Fieldmarshal Robertson H 104 var enskur togari, gerður út frá Hafnarfirði af útgerðarfélaginu Hellyer Brothers og var áhöfnin mestmegnis íslensk, 29 af 35. Hafði hann að öllu leyti hinn besta útbúnað og var hið traustasta skip.

Þann 7. febrúar 1925 var Fieldmarshal Robertson, ásamt mestum hluta íslenska togaraflotans, á veiðum á miðunum vestur á Hala. Aðfaranótt 8 febrúar árið 1925 skall á á þvílíkt ofviðri og stórhríð úr norðaustri, með mikilli ísingu. Það síðasta sem menn vissu af Fieldmarshal Robertson var að hann hafði verið á veiðum nærri öðrum togara, Leifi heppna, en skip þau sem voru næst þeim misstu brátt sjónar á þeim, enda var dimmviðrið afskaplegt. Veðrið hélst óbreytt í hálfan annan sólarhring, en þá tók heldur að slota. Talið er sennilegt að skipin hafi rekist á og sokkið undireins. Báðir togararnir höfðu loftskeytabúnað en aldrei heyrðust neyðarskeyti frá þeim.


Teikning af Fieldmarshal Robertson – Mynd: Sigurjón T. Jósefsson
Mestallur togaraflotinn og varðskipið Fylla, leituðu togaranna frá 12. til 22. febrúar og síðar Fylla og fjórir togarar frá 24. febrúar til 6. mars, en leitin bar engan árangur, þrátt fyrir að leitað væri um þvert og endilangt Grænlandshaf.
Þann 14. nóvember 1926 var afhjúpuð í Hafnarfjarðarkirkju, minningartafla um þá menn sem fórust með Fieldmarshal Robertson. Á töflunni eru letruð nöfn allra þeirra sem fórust, og efst á töflunni eru greyptir fánar Íslands og Bretlands. Var það The Hull Steam Trawlers Mutual Insurance and Protecting Company Ltd., félag útgerðarmanna botnvörpuskipa í Hull, sem sá um að minningartaflan yrði gerð og fékk svo leyfi sóknarnefndarinnar fyrir því að taflan yrði geymd í Hafnarfjarðarkirkju enda var Fieldmarshal Robertson gerður út frá Hafnarfirði.
Eins og áður er nefnt voru alls 35 menn í áhöfn Fieldmarshal Robertson. Sex þeirra voru Englendingar. Þeir voru:
Charles Henry Beard, skipstjóri.
Alfred Wright, Stýrimaður.
Fred Bartle, 1 vélstjóri.
William Lowey, 2 vélstjóri.
George S Jackson, kyndari.
John Murray, kyndari.
Íslendingarnir sem fórust voru eftirfarandi:

Einar Magnússon, 36 ára, skipstjóri til heimilis að Vesturgötu 57 í Reykjavík.
Einar fæddist þann 4. febrúar 1889 að Tungu í Örlygshöfn í Rauðasandshr., V-Barð. Foreldrar hans voru Magnús Einarsson (1868-1897) og Bergljót Gunnlaugsdóttir (1858-1911) hjón í Geitagili í Örlygshöfn. Þegar Einar var á fyrsta eða öðru ári fluttist hann með foreldrum sínum að Geitagili og ólst þar upp fram um fermingaraldur. Bjó Magnús faðir hans þar, þar til hann fórst með þilskipinu Viggu 1897. Þótt Einar væri fæddur og uppalinn í sveit og við búskap, þá byrjaði hann ungur að sækja sjóinn. Var það venja þar fyrir vestan, að þroskamiklir unglingar færu á róðrarbáta sem hálfdrættingar þegar þeir voru 12-13 ára, og svo mun hafa verið með Einar. Stundaði hann sjó á hverju sumri upp frá því, fyrst á árabátum og svo á þilskipum, og þótti það sæti jafnan vel skipað er hann fyllti.
Vorið 1914 útskrifaðist hann úr Stýrimannaskólanum í Reykjavík eftir tveggja vetra nám. Eftir það átti hann heimili í Reykjavík og var á skipum þaðan, fyrst á togurum Kveldúlfs, síðan um mörg ár stýrimaður á Muninn Kveldúlfs og togaranum Geir og síðast á Hellyers togaranum Fieldmarshal Robertson.
Einar kvæntist Ingibjörgu Franklín Gísladóttur (1893-1948) þann 14. júlí 1920. Þau eignuðust 4 börn (tvíburarnir fæddust 4 mánuðum eftir að Einar fórst):
- Magnús Einarsson (1921-1979).
- Gísli Einarsson (1923-2002).
- Einar Jósef Einarsson (1925-2000).
- Karen María Einarsdóttir (1925-2011).
Einar hvílir í votri gröf.

Björn Árnason, 31 árs, 1. stýrimaður, til heimilis að Laufásvegi 43 í Reykjavík.
Björn fæddist þann 11. mars 1893 í Víðinesi í Kjalarneshr.,Kjós. Foreldrar hans voru Árni Björnsson (1852-1909) og Sigríður Jónsdóttir (1855-1937) hjón í Víðinesi og Móum á Kjalarnesi.
Björn kvæntist Kristínu Jensdóttur árið 1920. Þau eignuðust 3 börn, síðasta barnið, stúlka, fæddist eftir að Björn fórst:
- Sigurður Jens Björnsson (1921-1923).
- Árni Björnsson (1923-2004).
- Birna Björnsdóttir Lövdal (1925-1980).
Björn hvílir í votri gröf.

Árni Sigurður Árnason, 26 ára, 2. stýrimaður frá Móum á Kjalarnesi, Kjalarneshr., Kjós.
Árni fæddist þann 14. maí 1898 í Víðinesi í Kjalarneshr.,Kjós. Foreldrar hans voru Árni Björnsson (1852-1909) og Sigríður Jónsdóttir (1855-1937) hjón í Víðinesi og Móum á Kjalarnesi. Árni var bróðir Björns 1. stýrimanns.
Árni var ekki kvæntur en eignaðist son með Sigurlilju Ástbjörgu Bjarnadóttur (1902-1989):
- Sigurður Pétur Árnason (1921-1948).
Árni hvílir í votri gröf.

Bjarni Árnason, 41 árs, háseti frá Grund í Kjalarneshr.,Kjós.
Bjarni fæddist þann 21. nóvember 1883 í Víðinesi í Kjalarneshr.,Kjós. Foreldrar hans voru Árni Björnsson (1852-1909) og Sigríður Jónsdóttir (1855-1937) hjón í Víðinesi og Móum á Kjalarnesi. Bjarni var bróðir Björns 1. stýrimanns og Árna 2. stýrimanns.
Bjarni kvæntist Helgu Finnsdóttur og áttu þau 9 börn saman:
- Ásta Friðmey Bjarnadóttir (1912-1913).
- Sigurður Árni Bjarnason (1913-1992).
- Guðríður Bjarnadóttir (1914-1914).
- Stefán Bjarnason (1915-1977).
- Margrét Fanney Bjarnadóttir (1917-1989).
- Sigríður Bjarnadóttir (1919-1998).
- Fjóla Bjarnadóttir (1921-2008).
- Ólafur Bjarnason (1923-2004).
- Ágúst Bjarnason (1924-2008).
Bjarni hvílir í votri gröf.

Magnús Jónsson, 21 árs, loftskeytamaður frá Flatey á Breiðafirði.
Magnús fæddist þann 16. ágúst 1903 í Flatey á Breiðafirði. Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson (1863-1944) og Júlíana Hansdóttir (1861-1922) hjón í Flatey. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Magnús hvílir í votri gröf.

Einar Helgason, 25 ára, matsveinn til heimilis að Geirseyri á Patreksfirði.
Einar fæddist þann 30. september 1899 í Skápadal í Rauðasandshr., V-Barð. Foreldrar hans voru Helgi Einarsson (1866-1942) og Þuríður Guðríður Magnúsdóttir (1867-1904) hjón í Skápadal.
Einar missti ungur móður sína, kom faðir hans honum þá í fóstur á Patreksfirði hjá konu er síðan gekk honum í móðurstað. Einar var grannlegur maður á vöxt, en manna mýkstur og snarastur og varð vart af fótum komið. Var hann um eitt skeið meðal fræknustu glímumanna í héraði sínu. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Einar hvílir í votri gröf.

Jóhannes Halldór Helgason, 24 ára, aðstoðarmatsveinn til heimilis í Hafnarfirði.
Jóhannes fæddist þann 22. nóvember 1900 að Eiríksstöðum í Ögurhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Helgi Benjamínsson (1866-1905) og Elín Magnúsdóttir (1862-1908). Hann var ókvæntur og barnlaus.
Jóhannes hvílir í votri gröf.

Bjarni Eiríksson, 28 ára, bátsmaður til heimilis að Sjónarhóli í Hafnarfirði.
Bjarni fæddist þann 23. september 1896 á Halldórsstöðum í Vatnsleysustrandarhr., Gull. Foreldrar hans voru Eiríkur Jónsson (1857-1922) og Sólveig Guðfinna Benjamínsdóttir (1867-1949) hjón á Sjónarhóli. Sólveig móðir Bjarna missti mann sinn og þrjá syni í hafið (Bjarna, Benjamín Franklín (1892-1910) og Jón Ágúst (1901-1922)).
Bjarni eignaðist tvíbura með Sigríði Jónsdóttur (1893-1944), þau giftust ekki:
- Sigurjón Bjarnason (1922-1995).
- Ragna Þyri Bjarnadóttir (1922-1983).
Bjarni kvæntist Laufeyju Guðmundsdóttur (1902-1980), 4. nóvember 1922. Þau eignuðust eina dóttur:
- Guðrún Bjarnadóttir (1923).
Bjarni hvílir í votri gröf.

Jóhann Óskar Bjarnason, 25 ára, háseti til heimilis að Óðinsgötu 17b í Reykjavík.
Jóhann fæddist þann 12. september 1899 í Bakkárholti í Ölfushr., Árn. Foreldrar hans voru Bjarni Hannesson (1852-1914) og Guðrún Eyvindsdóttir (1868-1955) hjón í Bakkárholti og síðar í Reykjavík. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Jóhann hvílir í votri gröf.

Gunnlaugur Magnússon, 33 ára, háseti til heimilis að Vesturgötu 57, Reykjavík.
Gunnlaugur fæddist þann 6. október 1896 að Geitagili í Örlygshöfn, Rauðasandshr., V-Barð. Foreldrar hans voru Magnús Einarsson (1868-1897) og Bergljót Gunnlaugsdóttir (1858-1911) hjón í Geitagili í Örlygshöfn. Gunnlaugur var bróðir Einars skipstjóra. Nokkur ár var hann búsettur á Patreksfirði með systkinum sínum og móður. Voru þau öll einkar samhent í því að ala önn fyrir móður sinni, er þjáð var af ólæknandi meini. Eftir lát móður sinnar fluttist hann til Reykjavíkur til bróður síns. Skildust þeir eigi upp frá því. Gunnlaugur var greindur maður og bókhneigður. Hann var ógiftur og barnlaus.
Gunnlaugur hvílir í votri gröf.

Anton Magnús Magnússon, 23 ára, háseti til heimilis að Vatneyri á Patreksfirði.
Anton fæddist þann 13. desember 1901 á Klapparstíg 2 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Guðmundsson (1870-1915) skósmiður og Margrét Antonsdóttir (1872-1904).
Anton eignaðist dóttur með Stefaníu Eiríksdóttur (1899-1930):
- Lára Antonsdóttir (1921-1987).
Anton hvílir í votri gröf.

Halldór Hallgrímur Guðjónsson, 28 ára, háseti til heimilis að Njálsgötu 36b í Reykjavík.
Halldór fæddist þann 30. apríl 1896 að Skálmardal í Múlahr., A-Barð. Foreldrar hans voru hjónin Guðjón Brynjólfsson (1861-1956) og Guðrún Jósefsdóttir (1855-1933). Halldór fluttist með foreldrum sínum í Rauðasandshrepp og ólst þar upp. Hann tók próf í siglingafræði á Patreksfirði og þótti góður sjóliði. Hlaut hann hvarvetna hinn besta orðstír, með því að ungur og fullorðinn var hann stillilegur í framgöngu, viðmótshýr og góðlátlegur. Hann var nýlega fluttur til Reykjavíkur og kvæntist Sigríði Magnúsdóttur frá Hnjóti í Örlygshöfn 2. desember 1922. Þeim fæddist dóttir eftir að Halldór fórst:
- Halldóra Halldórsdóttir (1925-2005).
Halldór hvílir í votri gröf.

Erlendur Oddur Jónsson, 33 ára, háseti til heimilis í Hafnarfirði.
Erlendur fæddist þann 28. júní 1891 í Ráðagerðiskoti á Álftanesi, Garðahr., Gull. Foreldrar hans voru Jón Erlendsson (1850-1929) og Guðrún Gunnarsdóttir (1860-1932) hjón í Hafnarfirði.
Erlendur kvæntist Þórunni Nikulínu Jóngerði Jónsdóttur (1889-1970) þann 13. nóvember 1915. Þau eignuðust 6 börn, það yngsta fæddist eftir að Erlendur fórst:
- Guðrún Ragnheiður Erlendsdóttir (1916-2006).
- Lúther Erlendsson (1917-1995).
- Svava Erlendsdóttir (1918-1986).
- Marinó Tryggvi Erlendsson (1920-1988).
- Unnur Erlendsdóttir (1922-2000).
- Erlenda Oddbjörg Þórunn Erlendsdóttir (1925-2007).
Erlendur hvílir í votri gröf.

Þórður Þórðarson, 51 árs, háseti til heimilis í Hafnarfirði.
Þórður fæddist þann 24. maí 1873 að Arnarnesi í Garðahr., Gull. Foreldrar hans voru Þórður Jónsson (1838-1873) og Herdís Guðmundsdóttir (1848-1933) hjón í Arnarnesi.
Þórður kvæntist Sigríði Grímsdóttur (1878-1949) þann 25. október 1903. Þau eignuðust 10 börn:
- Anna Sigríður Þórðardóttir (1904-1986).
- Helga Þórðardóttir (1905-1981).
- Herdís Margrét Þórðardóttir (1907-1987).
- Guðný Magna Þórðardóttir (1909-1983).
- Þórður Óskar Þórðarson (1910-1998).
- Aðalsteinn Valur Þórðarson (1913-1993).
- Kristín Sigríður Þórðardóttir Kimmel (1914-2011).
- Guðmundur Hafsteinn Þórðarson (1915-2002).
- Steingrímur Gunnar Þórðarson (1918-1928).
- Sigurbjörn Guðmundur Þórðarson (1919-1996).
Þórður hvílir í votri gröf.

Tómas Albertsson, 28 ára, háseti frá Teigi í Fljótshlíðarhr., Rang.
Tómas fæddist þann 24. ágúst 1896 í Akurey í Vestur-Landeyjahr., Rang. Foreldrar hans voru hjónin Albert Ágúst Eyvindsson (1865-1930) og Salvör Tómasdóttir (1870-1961).
Tómas kvæntist Þórunni Jensdóttur (1897-1975) þann 20. júlí 1924. Þau voru barnlaus.
Tómas hvílir í votri gröf.

Sigurjón Guðlaugsson, 25 ára, háseti til heimilis í Hafnarfirði.
Sigurjón fæddist þann 6. janúar 1900 að Nýjabæ í Flóa í Sandvíkurhr., Árn. Foreldrar hans voru Guðlaugur Jónsson (1871-1969) og Guðrún Jónsdóttir (1868-1938) hjón í Hafnarfirði. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Sigurjón hvílir í votri gröf.

Valdimar Kristjánsson, 31 árs, háseti til heimilis að Bræðraborgarstíg 24a í Reykjavík.
Valdimar fæddist þann 17. maí 1893 í Vesturbotni í Rauðasandshr., V-Barð. Foreldrar hans voru Kristján Björnsson (1853-1910) og Guðrún Bergljót Ólína Sigurðardóttir (1860-1957). Valdimar ólst upp við Patreksfjörð. Að heiman fór hann fullvaxta, er móðir hans sem þá var orðin ekkja fyrir nokkrum árum, brá búi. Gaf hann sig upp frá því mest við sjómennsku á þilskipum og togurum. Hann nam sjómannafræði í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1921 með hárri einkunn. Í siglingum hafði hann verið til ýmissa landa. En hvar sem hann fór, luku allir kunnugir sama lofsorði á ötulleik hans, áræði og snarræði í hverri raun. Valdimar var drengur góður og trygglyndur. Fáum árum fyrir andlát sitt flutti hann til Reykjavíkur og bjó þar með móður sinni og systur. Hann var ókvæntur og barnlaus, en til fósturs hafði hann tekið bróðurbarn sitt.
Valdimar hvílir í votri gröf.

Halldór Sigurðsson, 20 ára, háseti til heimilis að Akbraut á Akranesi.
Halldór fæddist þann 3. janúar 1905 á Akbraut. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Halldórsson (1866-1937) og Jónína Margrét Guðmundsdóttir (1866-1952). Þau hjónin eignuðust 6 börn en misstu tvo syni í sjóslysum. Guðmundur bróðir Halldórs fórst með Ólafi RE 7 árið 1938. Halldór var mikill íþróttamaður og var hann meðlimur í íþróttafélaginu Hörður Hólmverjar þar sem hann stundaði m.a. glímu, leikfimi, sund og knattspyrnu. Halldór var ókvæntur og barnlaus.
Halldór hvílir í votri gröf.

Ólafur Erlendsson, 27 ára, háseti til heimilis í Hafnarfirði.
Ólafur fæddist þann 25. mars 1897 að Arngeirsstöðum, Fljótshlíðarhr., Rang. Foreldrar hans voru hjónin Erlendur Jónsson (1865-1917) og Jóhanna Einarsdóttir (1879-1959) hjón að Arngeirsstöðum og á Giljum, Hvolhr., Rang. Ólafur var með foreldrum sínum, á Arngeirsstöðum og á Giljum. Faðir hans lést 1917 en Jóhanna móðir hans fluttist til Eyja nítjánhundruð og átján og fylgdi hann henni. Hann var með heimili á Vegbergi í Vestmannaeyjum, en kyndari á e.s. Austra frá Reykjavík 1920.
Ólafs er minnst á legstein foreldra hans í Stórólfshvolskirkjugarði. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Ólafur hvílir í votri gröf.


Bjarni Ólafur Indriðason, 27 ára, háseti frá Patreksfirði.
Bjarni Ólafur fæddist þann 26. október 1897 í Höfðadal, Tálknafjarðarhr., V-Barð. Foreldrar hans voru hjónin Indriði Guðmundsson (1864-1934) og Guðríður Karvelsdóttir (1872-1952). Bjarni Ólafur var frá blautu barnsbeini vanur sjóförum og hinn röskasti maður til allra verka, valinn drengur í hverri grein og einkar þokkasæll. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Bjarni Ólafur hvílir í votri gröf.

Árni Jónsson, 57 ára til heimilis að Þingholtsstræti 15 í Reykjavík.
Árni fæddist þann 4. ágúst 1867 á Höfðaströnd, Grunnavíkurhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Jón Jóakimsson (1838-1910) og Sigurfljóð Sakaríasdóttir (1838-1911) hjón þar. Árni hafði kynnst Einari Magnússyni skipstjóra á Ísafirði. Togaraplássin lágu ekki á lausu á þessum árum, en þar sem Einar vissi að Árni var harðduglegur sjómaður, sem kunni að verka fisk, talaðist svo til að Árni kæmi um borð Í Fieldmarshal Robertson og hefði m.a. yfirumsjón með söltun og frágangi afla.
Árni var kvæntur Þorbjörgu Magnúsdóttur (1870-1925), hún lést stuttu eftir að Árni fórst. Þau áttu þrjú börn saman:
- Geirþrúður Sara Árnadóttir (1900-1932).
- Ólafur Tryggvason Árnason (1902-1992).
- Ásta Árnadóttir (1911-2002).
Árni hvílir í votri gröf.

Jón Eiríkur Ólafsson, 26 ára, háseti til heimilis í Keflavík í Rauðasandshr., V-Barð.
Jón Eiríkur fæddist þann 6. febrúar 1899 í Hænuvík, Rauðasandshr., V-Barð. Foreldrar hans voru Ólafur Tómas Guðbjartsson (1861-1948) og Guðrún Haflína Jónsdóttir (1862-1935) hjón í Hænuvík. Jón Eiríkur var ókvæntur og barnlaus.
Jón Eiríkur hvílir í votri gröf.

Einar Hallgrímsson, 20 ára, háseti til heimilis í Hafnarfirði.
Einar fæddist þann 30. maí 1904 á Ísafirði. Foreldrar hans voru hjónin Hallgrímur Guðmundsson (1865-1909) og Eyrún Eiríksdóttir (1873-1949). Hann var ókvæntur og barnlaus.
Einar hvílir í votri gröf.

Jón Magnússon, 29 ára, háseti til heimilis að Grettisgötu 53a í Reykjavík.
Jón fæddist þann 11. júní 1895 á Hvaleyri í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Benjamínsson (1861-1935) og Guðbjörg Þorkelsdóttir í Hafnarfirði. Jón ólst upp hjá foreldrum sínum til 16 ára aldurs. 14 ára fór hann sem háseti á fiskipskip frá Hafnarfirði. Það kom brátt í ljós að Jón var gæddur þeim hæfileikum sem sjómönnum eru nauðsynlegir, sem er dugnaður, snarræði og hugrekki. 16 ára fór hann til Noregs og stundaði sjómennsku erlendis í 8 ár. M.a. var hann stýrimaður á norsku gufuskipi sem sigla átti milli Englands og Frakklands í fyrri heimsstyrjöldinni. Það skip var skotið niður í fyrstu eða annarri ferð og tókst áhöfninni að ná til Englands í björgunarbátum eftir langa og erfiða ferð. Hann fór til S-Georgíu í S-Atlantashafi og varð þar fyrst stýrimaður á hvalveiðiskipi og svo skipstjóri í nokkra mánuði. Vorið 1919 kom hann aftur til Íslands og vann þar sem stýrimaður á m.b. Kára. Um haustið fór hann til Englands á enskan togara, en í desember 1919 var hann fenginn til að sigla mb. Egill heim til Íslands. Var það mikil hættuför en allt gekk slysalaust. Næstu árin sigldi hann á íslenskum togurum og svo frá Noregi til Frakklands, Þýskalands og Rússlands. 1924 var hann aftur á íslenskum skipum, en í janúar 1925 skipti hann yfir til Fieldmarshal Robertson sem reyndist síðasta sjóferðin.
Jón kvæntist Margréti Jónu Jónsdóttur þann 12. mars 1920. Þau eignuðust 4 börn saman, það síðasta fæddist eftir að Jón fórst:
- Guðlaug Lára Jónsdóttir (1920-1982).
- Ólafur Jónsson (1921-2000).
- Jón Pétur Jónsson (1922-1992).
- Áslaug Jónsdóttir (1925-1960).
Jón hvílir í votri gröf.

Vigfús Elísson, 26 ára, háseti til heimilis í Hafnarfirði.
Vigfús fæddist þann 16. nóvember 1898 að Þjótanda í Villingaholtshr., Árn. Foreldrar hans voru hjónin Elís Guðmundur Árnason (1855-1931) og Vilborg Vigfúsdóttir (1864-1931).
Vigfús átti son með Guðrúnu Jónsdóttur (1895-1971):
- Dagbjartur Hafsteinn Vigfússon (1925-1931). Hann var 5 ára gamall þegar hann brann inni ásamt foreldrum Vigfúss, þegar hið svokallaða Siglfirðingahús í Hafnarfirði, brann til kaldra kola.
Vigfús hvílir í votri gröf.

Óli Ísfeld Sigurðsson, 25 ára, háseti frá Norðfirði.
Óli var fæddur þann 5. janúar 1900 að Stuðlum í Norðfjarðarhr., S-Múl. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Finnbogason (1855-1931) og Pálína Þorleifsdóttir )1864-1920. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Óli hvílir í votri gröf.

Egill Jónsson, 35 ára, háseti til heimilis í Hafnarfirði.
Egill var fæddur þann 20. september 1889 í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru hjónin Jón Sveinsson (1845-1912) og Helga Egilsdóttir (1853-1908).
Egill var kvæntur Þjóðbjörgu Þórðardóttur (1891-1984) og áttu þau sex börn saman:
- Helga Egilsdóttir (1916-2006).
- Stefán Egilsson (1918-2009).
- Aðalsteinn Egilsson (1919-1994).
- Jón Egilsson (1921-2008).
- Guðný Eyjólfína Egilsdóttir (1922-2007).
- Egill Egilsson (1925-2019).
Egill hvílir í votri gröf.

Óskar Valgeir Einarsson, 20 ára, háseti til heimilis að Vesturgötu 30 í Reykjavík í foreldrahúsum.
Óskar fæddist þann 29. júlí 1904 að Vesturgötu 30. Foreldrar hans voru hjónin Einar Jónsson (1863-1925) og Sigurjóna Jónsdóttir (1866-1938). Óskar var ókvæntur og barnlaus.
Óskar hvílir í votri gröf.

Kristján Karvel Friðriksson, 47 ára, háseti til heimilis að Litla-Seli í Reykjavík.
Karvel, eins og hann var kallaður, fæddist þann 14. maí 1877 í Litla-Laugardal, Tálknafjarðarhr., V-Barð. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Friðriksson (1843-1918) og Guðrún Jónsdóttir (1848-1919). Karvel var sjómaður á Patreksfirði en fluttist síðar til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni. Hann var kvæntur Guðbjörgu Kristjánsdóttur (1876-1969) og eignuðust þau fimm börn saman:
- Laufey Karvelsdóttir (1902-1903).
- Lúðvík Helgi Karvelsson (1904-1987).
- Valtýr Kristinn Karvelsson (1907-1978).
- Guðrún Anna Karvelsdóttir (1909-1997).
- Jóna Steinborg Karvelsdóttir Andersen (1916-1996).
Karvel hvílir í votri gröf.
Heimildir:
Byggðasafn Vestfjarða
Fiskifréttir, 08.06.2001, s. 49.
Inga Steinunn Ólafsdóttir
Íslendingur 20.03.1925, s. 1
Þórhallur Sófusson Gjörveraa
Ægir 01.03.1925, s. 53-54.
Ægir 01.06.1926, s. 105-107
Ægir 01.11.1926, s. 223
Kærar þakkir til allra sem sendu mér myndir og upplýsingar tengdar Fieldmarshal Robertson og þeim sem fórust með honum. Ef þú átt mynd af einhverjum sem mig vantar mynd af máttu mjög gjarnan senda mér hana svo ég geti bætt henni við hér.