Helgi VE 333 var, á sínum tíma, stærsta mótor-fiskiskipið sem smíðað hafði verið á Íslandi, 119 rúmlestir að stærð, og var það í eign Helga Benediktssonar kaupmanns í Vestmannaeyjum og konu hans Guðrúnar Stefánsdóttur. Skipasmiðurinn var Gunnar Marel Jónsson og var skipið smíðað úr eik, í Vestmannaeyjum á árunum 1937-1939, en þá var því hleypt af stokkunum. Helgi kostaði alls um 150.000 kr, fullbúinn á síldveiðar með nótum og bátum. Var Helgi með vönduðustu vélbátum íslenska flotans og talið afburða gott sjóskip af öllum sem til þekktu.
Helgi sigldi öll stríðsárin, og þegar hann fórst hafði hann náð að sigla um 200 ferðir milli Bretlands og Íslands. Hlaut Hallgrímur Júlíusson skipstjóri og áhöfn hans opinbera viðurkenningu frá borgarstjóranum í Fleetwood árið 1946 en þá hafði Helgi náð að fara 120 ferðir yfir hafið milli Íslands og Bretlands, og siglt um 150.000 mílur. Með viðurkenningunni var áhöfn Helga þakkað fyrir þá atorku, það þrek og hugrekki sem þeir höfðu sýnt og sannað í millilandasiglingum á stríðsárunum, og að hafa þannig átt þátt í því að forða breskum þegnum frá hungri.
Eftir að stríðinu lauk var hann í siglingum á hverri vertíð; á síldveiðum á sumrin og flutningum á haustin. Flutti hann mikið af afurðum á erlendan markað og varning heim.
Helgi lagði af stað frá Reykjavík áleiðis til Vestmannaeyja á sjöunda tímanum föstudagskvöldið 6. janúar 1950. Fyrir hádegi þann 7. janúar, var Helgi, ásamt fleiri skipum, undir Eiðinu, en létti akkerum um klukkan tvö og ætlaði austur fyrir inn á Vestmannaeyjahöfn. Hvassviðri var mikið af norðaustri þessa helgi og hafði verið svo undanfarna daga í Eyjum. Þó hefði átt að vera fært vegna veðurs ef ekkert óhapp hefði viljað til. Skipstjórinn, Hallgrímur Júlíusson, var mjög kunnugur á þessum slóðum, enda þaulreyndur og orðlagður skipstjóri.
Ekki er vitað fyrr en sést til skipsins koma austur fyrir Faxasund. Var Helgi kominn framhjá svonefndu Faxaskeri sem er rétt við hafnarmynnið í Vestmannaeyjum, og á leið til hafnar, þegar að ólag skall yfir skipið og færði það í kaf svo ekki sá nema á siglutoppa þess og stýrishús að sögn sjónarvotta. Við ólagið mun hafa komist sjór í skipið og vél þess stöðvaðist, og skipiði hrakti á örfáum mínútum að Skelli sem er skammt austan Faxaskers. Skipverjum tókst að koma vélinni í gang og Helgi byrjaði að vinda sig gegn veðrinu, en svo stöðvaðist vélin aftur og skipti þá engum togum að skipið lenti á Skelli þar sem það brotnaði í spón á örfáum mínútum.
Þennan dag voru tíu manns um borð á Helga, sjö manna áhöfn og þrír farþegar sem höfðu verið með bátnum. Tveir skipverjar, þeir Gísli Jónasson stýrimaður og Óskar Magnússon háseti, náðu að komast upp í Faxasker, að því er virtist með því að stökkva af bátnum um leið og hann bar að skerinu, en að því er ákaflega aðdjúpt og brimið við skerið svo mikið að ólíklegt er að þeir hafi bjargast upp á það á sundi. Vegna sjógangs og veðurofsa tókst ekki að komast til þeirra fyrr en á mánudeginum, en þá voru liðnar um fjörutíu klukkustundir frá því Helgi fórst og voru þeir þá báðir látnir.
Hvorki fundust lík annarra skipverja né brak úr skipinu við Vestmannaeyjar, en mikið rak úr Helga við Rauðasand hálfum mánuði eftir strandið, þar á meðal björgunarbátur, hurðir og skipssúð.
Helgi fékkst ekki tryggður hjá Bátaábyrgðafélagi Vestmannaeyja þar sem félagið ábyrgðist ekki stærri báta en 100 smálestir. Þegar siglingar hófust með ísfisk til Bretlands árið 1940 myndaði Helgi Benediktsson sérstakan tryggingasjóð um Helga og Skaftfelling. Þann sjóð gerðu stjórnvöld upptækan í desember 1949 og brá því Helgi á það ráð að tryggja skipin hjá Samvinnutryggingum. Skyldi sú trygging taka gildi þann 9. janúar árið 1950. Helgi fórst, eins og áður er nefnt, hinn 7. janúar.
Þeir sem fórust voru:
Hallgrímur Júlíusson, 43 ára, skipstjóri til heimilis í Vestmannaeyjum.
Hallgrímur fæddist þann 3. júlí 1906 að Hóli í Bolungarvík. Foreldrar hans voru Júlíus Jón Hjaltason (1877-1931) og Guðrún Sigríður Guðmundsdóttir (1879-1936). Hallgrímur réri með föður sínum sem drengur og var formaður á róðrabát 12 ára gamall um sumar. Eftir fermingu stundaði hann sjó á mótorbátum frá Bolungarvík og Súgandafirði. Síðar var hann á línuveiðurum, þar til hann réðst á togara frá Reykjavík 1928. Lengst af á Baldri.
Hallgrímur lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1932. Árið 1940 fluttist hann til Vestmannaeyja og réðist stýrimaður á Helga og síðar skipstjóri á sama skipi, það var 1941. Árið 1946, að styrjaldarlokum, veitti borgarstjórinn í Fleetwood honum og skipshöfn hans sérstakar heiðursmóttökur, til að þakka þá atorku, þrek og hugrekki, sem skipverjar á Helga höfðu sýnt í millilandasiglingum á styrjaldarárunum. Hafði Helgi þá farið 120 ferðir yfir hafið milli Íslands og Bretlands og siglt um 150 þúsund sjómílur til að færa Bretum björg í bú. Um áramótin 1950 hafði skipið farið samtals um 200 ferðir milli þessara landa. Hallgrímur stundaði síldveiðar á Helga með herpinót á sumrum og var síðar í vöruflutningum milli Eyja og Reykjavíkur um árabil.
Hallgrímur var kvæntur Klöru Tryggvadóttur (1906-1997) og áttu þau tvo syni saman. Klara átti þrjú börn fyrir:
- Tryggvi Ágúst Sigurðsson (1931-2023).
- Arndís Birna Sigurðardóttir (1932-2018).
- Garðar Sigurðsson (1933-2004).
- Óskar Hallgrímsson (1942-2021).
- Hallgrímur Hallgrímsson (1944).
Hallgrímur hvílir í votri gröf.
Gísli Þorlákur Jónasson, 32 ára, stýrimaður til heimilis á Siglufirði.
Gísli fæddist þann 25. sept. 1917 að Nefstöðum í Holtshr., Skag. Foreldrar hans voru Jónas Jónasson (1892-1962) og Jóhanna Jónsdóttir (1889-1942). Foreldrar Gísla brugðu búi er hann var enn barn að aldri og fluttu til Siglufjarðar, en Gísli ólst að nokkru upp í sveit fram um fermingaraldur, var þó öðrum þræði í foreldrahúsum. Ungur að aldri fór hann í héraðsskólann í Reykholti og var þar tvo vetur við nám.
Sjórinn heillaði Gísla, eins og marga vaska og tápmikla sveina þessa lands, fyrr og síðar. Ungur steig hann á skipsfjöl og á sjónum var ævistarfið unnið. Hann lauk skipstjórnarprófi 1945 og varð þá þegar stýrimaður og æ síðan, nema eitt sumar, er hann hafði skipstjórn á hendi. Var hann ávallt stýrimaður hjá sama skipstjóranum, Arnþóri Jóhannssyni, hinum þjóðkunna aflamanni.
Sýnir það glöggt hvert álit Arnþór hafði á hinum unga manni, að hann réði hann stýrimann á skip sitt sama vorið og hann lauk prófi, og beið með skip sitt aðgerðarlaust í höfn dögum saman, uns Gísli hafði lokið prófinu og komist norður til Siglufjarðar.
Gísli hafði verið stýrimaður á vélskipinu Helga Helgasyni frá Vestmannaeyjum, en hafði um stundarsakir og til bráðabirgða verið stýrimaður á Helga VE 333. Mun þetta hafa átt að vera síðasta ferð hans með því skipi. Eins og minnst er á að ofan, náði Gísli að komast upp í Faxasker, en vegna sjógangs og veðurofsa tókst ekki ná til hans meðan hann var á lífi.
Gísli var ókvæntur en átti son með Þuríði Guðmundsdóttur (1922-2012), sem fæddist eftir að Gísli fórst:
- Gísli Jónasson Gíslason (1950).
Gísli hvílir í Siglufjarðarkirkjugarði eldri.
Jón Bjarni Valdimarsson, 34 ára, 1. vélstjóri til heimilis í Vestmannaeyjum.
Jón Bjarni fæddist þann 25. sept. 1915 á Neskaupstað. Foreldrar hans voru Valdimar Árnason (1885-1965) og Halldóra Ólafsdóttir (1888-1883). Jón kom til Vestmannaeyja með foreldrum sínum er hann var barnungur. Hann var rólyndur maður og ekki gjarn á að hreykja sér. Hann var framúrskarandi reglusamur maður og svo traustur og áreiðanlegur að slíks munu fá dæmi. Hafði hann verið vélstjóri á Helga árum saman.
Jón Bjarni var kvæntur Guðrúnu Guðmundsdóttur (1906-1977) og áttu þau einn son saman:
- Guðmundur Jónsson (1948).
Jón Bjarni hafði áður eignast son með Guðrúnu Þorgrímsdóttur (1916-2007):
- Kristinn Heiðar Jónsson (1944).
Jón Bjarni hvílir í votri gröf.
Gústaf Adólf Runólfsson, 27 ára, 2. vélstjóri til heimilis í Vestmannaeyjum.
Gústaf fæddist þann 26. maí 1922 á Seyðisfirði. Gústaf fluttist til Vestmannaeyja barn að aldri, en faðir hans var formaður þar um langa hríð. Gústaf stundaði almenna vinnu í Eyjum, var verkamaður og sjómaður, einnig bílstjóri um skeið og svo vélstjóri, bæði á sjó og í landi. Var hann góður vélstjóri.
Gústaf var kvæntur Huldu Hallgrímsdóttur (1919-1988) og áttu þau fjögur börn saman:
- Hrefna Gústafsdóttir (1942-1971).
- Linda Gústafsdóttir (1943).
- Friðrikka Ingibjörg Gústafsdóttir (1946).
- María Gústafsdóttir (1948).
Gústaf hvílir í votri gröf.
Hálfdan Brynjar Brynjólfsson, 23 ára, matsveinn til heimilis í Vestmannaeyjum.
Hálfdan Brynjar fæddist þann 25. des. 1926 á Eskifirði. Hann flutti með foreldrum sínum frá Eskifirði til Vestmannaeyja árið 1933.
Hálfdan Brynjar kvæntist Önnu Sigríði Þorsteinsdóttur (1927-2007) á gamlársdag 1949, þ.e.a.s. viku áður en hann fórst með Helga. Þau áttu engin börn saman.
Hálfdan Brynjar hvílir í votri gröf.
Sigurður Ágúst Gíslason, 26 ára, háseti til heimilis í Vestmannaeyjum.
Sigurður Ágúst fæddist þann 1. ágúst 1923 að Tjörnum undir Eyjafjöllum, Vestur-Eyjafjallahr., Rang. Foreldrar hans voru Gísli Þórðarson (1877-1943) og Anna Jónsdóttir (1883-1962). Sigurður Ágúst var ókvæntur og barnlaus.
Sigurður Ágúst hvílir í votri gröf.
Óskar Magnússon, 22 ára, háseti til heimilis í Vestmannaeyjum.
Óskar fæddist þann 15. ágúst 1927 í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Magnús Þórðarson Thorlacius (1876-1956) og Gíslína Jónsdóttir (1888-1984). Óskar var hjá foreldrum sínum alla ævi. Hann stundaði snemma sjómennsku, bæði á veiðibátum og á flutningaskipi.
Óskar var ókvæntur og barnlaus.
Óskari tókst að komast upp í Faxasker, ásamt Gísla, en vegna sjógangs og veðurofsa tókst ekki ná til hans meðan hann var á lífi.
Óskar hvílir í Vestmannaeyjarkirkjugarði hjá foreldrum sínum.
Arnþór Jóhannsson, 42 ára, skipstjóri á Helga Helgasyni til heimilis á Siglufirði.
Arnþór fæddist þann 12. mars 1907 að Selá, Árskógshr., Eyjafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru Jóhann Gunnlaugur Sigurðsson (1874-1944) og Björg Arngrímsdóttir (1881-1956). Arnþór ólst upp hjá foreldrum sínum að Selá. Strax og kraftar leyfðu fór hann að sækja sjóinn, bæði á vélbátum og togurum. Árið 1928 byrjaði hann formennsku á m.b. Einari frá Akureyri. Þegar í byrjun reyndist hann með afbrigðum aflasæll. 1931 byrjaði hann skipsstjórn á síldveiðiskipi með herpinót og síðar var allri þjóðinni kunn aflasæld hans. Arnþór og m.s. Dagný verða lengi í huga og á vörum þess fólks, sem ann síldveiðum og sjómennsku.
Frá því hið glæsilega skip ,,Helgi Helgason“ var fullbyggt var hann skipstjóri þar og var, þegar hann lést, á leið til skips. Arnþór tók fiskimannapróf við Stýrimannaskóla Íslands 1942. Hann átti í útgerð, bæði mótorbáts og síldveiðiskips, og þekkti því vel inn á útgerðarsögu þjóðarinnar af eigin reynd.
Arnþór var kvæntur Geirfríði Jóelsdóttur (1905-1990) og áttu þau þrjú börn saman:
- Björg Arnþórsdóttir (1932-2015).
- Hörður Arnþórsson (1939).
- Örn Arnþórsson (1945).
Arnþór hvílir í votri gröf.
Séra Halldór Einar Johnson, 65 ára, til heimilis í Vestmannaeyjum.
Halldór Einar fæddist þann 27. sept. 1884 að Sólheimum í Blönduhlíð, Akrahr., Skag. Foreldrar hans voru Jón Jónsson (1860-1901) og Ingunn Björnsdóttir (1857-?). Halldór fluttist næturgamall til ömmu sinnar og manns hennar. Þar dvaldi hann til 12 ára aldurs, en þá fór hann í dvöl sem smali. Brátt komst hann í vinnumanna tölu og eignaðist nokkrar skepnur sem hann seldi þegar hann var 18 ara. Þá innritaðist hann í gagnfræðaskólann á Akureyri þar sem hann var 2 ár. Árið 1907 fluttist hann til Ameríku og dvaldi í Dakota til 1917. Á þeim tíma útskrifaðist hann sem B.Sc. árið 1914. Árið 1917 lauk hann guðfræðinámi og vígðist þá prestur til Leslie, Sask. þar sem hann starfaði í 4 ár. Árið 1923 fékk hann köllun frá Blaine og Point Roberts-söfnuðum vestur við Kyrrahaf og fluttist þangað sama ár. Var hann allengi prestur hjá Sameinaða íslenzka kirkjufélaginu. Halldór kom til Íslands sumarið áður en Helgi fórst, eftir 40 ára dvöl í Vesturheimi og var kennari í Vestmannaeyjum þennan vetur.
Halldór var þrígiftur og lét eftir sig eiginkonu og stjúpdóttur í Vesturheimi.
Halldór hvílir í votri gröf.
Þórður Bernharðsson, 16 ára, til heimilis á Ólafsfirði.
Þórður fæddist þann 11. maí 1933 á Ólafsfirði. Foreldrar hans voru Bernharð Ólafsson (1906-1990) og Sigríður Ólöf Guðmundsdóttir (1908-1964) og var hann elstur fimm barna þeirra. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum og byrjaði snemma að hjálpa þeim að sjá heimilinu farborða. Faðir hans var sjómaður og Þórður heitinn hvarf strax um fermingaraldur eða fyrr, inn á sömu brautir. Þótt hann væri aðeins sextán ára þegar hann féll frá, hafði hann verið þrjú sumur á síldveiðum – sumarið áður en hann dó, á vélskipinu Dagnýju. Í ársbyrjun 1950 kvöddu Þórður og systir hans, 15 ára gömul, foreldra sína og héldu með skipi suður á land til að vinna fyrir sér. Í Reykjavík skildu leiðir – systir hans Freyja, hélt suður með sjó, þar sem hún hafði vistast, en Þórður heitinn lagði af stað til Eyja. Þar var hann ráðinn í vinnu yfir vertíðina hjá Fiskvinnslustöðinni og ætlaði að dvelja hjá hálfsystur sinni, Aðalheiði Pétursdóttur og manni hennar, Sveini Hjörleifssyni í Skálholti. Sú för endaði fyrr og með öðrum hætti en nokkurn varði.
Þórður var ókvæntur og barnlaus.
Þórður hvílir í votri gröf.
Heimildir:
Borgfirðingabók 01.12.2006, s. 145
Eyjablaðið 21.01.1950, s. 4
Eyjafréttir 13.01.2000, s. 13.
Fálkinn 20.01.1950, s. 2
Framsóknarblaðið 20.01.1950, s. 1-4
https://arnthorhelgason.blog.is/
https://heimaslod.is/index.php/Helgi_VE-333
MBL 28.01.1950, s. 16
Sjómannablaðið Víkingur 01.03.1950, s. 36
Sjómannablaðið Víkingur 01.12.1966, s. 298, 290
Skutull 13.01.1950, s. 1
Tíminn 08.01.1950, s. 1
Tíminn 20.01.1959, s. 3
Tryggvi Sigurðsson
Víðir 14.01.1950, s. 4
Vísir 23.09.1939, s. 3
Ægir 01.01.1950, s. 6