Heimagrafreitur Brekku

Magnús Gíslason Brekku

Í heimagrafreitnum að Brekku hvílir aðeins einn maður, Magnús Gíslason. Foreldrar Magnúsar voru hjónin Gísli Gíslason og Jórunn Magnúsdóttir er þá voru bændur í Stórabotni, en frá 10 ára aldri ólst Magnús upp á Brekku á Hvalfjarðarströnd hjá Jóni Teitssyni og Guðrúnu Snæbjarnardóttur. Þar vandist hann smíði hjá fóstra sínum og var hann lagtækur á tré og járn.

Á yngri árum var Magnús sjómaður á skútum, og einnig fyrstu búskaparár sín. Átti hann um skeið sexæring og fór á honum aðdráttarferðir til Reykjavíkur fyrir sig og aðra. Magnús var bóndi á Brekku frá 1901-1936 en þá tóku synir hans við jörðinni. Öll sín búskaparár átti hann bát, stundaði hrognkelsa- og selveiði, og fór oft með ferðamenn yfir Hvalfjörð.

Eiginkona Magnúsar var Guðrún Bjarnadóttir og eignuðust þau 6 börn. Hún hvílir í Saurbæjarkirkjugarði.

Magnús lést 2. nóvember 1957, þá 86 ára. Hann var jarðaður í heimagrafreitnum 15. nóvember 1957.

Heimildir:
Borgfirskar æviskrár VII, s. 321.



Scroll to Top