Viðvíkurkirkjugarður

Kirkjan í Viðvík stendur við norðvesturhorn kirkjugarðsins, þar sem sáluhliðið skásker hornið. Kirkjugarðurinn er girtur trégrindum, sem skorðaðar eru í raufar á steyptum stöplum. Undir grindur er lagt grjót til varnar búfé. Girðingin er frá því um 1965, en þá var garðurinn stækkaður um 6 metra til vesturs og 3 á aðrar hliðar. Um eins meters hæðarmunur er á eldra garðinum og stækkuninni. Garðveggurinn var áður hlaðinn úr náttúrulegu grjóti. Á sama tíma hefur umbúnaður, sem settur var á sáluhlið 1912, vikið fyrir mjóum járnboga með fínlegum krossi. Allt er hvítmálað.

Vestast í kirkjugarðinum standa tvö tvístofna reyniviðartré og lerkitré sem frú Anna Sigurðardóttir, kona séra Guðbrands Björnssonar, gróðursetti snemma á búskapartíma sínum í blómagarðinum sem þá var milli kirkjugarðs og bæjar, en er nú innlimaður í kirkjugarðinn. Í norðausturhorni gamla garðsins eru tvö blágrenitré í járngrindargirtu leiði. Vestan þeirra stóð torfkirkjan sem vék fyrir þeirri sem nú stendur. Nokkur önnur tré eru á leiðum í garðinum. Bílastæði kirkjunnar er þar sem gamli bærinn stóð áður og síðar fjárhús og hlaða. Trausti Bergland á Ljótsstöðum skreytti með krossum hliðgrind og hliðstaura bílastæðisins sem er afgirt með netvír. Sunnan við kirkjugarðinn heitir Kirkjulaut. Þar hafa kirkjugestir fyrrum áð og dregið af sér ferðafötin áður en þeir gengu til kirkju.

Heimildir:
Kirkjur Íslands 6. bindi, s. 257




Scroll to Top