Sæborg EA 383

Sæborg EA 383 var stálskip smíðað í Noregi 1908, þá 69 rúmlestir brúttó að stærð. Árið 1942 var það yfirbyggt og sett í það Lister díselvél. Eftir það var báturinn sagður vera 73 tonn. Áður hafi þessi bátur verið gerður út frá Vestmannaeyjum og þá í eigu Helga Benediktssonar útgerðarmanns þar. Hét hann þá Gunnar Jónsson VE 284. Síðar eignuðuðst menn í Reykjavík bátinn og menn á Akranesi og var hann þá nefndur Sæborg MB 4. Núverandi eigendur Sæborgar voru feðgarnir Jörundur Jörundsson og Guðmundur Jörundsson útgerðarmenn í Hrísey. Sæborg var grænmáluð með hvítu stýrishúsi.

island islandsk langlinedamper saeborg e a 383 overlastet med sild paa vej til 1

Sæborg EA 383 – Mynd: Anton Steinarson

1538627 1434256823471362 758893748 n

Sæborg EA 383 á leið til Siglufjarðar með fullfermi af síld sumarið 1939. – Mynd: https://www.stamps.dk

thorhallursofussongjorveraa

Mynd: Þórhallur Sófusson Gjörveraa – Snorri Snorrason

Sæborg fór frá Seyðisfirði áleiðis til Skála á Langanesi 14. nóvember 1942, með farm til setuliðsins á Skálum. Mun þetta hafa verið um 10 tíma ferð og hefði báturinn því átt að ná til Skála að kvöldi sama dags. Um borð var 6 manna áhöfn og tveir farþegar. Ekki er vitað hversu fljótt leit að bátnum hófst, en leitað var á stóru svæði bæði af skipum og flugvélum. Þann 4. desember 1942 kom frétt í blaðinu Íslending um að rekið hafi úr Sæborgu bjarghringur og stykki úr bátnum, og hafi þetta komið á land í Sköruvík (Skoruvík) á Langanesi. Blaðið bætir því við að kunnugir telji að brakið bendi frekast til þess að skipið hafi farist á dufli. Sköruvík er norðanmegin á Langanesi og bendir það til þess að báturinn hafi verið kominn fyrir Langanesfont þegar hann fórst.

Ýmsar kenningar hafa verið upp um ástæður þess að Sæborg fórst. Sumir nefna veður eða brotsjó, því um kvöldið þann fjórtánda nóvember, þegar Sæborg lagði af stað, gerði ofsaveður. Aðrir segja, eins og áður er nefnti, að tundurdufl hafi grandað Sæborgu, en mikið hafði verið um tundurduflarek á þessum slóðum, og enn aðrir nefna annan farþegann sem var um borð. Þessi farþegi var Hallgrímur Baldi Hallgrímsson og hefur sú kenning verið uppi að Bretar hafi skotið bátinn niður til að losna við Hallgrím, sem þeir töldu vera hættulegan vegna skoðana hans.

Með skipinu fórust þessir menn:


Jóhann Friðriksson, 29 ára, skipstjóri til heimilis að Frakkastíg 22 í Reykjavík.

Jóhann fæddist þann 14. september 1913 að Gamla-Hrauni í Eyrarbakkahr., Árn. Foreldrar hans voru Friðrik Sigurðsson (1876-1953) og Margrét Jóhannsdóttir (1888-1918). Móðir Jóhanns lést í spænsku veikinni 1918 þegar Jóhann var aðeins 5 ára gamall og ólst hann upp á heimili föður síns uns hann fór að stunda sjó sem aðalatvinnu tæplega 16 ára. Naut hann þar fyrst við móðurbróður síns Ársæls Jóhannssonar skipstjóra. Var Jóhann svo um hríð á togara uns hann fór í Stýrimannaskólann árið 1934 og útskrifaðist þaðan 1936. Eftir það var hann oftast stýrimaður, uns hann varð skipstjóri á Sæborg u.þ.b. tveimur árum áður en hún fórst.

Jóhann kvæntist Klöru Sigurðardóttur Bjarnason (1914-1991) árið 1939. Þau eignuðust eina dóttur saman:

  • Margrét Ágústa Jóhannsdóttir (1940).

Jóhann hvílir í votri gröf.



Eðvald Valdórsson, 30 ára, 1. vélstjóri til heimilis í Vestmannaeyjum.

Eðvald fæddist þann 10. ágúst 1912 að Stuðlum, Reyðarfjarðarhr., S-Múl. Foreldrar hans voru Valdór Bóasson (1885-1927) og Herborg Jónasdóttir (1886-1864). Eðvald hafði stundað vélgæslu á allmörgum vélbátum í Eyjum og var einn af fáum mönnum þaðan sem lokið höfðu prófi við mótorvélskóla Fiskifélags Íslands. Hann var félagi í Vélstjórafélagi Vestmannaeyja og átti sæti í stjórn félagsins síðasta árið fyrir andlát sitt.

Eðvald kvæntist Ágústu Helgu Jónsdóttur (1917-2008) 7. október 1938. Þau eignuðust einn son saman:

Eðvald hvílir í votri gröf en hans er minnst á Minnisvarða horfinna sem er í Keflavíkurkirkjugarði við Aðalgötu.



Óli Guðbjartur Lárus Friðriksson, 28 ára, matsveinn frá Aðalvík í Sléttuhr., N-Ís.

Óli fæddist þann 14. júlí 1914 að Látrum í Aðalvík, Sléttuhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Katarínus Friðrik Finnbogason (1879-1969) og Þórunn María Þorbergsdóttir (1884-1975). Óli var ókvæntur og barnlaus.

Óli hvílir í votri gröf.


Páll Pálmason, 19 ára, háseti til heimilis á Akureyri.

Páll fæddist þann 28. júlí 1923 á Akureyri. Foreldrar hans voru Pálmi Steingrímsson (1891-1946) og Lovísa Ágústa Pálsdóttir (1892-1973). Páll var ókvæntur og barnlaus.

Páll hvílir í votri gröf.


Hallgrímur Baldi Hallgrímsson, 32 ára, farþegi til heimilis að Ásvallagötu 69 í Reykjavík.

Hallgrímur fæddist þann 10. október 1910 að Sléttu í Mjóafjarðarhr., S-Múl. Foreldrar hans voru Kristján Hallgrímur Jónsson (1875-1910) og Sigríður Björnsdóttir (1881-1959). Faðir Hallgríms fórst með vélbátnum Ingólfi frá Mjóafirði í illviðri 4 mánuðum áður en Hallgrímur fæddist. Hallgrímur var verkalýðsleiðtogi, byltingarmaður og kommúnisti. Hann var einn þriggja Íslendinga sem ferðuðust til Spánar til að berjast með her lýðveldissinna í spænsku borgarastyrjöldinni á fjórða áratugnum. Á hernámsárum Breta á Íslandi sat hann um hríð í fangelsi vegna hins svokallaða Dreifibréfsmáls, sem fólst í dreifingu verkfallsáróðurs meðal enskra hermanna sem skipað var að ganga í störf íslenskra verkamanna. Árið 1942 var hann á ferð um Austfirði sem erindreki Sósíalistaflokksins og tók sér far frá Seyðisfirði með Sæborgu áleiðis til Húsavíkur.

Hallgrímur var kvæntur Oddnýju Láru Emilíu Pétursdóttur (1912-1989) og áttu þau eina dóttur saman:

  • Halla Mjöll Hallgrímsdóttir (1941).

Hallgrímur hvílir í votri gröf.


Bandarískur hermaður, sem var á leið til Camp Greely á Langanesi. Mér er ekki kunnugt um nafn hans – ef einhver veit hver hann var, má sá hinn sami mjög gjarnan senda mér línu svo ég geti bætt nafni hans við hér.


Heimildir:
Austurglugginn 28.02.2019, s. 11
Sjómannablaðið Víkingur 01.01.1943, s. 5
Ægir 01.11.1942, s. 263
Múlaþing: byggðasögurit Austurlands 01.01.2012, s. 63-79
Íslendingur 27.11.1942, s. 2
Íslendingur 04.12.1942, s. 1
Verkamaðurinn 28.11.1942, s.
Víðir 19.12.1942, s. 2
Vísir 23.11.1942, s. 21

https://is.wikipedia.org/wiki/Hallgrímur_Hallgrímsson_(f._1910)

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *