Vélbáturinn Víðir VE 265 var smíðaður í Rosendal í Noregi árið 1929 fyrir Valdimar Kristmundsson útgerðarmann í Keflavík og fékk nafnið Skógafoss GK 280. Hann var 20 smálesta með 65 hestafla vél. Árið 1936 var hann keyptur til Vestmannaeyja og fékk þá nafnið Víðir VE 265. Báturinn var vel sterkur, vel útbúinn og vel mönnum skipaður.
Sunnudaginn 6. febrúar 1938 var hægviðri snemma morguns og réru allmargir bátar frá Vestmannaeyjum, þar á meðal Víðir VE 265. Í birtingu tók að hvessa á suðaustan, og vindur að ganga suðlægari. Meðan vindurinn var mestur var mikil snjóhríð, er síðar um daginn breyttist í rigningu.
Þegar leið á daginn fóru bátarnir smátt og smátt að koma heim og um kvöldið voru allir komnir heim nema m. b. Víðir. Margir bátanna höfðu tapað um og yfir helming af veiðarfærum sínum. Um kvöldið fór varðskipið Þór að leita hans og einnig leitaði m. b. Ver nokkuð þar um kvöldið. M.b. Víðir hafði lagt línu sína um 25 sjómílur NV. frá Vestmannaeyjum og hafði síðast sést á Selvogsbanka síðari hluta sunnudagsins.
Þrátt fyrir leit nokkurra skipa í fullan sólarhring sást ekki til bátsins aftur. Fóru menn þá að verða vonlausir um heikomu hans, þó að öllum sjómönnum kæmi saman um það að eitthvert óvænt óhapp, annað en stormurinn, hefði grandað bátnum.
Stuttu síðar rak bátinn upp á Landeyjasand, þá brotinn til ónýtis, möstin brotin og þilfarið farið af honum. Fékk það menn til að ræða hvort um hafi verið að ræða kompásskekkju eða vélarstopp, en ómögulegt er að vita hver ástæðan fyrir slysinu var.
Með Víði fórust 5 menn:
Gunnar Guðjónsson, skipstjóri, 32 ára, ógiftur og barnlaus. Gunnar er nefndur á legstein í Vestmannaeyjakirkjugarði ásamt bræðrum sínum og foreldrum.
Gísli Guðjónsson, 1. vélstjóri, 24 ára, ógiftur og barnlaus. (Bróðir Gunnars). Lík Gísla fannst og hvílir hann í Vestmannaeyjakirkjugarði.
Ólafur Jón Markússon, 2. vélstjóri, 21 árs, ógiftur og barnlaus.
Jón Árni Bjarnason, 27 ára, frá Eyrarbakka, ógiftur og barnlaus.
Halldór Valgeir Þorleifsson, 21 árs, ógiftur og barnlaus.
Halla Guðmundsdóttir, móðir þeirra bræðra Gunnars og Gísla, hafði árið 1924 misst 2 syni í sjóinn, Guðmund og Jóhann Eyjólf. Guðmundur drukknaði við Eiðið í Vestmannaeyjum er hann var í bát á leið út í Gullfoss og tók út. Jóhann Eyjólfur drukknaði þegar hann tók út af mótorbát á heyferð til Vestmannaeyja.
Ef þú átt myndir af skipverjum þá máttu mjög gjarnan senda mér 🙂
Heimildir:
MBL 09.02.1938, s. 1, 6
Víðir 19.02.1938, s. 2
Verkamaðurinn 09.02.1938, s. 1
Alþýðublaðið 10.02.1938, s. 4