Skonnortan Hekla

Skonnortan Hekla var 120 tonn, sterkt og vandað skip og vel búin út að öllu. Hún var í eigu Garðars Gíslasonar stórkaupmanns.

Dæmi um skonnortu
Myndin sýnir dæmi um skonnortu, mér hefur ekki tekist að finna mynd af Heklu.

Hekla lagði af stað frá Íslandi síðla sumars 1912 með fiskfarm til Englands. Fór hún svo til Halmstad í Svíþjóð, til að sækja timburfarm fyrir Jónatan Þorsteinsson kaupmann í Reykjavík. Hekla lagði af stað frá Halmstad 25. október 1912, hlaðin timbri. Síðan fréttist ekkert af henni fyrr en að hana rekur á hvolfi við Knararnesland á Mýrum í lok desember. Ýmislegt dót úr skipinu hafði rekið í fjöruna, þar á meðal nafnspjald þess. Síðar kom fram að skipstjórinn á skipinu Vesta hafi séð Heklu skammt frá Vestmannaeyjum í desember, og geta menn þess til að skipinu hafi hvolft fyrir sunnan land í óveðrunum sem gengu yfir landið í fyrri hluta desember. Styrkir það þennan grun manna, að eitthvað af farminum hafi rekið syðra.

Skipverjar á Heklu voru fimm og fórust þeir allir.

Þessir menn fórust með Heklu:


Sigurður Kristinn Guðmundur Mósesson, 27 ára, skipstjóri til heimilis að Barónsstíg 18 í Reykjavík.

Sigurður fæddist þann 25. nóvember 1885 að Meira-Garði í Mýrahr., V-Ís. Foreldrar hans voru Móses Mósesson (1836-1918) og Valgerður Natanaelsdóttir (1847-1889) hjón þar. Sigurður lauk hinu minna stýrimannaprófi og hinu meira stýrimannaprófi vorið 1908 og hann hafði m.a. verið stýrimaður á skonnortunni Norðurljósið sem var í eigu danska olíufélagsins D. D. P. A.

Sigurður var kvæntur Guðríði Einarsdóttur (1884-1911) og eignuðust þau saman einn son:

Guðríður lést af barnsförum, viku eftir að Guðráður fæddist. Sigurður kvæntist Sigríði Elíasdóttur (1886-1919) 10. maí 1912.

Sigurður hvílir í votri gröf.


Þorsteinn Egilsson, 48 ára, stýrimaður til heimilis í Hafnarfirði.

Þorsteinn fæddist þann 26. október 1864 að Miðhúsum í Villingaholtshr., Árn. Foreldrar hans voru Egill Jónsson (1827-1880) og Þóra Þorsteinsdóttir (1833-1889) hjón þar. Þorsteinn var um tíma kaupmaður í Reykjavík og hafði mikil umsvif. Hann byggði hús á horni Frakkastígs og Laugavegar (Laugavegur 44), og rak þar vefnaðarvöru- og matvöruverslun. En svo snéri hann sér að sjónum á ný.

Þorsteinn var kvæntur Hansínu Valgerði Jónsdóttur, þau voru barnlaus.

Þorsteinn hvílir í votri gröf.



Jón Ólafur Símon Sturluson, 28 ára, háseti til heimilis að Laugavegi 70 í Reykjavík.

Jón fæddist þann 18. febrúar 1844 í Krossadal í Tálknafjarðarhr., V-Barð. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Jón hvílir í votri gröf.


Halldór Jón Mósesson, 24 ára gamall, háseti til heimilis að Hólum í Þingeyrarhr., V-Ís.

Jón fæddist þann 14. júlí 1888 að Arnarnesi í Mýrahr., V-Ís. Foreldrar hans voru Móses Þorleifur Bjarnason Jónsson (1858-1936) og Kristín Jónína Bjarnadóttir (1866-1953), þau giftust nokkrum árum eftir fæðingu Jóns.

Jón þurfti snemma að leggja sitt til heimilisins eins og tíðkaðist í þá daga. Hann var vart af barnsaldri þegar hann fylgdi í fótspor föður síns, fyrst á árabátum en síðar á þilskipum. Jón gekk í Núpsskóla við stofnun hans árið 1906 og var hann þar við nám fram til 1908. Eftir að hafa gaumgæft kostina vel afréð Jón að fara í Bændaskólann á Hvanneyri hvar hann var við nám frá 1910 til 1912. Að útskrift lokinni réði Jón sig í kaupavinnu á Hvanneyri fyrir hæsta kaup en laun fóru eftir afköstum. Jón var kraftmikill og dugandi til starfa en þar sem hann var ekki með vanari sláttumönnum stóðst hann þeim öflugustu ekki snúning. Skólastjórinn hugðist því lækka laun hans sem varð til þess að Jón sagði upp vistinni. Þar sem aðra vinnu var ekki að hafa í héraðinu afréð Jón að leita fyrir sér í Reykjavík. Hann hafði vonast til að vera laus við sjómennskuna en þó fór svo að hann réði sig um borð á Heklu. Jón var ókvæntur og barnlaus.

Jón hvílir í votri gröf.


Heimildir:
Bændablaðið 23.02.2017, s. 40
Fálkinn 11.10.1965, s. 22
Gjallarhorn 28.12.1912, s. 57
Lögberg – 30.01.1913, s. 5
Morgunblaðið 09.03.1956, s. 10
Vestri – 20.01.1913, s. 11
Vísir – 22.12.1912, s. 1
www.thingeyri.is/frettir/Haldid_til_Hvanneyrar/
www.thingeyri.is/frettir/Orlagarik_sjoferd/
is.wikipedia.org/wiki/Skonnorta

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *