Í heimagrafreitnum að Kolviðarhóli hvíla þrír einstaklingar, Sigurður Daníelsson, kona hans Valgerður Þórðardóttir (1871-1957) – gestgjafahjón á Kolviðarhóli – og sonur Sigurðar, Davíð Sigurðsson (1916-1941), en hann lést fyrir aldur fram af slysförum.
Síðasta sumarið sem Sigurður lifði, sumarið 1935, hófst hann handa við að láta búa til heimagrafreit í túninu á Kolviðarhóli. Það gerði fornkunningi hans Erasmus Gíslason úr Reykjavík. Legstaður þessi er þannig byggður að grafhvelfing var gerð í jörð niður, steypt í hólf og gólf með opi á lofti, svo að líkkista mætti komast niður um. Yfir opið var gerð steinhella.
Grafhvelfingin er það há undir loft að hún er manngeng. Er þar rúmgott fyrir þrjár líkkistur. Ofanjarðar eru veggir steyptir umhverfis á alla vegu, á annan metra á hæð, og á vesturhlið eru dyr með hurð fyrir sem snýr þannig að sést yfir Svínahraunið og Brunann.
Grafreiturinn var vígður þann 15. október 1935 þegar Sigurður var lagður til hinstu hvílu þar. Var fjölmenni viðstatt jarðarförina, enda var Sigurður heitinn ákaflega vinsæll maður. Hann hafði búið á Kolviðarhóli í um 30 ár og tekið þar á móti mörgum þúsundum gesta.
Á skjöld sem festur er innan á austurvegg girðingarinnar eru letruð nöfn þeirra þriggja.
Myndirnar tók af heimagrafreitnum Hörður Gabríel og fær hann kærar þakkir fyrir!
Heimildir:
Tíminn 24.07.1977, s. 3
3 |
3 |
Hörður Gabríel.