað_Vestmannaeyja_1971/_Þegar_Ari_VE_235_fórst_24._janúar_1930

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top