Klyppsstaðarkirkja er í Loðmundarfirði í N-Múlasýslu. Hún var reist 1895 en prestur sat þar til 1888. Eftir það var staðnum þjónað frá Dvergasteini og síðar Seyðisfirði, en Klyppstaðarkirkja hefur aldrei verið afhelguð.
Klyppsstaðarkirkjugarður stendur á sléttum grasbala og hallar lítið eitt til suðurs, umlukinn grasigrónum úthaga. Kirkjan stendur í norðvesturhorni garðsins sem er 528 fermetrar að stærð. Garðurinn er girtur með netgirðingu sem fest er á rekaviðarstaura og er einn gaddavírsstrengur efst. Að norðan og austan er upphlaðinn veggur úr torfi og grjóti og standa girðingarstaurarnir ofan á honum. Lítið hvítmálað sáluhlið úr timbri er á girðingunni vestanverðri á móts við kirkjudyr. Það er úr sívölum staurum og milli þeirra mynda tvær slár ris með sama halla og er á kirkjuþaki. Fyrir sáluhliði er einföld hliðgrind úr lóðréttum trérimlum ydduðum í toppinn. Enginn trjágróður er í garðinum og aðeins tvö minnismerki.
Garðurinn hefur ekki verið sléttaður og því má sjá móta fyrir leiðum. Í vísitasíu 1899 er sagt að garðurinn sé í góðu standi en 1929 er hann víða fallinn og að heita útgrafinn. Í biskupsvísitasíu árið 1956 er bent á að þurfi að hirða garðinn betur og girðingin um hann sé ekki gripheld. Einnig kemur fram að fallið hafi skriða mjög nærri kirkjugarðinum og geti honum stafað hætta af skriðuhlaupi. Þurfi að koma í veg fyrir þá hættu með því að ýta upp varnargarði sem mundi verja kirkjugarðinn. Í biskupsvísitasíum 1968 og 1987 er bent á að garðurinn sé óvarinn og eigi gripheldur og úr því verði að bæta. Í tengslum við 100 ára afmæli kirkjunnar árið 1996 réðst átthagafélag Loðmundarfjarðar í að endurgirða garðinn, smíða nýtt sáluhlið og koma kirkjugarðinum í það horf sem hann er nú í.
Það var ekki auðvelt að finna upplýsingar um Klyppsstaðarkirkjugarð eða þá sem hvíla þar. Ég fór í gegnum kirkjubækurnar sem eru tengdar Klyppsstaðarsókn og skráði þá sem ég gat með vissu talið jarðaða í kirkjugarðinum, en náði samt aðeins að skrá rétt rúmlega 20 einstaklinga þar (þegar þetta er skrifað í febrúar 2024).
Í garðinum eru eingöngu 2 minningarmerki sjáanleg, þannig að það var ekki hægt að styðjast við legsteina við skráninguna.
Ólafía Herborg Jóhannsdóttir fær kærar þakkir fyrir að hafa sent mér upplýsingar um hjónin í Stakkahlíð, Stefán Gunnarsson og Þorbjörgu Þórðardóttur, og afkomendur þeirra.
Heimildir:
Austurglugginn 16.07.2010, s. 3
Kirkjur Íslands 25. bindi, s. 152
23 |
9 |
Jósep Jósepsson.