Svanborg SH 404 – 2001

Svanborg SH 404 var 15,6 metrar langur stálbátur, 5 metrar að breidd og mældist 29,9 brúttólestir. Í bátnum var 474 hestafla Caterpillar aðalvél og tvær 18kW ljósavélar af gerðinni Perkins.

Svanborg SH 404 - Mynd: Fiskifréttir 04.06.1999, s. 5
Svanborg SH 404 – Mynd: Fiskifréttir 04.06.1999, s. 5

Svanborg SH fór á sjó milli kl. 08:30–09:00 að morgni föstudagsins 7. desember 2001. Milli kl. 17:00 og 18:00 var skipið á heimleið og grunnt vestur af Snæfellsnesi, á Sandabrún. Versnaði veður þá skyndilega og varð mjög slæmt á skömmum tíma, suð-suðvestan 20 til 25 metrar á sekúndu, slydduél og lítið skyggni. Sjór var fljótur að rífa sig upp, en vestlæg alda hafði verið fyrr um daginn. Skyndilega reið brot yfir bátinn og hann hallaðist í 10-15°. Í sama mund upplýsti skipstjóri að aðalvél hefði stöðvast og fór hann niður í vélarrúm til að freista þess að gangsetja hana. Það virtist takast, en þó aðeins í 1-2 mínútur en svo ekki meir þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Neyðarkall barst frá bátnum kl. 17:47 um að hann ætti í vandræðum vegna bilunar í vél og ræki upp undir kletta á Öndverðarnesi, vestast á Snæfellsnesi. Nærstödd skip reyndu þegar í stað að nálgast bátinn, en urðu frá að hverfa vegna veðurs og hversu nálægt ströndinni báturinn var.

Svanborgu rak upp í klettana um kl. 18:17 við Svörtuloft og skorðaðist þar í fyrstu. Komust þrír skipverjar upp á stýrishús en einn hafði tekið útbyrðis skömmu áður. Þegar báturinn hafði skorðast fóru tveir skipverjar niður á þilfar og freistuðu þess að ná taki á klettinum sem skipið hafði skorðast undir en án árangurs. Mikið ólag varð til þess að þeim skolaði fyrir borð.

Björgunarsveitir af öllu Snæfellsnesi voru kallaðar út og sjúkrabílar og læknar sendir á vettvang. Erfitt var að komast á slysstað og þurftu björgunarsveitarmenn að fara fótgangandi síðustu tvo kílómetrana fram á bjargbrúnina en komust ekki niður að bátnum. TF-SIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var komin til leitar og björgunaraðgerða upp úr 21 og einnig tvær þyrlur frá varnarliðinu. Einum manni var bjargað um borð í þyrlu varnarliðsins um kl. 21:30, en þá tókst að hífa manninn upp úr bátnum. Honum hafði tekist að halda sér á stýrishúsinu í foráttubrimi á meðan Svanborg slóst til í stórgrýtinu.

Allt að 100 björgunarsveitarmenn af Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu leituðu á landi, auk björgunarskipsins Bjargar. Leitarsvæðið náði frá Arnarstapa inn fyrir Ólafsvík.Allir bátar frá Rifi og Ólafsvík tóku þátt í leitinni en rok og rigning gerði leitarmönnum erfitt fyrir.
Einn maður fannst látinn á laugardeginum en tveir fundust aldrei.

Þeir sem fórust voru:

Sæbjörn Vignir Ásgeirsson, 40 ára, skipstjóri til heimilis að Ennisbraut 21 í Ólafsvík.

Sæbjörn fæddist þann 6. september 1961 á Norðfirði. Foreldrar hans voru Ásgeir Methúsalemsson (1941) og Dorothy Senior (1942-2020). Eftir skyldunám fór Sæbjörn til sjós, fyrst á Snæfuglinum frá Reyðarfirði, síðar á bátum sem gerðu út frá Þorlákshöfn. Auk sjómennskunnar stundaði Sæbjörn tímabundið önnur störf, mest við járnsmíðar. Árið 1981 fór Sæbjörn til Ólafsvíkur til ýmissa starfa, til sjós og lands. Haustið 1983 hóf Sæbjörn útgerð með tengdaföður sínum, Erlingi Helgasyni skipstjóra, með kaupum á bát, sem þeir gáfu nafnið Friðrik Bergmann. Útgerð Sæbjarnar og Erlings dafnaði eftir því sem árin liðu og næstu 15 árin stækkuðu þeir í tvígang við sig í skipakosti. Á þeim tíma aflaði Sæbjörn sér einnig vélstjórnarréttinda og réttinda til stjórnunar skipa allt að 30 rúmlestum. Árið 1998 réðust þeir Sæbjörn og Erlingur í að láta smíða tvo stálbáta og skiptu útgerðinni. Bátur Sæbjörns var Svanborg SH 404. Sæbjörn var virkur í félagsmálum, hann var söngelskur og hagmæltur og lagði gjarnan til skemmtiefni fyrir hvers kyns mannfagnaði í sinni heimabyggð. Sæbjörn var lífsglaður maður og vinmargur.

Með Ölmu Haraldsdóttur (1962) eignaðist Sæbjörn son:

  • Hermann Þór Sæbjörnsson (1980).

Sæbjörn kvæntist Soffíu Eðvarðsdóttur (1964) þann 31. desember 1985 og eignuðust þau þrjú börn saman:

  • Selma Sæbjörnsdóttir (1985).
  • Sandra Sæbjörnsdóttir (1988).
  • Erlingur Sveinn Sæbjörnsson (1994).

Sæbjörn hvílir í Ólafsvíkurkirkjugarði.


Vigfús Elvan Friðriksson, 48 ára, stýrimaður til heimilis að Brúarholti 5 í Ólafsvík.

Vigfús fæddist þann 5. október 1953 á Skagaströnd. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Sigurður Elvan Sigurðsson (1924-1969) og Björg Jóhanna Ólafsdóttir (1924-2007). Vigfús kom til Ólafsvíkur frá Skagaströnd árið 1971 og stundaði þaðan sjómennsku mestan hluta ævinnar. Var hann búinn að stunda sjóinn í yfir 30 ár þegar hann fórst. Hann var ekki búinn að vera á mörgum bátum um ævina því skipstjórar sem hann var hjá vildu ekki sleppa honum. Svo vel vann hann störf sín um borð og oftast sem stýrimaður. Frá maí á árinu 1999 hafði Vigfús verið stýrimaður á Svanborginni.

Með átti Eddu Úlfljótsdóttur (1956) átti Vigfús einn son:

  • Friðrik Heiðar Vigfússon (1972).

Vigfús var kvæntur Hrönn Héðinsdóttur (1950) og áttu þau þrjú börn saman:

  • Sæbjörn Elvan Vigfússon (1979).
  • Vigfús Elvan Vigfússon (1981).
  • Hafrún Elvan Vigfúsdóttir (1982).

Jafnframt gekk Vigfús Elvan drengjum Hrannar frá fyrra hjónabandi í föðurstað:

Vigfús Elvan hvílir í votri gröf, en í Ólafsvíkurkirkjugarði er kross til minningar um hann.


Héðinn Magnússon, 31 árs, til heimilis að Vallholti 7 í Ólafsvík.

Héðinn fæddist þann 9. maí 1970 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Magnús Friðrik Óskarsson (1948-1990) og Hrönn Héðinsdóttir (1950), eiginkona Vigfúsar Elvan sem einnig fórst með Svanborgu. Héðinn bjó í Reykjavík fram á unglingsár en flutti þá til Ólafsvíkur. Hann stundaði sjómennsku frá Ólafsvík lengst af.

Héðinn var kvæntur Jóhönnu Ósk Jóhannsdóttur (1975) og áttu þau tvær dætur:

  • Krista Hrönn Héðinsdóttir (1997).
  • Alma Ósk Héðinsdóttir (2001).

Héðinn hvílir í votri gröf, en í Ólafsvíkurkirkjugarði er kross til minningar um hann.


Heimildir:
Dagblaðið Vísir – DV 08.12.2001, s. 72
MBL 08.12.2001, s. 1
MBL 16.03.2002
https://www.rnsa.is/media/2350/107-01-svanborg-sh-404.pdf
Ægir 01.06.1999, s. 46-47

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top