1985 – Bervík SH 43

Bervík SH 43 var eikarbátur 36 brl. að stærð, byggður á Ísafirði árið 1954 og var í eigu skipstjórans, Úlfars Kristjónsson í Ólafsvík. Báturinn var á leið til heimahafnar í Ólafsvík þann 27. mars 1985 eftir að hafa verið á dragnótaveiðum fyrir sunnan Jökul. Hafði hann boðað komu sína til hafnar kl. 20:30 og menn á hafnarvigtinni á Rifi sáu bátinn sigla skammt undan landi um kl. 20

Bervík SH 43
Bervík SH 43

Um kl. 21 fannst mannlaus gúmmíbátur og brak skammt út af Rifi og eftir það hófst leitin. Í ljós kom að gúmmíbáturinn var bundinn fastur við skipsflak undir niðri. Verksummerki bentu til þess að enginn maður hefði farið í gúmmíbátinn þar sem rekakkeri var ósnert og þakið hafði ekki verið blásið upp. Talið er að sjálfvirkur sleppibúnaður hafi losað gúmmíbátinn eftir að Bervík fékk á sig brotsjó og sökk. Veður á svæðinu var slæmt, norðaustan 8-9 vindstig og þungur sjór og frost um 10 stig.

Gúmmíbáturinn sem fannst bundinn við flakið.
Gúmmíbáturinn sem fannst bundinn við flakið.

Umfangsmikil leit hófst þegar. Í henni tóku þátt flestir stærri bátar frá Rifi, Ólafsvík og Grundarfirði, samtals 15-20 bátar. Einnig gengu hátt í hundrað manns úr björgunarsveitum úr Ólafsvík, Hellissandi og Rifi fjörur frá Ólafsvíkurenni að Brimnesi, vestan Hellissands. Undir miðnætti fannst ýmislegt lauslegt úr Bervík rekið að syðri hafnargarðinum á Rifi.

Með Bervík fórust 5 manns:


Úlfar Kristjónsson, 43 ára, skipstjóri til heimilis að Sandholti 44 í Ólafsvík.

Úlfar fæddist þann 3. maí 1941 að Ytri-Bug í Fróðárhr., Snæf. Foreldrar hans voru Kristjón Jónsson (1894-1949) og Jóhanna Oktavía Kristjánsdóttir (1900-1985). Úlfar var lífsglaður, traustur og vinsæll meðal samtíðarmanna. Hann var með afbrigðum aflasæll, ekki síður en bræður hans. Var lífsganga hans til fyrirmyndar.

Úlfar var kvæntur Sæunni Öldu Jóhannesdóttur (1943) og áttu þau einn son saman.

Úlfar hvílir í Ólafsvíkurkirkjugarði.


Freyr Hafþór Guðmundsson, 32 ára, vélstjóri til heimilis að Hjallabrekku 7 í Ólafsvík.

Freyr Hafþór fæddist þann 31. júlí 1952 í Ólafsvík. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Sigurður Þórarinsson (1923-1989) og Magdalena Margrét Kristjánsdóttir (1928). Hann ólst upp í foreldrahúsum ásamt þremur systkinum sínum. Var hann góður verkmaður, laginn og fylginn sér til flestra starfa. Að loknu miðskólaprófi í Ólafsvík 1968, stundaði hann ýmis störf en fyrst og fremst við fiskverkun, þar til hann gerði sjómennsku að sínu lífsstarfi 1973. Hann fékk það orð að vera afburðagóður sjómaður og var hann eftirsóttur til starfa á sjó.

Freyr Hafþór var kvæntur Margréti Þóreyju Rögnvaldsdóttur og áttu þau tvö börn saman:

  • Ævar Rafn Hafþórsson (1973).
  • Harpa Dögg Hafþórsdóttir (1976).

Freyr Hafþór hvílir í Ólafsvíkurkirkjugarði.


Sveinn Hlynur Þórsson, 28 ára, stýrimaður til heimilis að Bæjartúni 13 í Ólafsvík.

Sveinn Hlynur fæddist þann 17. september 1956. Foreldrar hans voru Þór Þorvaldsson (1937-2001) og Guðbjörg Sveinsdóttir Bjarman (1936).

Sveinn kvæntist Dóru Kristínu Kristinsdóttur þann 19. október 1979. Hún átti eina dóttur. Sveinn átti eina dóttur:

  • Þórunn Elva Sveinsdóttir (1973).

Sveinn hvílir í Sauðárkrókskirkjugarði.


Steinn Jóhann Randversson, 48 ára, matsveinn til heimilis að Vallholti 11 í Ólafsvík.

Steinn Jóhann fæddist þann 8. ágúst 1936 í Ólafsvík. Foreldrar hans voru hjónin Randver Richter Kristjánsson (1908-1937) og Gyða Gunnarsdóttir (1913-1981). Steinn Jóhann byrjaði að stunda sjó aðeins 14 ára gamall, síðan nær óslitið til dauðadags. Hann var með traustustu sjómönnum, jafnvígur á öll störf en sérgrein hans var matreiðsla, var hann oftast matsveinn á fiskibátum. Þótti hann afbragð annarra í þessari grein, kunni að laga sig eftir aðstæðum, vinsæll meðal sjómanna. Hann var glaðlyndur og frjálslyndur í skoðunum, barðist ötullega fyrir réttindamálum verkamanna og sjómanna, sagði umbúðalaust skoðun sína á þeim málum. Hann var virkur í verkalýðsfélagi sínu og í Sjómannadagsráði Ólafsvíkur og átti traust og vináttu samferðamanna. Jóhann Steinn var mágur Úlfars skipstjóra.

Steinn Jóhann kvæntist Kristjönu Kristjónsdóttur þann 26. desember 1964. Eignuðust þau fjögur börn saman:

  • Guðlaug Jóhanna Steinsdóttir (1956).
  • Leidy Karen Steinsdóttir (1957).
  • Randver Agnar Steinsson (1960).
  • Ragnheiður Guðmunda Steinsdóttir (1964).

Steinn Jóhann hvílir í Ólafsvíkurkirkjugarði.


Jóhann Óttar Úlfarsson, 19 ára, háseti til heimilis að Sandholti 44 í Ólafsvík.

Jóhann fæddist þann 16. maí 1965. Foreldrar hans voru hjónin Úlfar Kristjónsson (1941-1985) skipstjóri á Bervík og Sæunn Alda Jóhannesdóttir (1943). Hann var einkasonur þeirra. Jóhann var ókvæntur og barnlaus.

Jóhann hvílir í Ólafsvíkurkirkjugarði.


Heimildir:
Bæjarblaðið Jökull 26.03.2015, s. 4
Dagblaðið Vísir – DV 28.03.1985, s. 1
MBL 28.03.1985, s. 1

MBL 29.03.1985, s. 48
MBL 13.04.1985, s. 49
Ægir 01.07.1985, s. 413

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *