Max Pemberton

Togarinn Max Pemberton var 323 rúmlesta stálskip, smíðað 1917. Aðaleigandi hans var Halldór Þorsteinsson skipstjóri. Þótt skipið væri orðið 26 ára gamalt var það talið með traustari skipum í togaraflotanum, enda alltaf mjög vel við haldið og allur útbúnaður þess eins vandaður og frekast var völ á.

Eftirfarandi frásögn hefur ekki endilega þann tilgang að segja nákvæmlega frá þvi hvað kom fyrir Maxinn, heldur frekar að segja frá áhöfninni. Ég hef skrifað allt niður sem mér hefur tekist að finna, en ef þið vitið meira þá tek ég alltaf á móti efni.

2023 02 05 19 26 54
Max Pemberton

Max Pemberton fór á veiðar í síðustu för sína frá Reykjavík, fimmtudaginn 30. desember 1943 og er kunnugt að hann stundaði veiðar við Ísafjarðardjúp. 3. janúar kom skipið til Patreksfjarðar og lét í land 1. vélstjóra sem hét Baldur Kolbeinsson, en hann hafði slasast á hendi. Var ráðinn maður í hans stað og lagði skipið upp 35 tonn af lýsi á Patreksfirði, en síðan var haldið á veiðar. Er skipið hafði lokið veiðum, kom það aftur til Patreksfjarðar og lét manninn þaðan aftur í land.

Mánudaginn 10. janúar 1944 kl. 17 barst útgerð skipsins skeyti svohljóðandi frá skipstjóranum: „Komum um eða eftir miðnætti“, en kl. 19:40 barst annað skeyti er sagði: „Komum ekki fyrr en á morgun“, þ.e. 11. janúar. Klukkan 7:30 á þriðjudagsmorguninn mætti Maxinn á venjulegum sambandstíma skipanna, og sagðist þá lóna innan við Malarrif. Eftir það heyrðist ekki aftur frá skipinu.

Strax þegar farið var að óttast um afdrip skipsins var hafin leit á víðáttumiklu svæði af skipum og flugvélum. Ennfremur var leitað með fjörum á Snæfellsnesi, allt frá Ólafsvík, út og suður með nesinu og fyrir Staðarsveit allri, en ekkert sást eða fannst er gefið gæti til kynna hver afdrifi skipsins hefðu orðið.

Maxinn hafði verið þyngdur af loftvarnarbúnaði, auk þess sem jafnvægi var áfrátt af völdum fullfermis af fiski. Slæmt veður hafði geysað og skipið því leitað vars undan Malarrifi við Snæfellsnes. En þegar veðrið fór að ganga niður hélt skipið aftur af stað til Reykjavíkur. Hið skyndilega hvarf skipsins og aðstæður hafa orðið til þess að margir telja að það hafi farist af hernaðarorsökum, s.s. af völdum tundurdufla, en þó nokkur bresk rekdufl höfðu sést á þessum slóðum. Líklega mun hið sanna aldrei koma í ljós.

Má þess geta að þegar Max Pemberton ferst 11. janúar 1944 höfðu farist þrisvar sinnum fleiri íslenskir sjómenn, hlutfallslega miðað við mannfjölda, heldur en Bandaríkin höfðu misst í styrjöldinni.

Með Max Pemberton fórst 29 manna áhöfn, þar á meðal tvennir feðgar og tvennir bræður.
Þeir sem fórust voru:


Pétur Andrés Maack Pétursson, 51 árs, skipstjóri til heimilis að Ránargötu 30, Reykjavík.

Pétur fæddist þann 11. nóv. 1892 að Stað í Grunnavík, Grunnavíkurhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Pétur Andrés Maack Þorsteinsson (1859-1892) og Vigdís Einarsdóttir Maack (1859-1943). Tveimur mánuðum áður en Pétur fæddist drukknaði faðir hans við lendingu í Grunnavík. Stóð móðir hans þá ein uppi með 4 kornungar dætur og þennan óborna son sinn. Bjó hún áfram á Stað þangað til vorið 1894 að hún fluttist að Faxastöðum í Grunnavík og bjó hún þar með börnum sínum í 17 ár.

Pétur Maack var á 14. ári, þegar hann byrjaði sjóróðra á árabát. Var það á tveggja manna fari með Kristjáni gamla Eldjárnssyni í Grunnavík haustið 1906. Hlutur Péturs var milli 20 og 30 krónur. Fimmtán ára gamall fór hann til róðra í Bolungarvík og réri þar vetrar- og vorvertíðina 1908. Var hlutur hans þá um 200 krónur. Næstu árin réri hann á vorin frá Kálfadal og á haustin í Grunnavík en á sumrum vann hann heima hjá móður sinni við heyskap.

Haustið 1912 fluttist Pétur til Reykjavíkur. Um veturinn leitaði hann sér menntunar þar og falaðist jafnframt eftir skiprúmi hjá Halldóri Þorsteinssyni skipstjóra á Skúla fógeta. Réðist hann til Halldórs um vorið 1913 og var háseti á Skúla fógeta þangað til hann fórst á tundurdufli 26. ágúst 1914, en Halldór hafði þá látið af skipstjórn Skúla fyrir 2-3 mánuðum.

Haustið 1914 fór Pétur í Stýrimannaskólann og var þar þangað til í feb. 1915, að hann réðist á togarann Earl Hareford. Fór Pétur í Stýrimannaskólann aftur og útskrifaðist úr honum vorið 1916. Upp frá því var hann ýmist bátsmaður á Earl Hareford eða stýrimaður á Varanger þar til þeir voru seldir úr landi haustið 1917. Þá varð hann háseti á e.s. Gullfoss og 2. stýrimaður á honum frá ársbyrjun 1919. Hann varð 1. stýrimaður á nýja Skallagrími vertíðina og vorið 1920. Síðan skipstjóri um tíma á Hilmi og stýrimaður á honum með Halldóri Þorsteinssyni. Frá 1922 og til dauðadags var Pétur óslitið skipstjóri á togurum. Fyrst á Hilmi til 1927, síðan tvær vertíðir á færeyska togaranum Royndin og loks á Max Pemberton frá því í júlímánuði 1929.

Pétur var kvæntur (1885-1967) og áttu þau 6 börn saman:Aðalheiður Pétursdóttir Maack


1915 02 24 PeturAndresMaackPetursson
Pétur Andrés Maack Pétursson

Pétur Andrés Maack Pétursson 1. stýrimaður, 28 ára, var fæddur 24. febrúar 1915 í Nýlendugötu 19 í Reykjavík. Hann var til heimilis að Ránargötu 2 í Reykjavík. Pétur var sonur Péturs skipstjóra hér að ofan.

Pétur lauk hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum árið 1938.

Pétur var kvæntur [tooltips keyword="Önnu Ragnhildi Björnsdóttur Maack" content=""], og lét hann eftir sig tvö börn, 3 og 4 ára og eitt fósturbarn 8 ára gamalt.

1912 11 09 JonGudmundurSigurgeirsson
Jón Guðmundur Sigurgeirsson

Jón Guðmundur Sigurgeirsson 2. stýrimaður, 31 árs, var fæddur 9. nóvember 1912 á Ísafirði. Hann var til heimilis að Ásvallagötu 28 í Reykjavík.

Jón var kvæntur Aðalheiði Sigurðardóttur og átti tvö börn, 5 ára og á fyrsta ári.

1892 05 17 ThorsteinnThordarson
Þorsteinn Þórðarson

Þorsteinn Þórðarson 1. vélstjóri, 51 árs, var fæddur 19. maí 1892 í Höfða, Biskupstungnahr., Árn. Hann var til heimilis að Sólnesi við Baldurshaga.

Þorsteinn lauk járnsmíðanámi hjá Bjarnhéðni Jónssyni járnsmíðameistara í Reykjavík í kringum 1916 og vélstjóraprófi í Vélstjóraskólanum í Reykjavík 1921. Hann var vélstjóri á togurum, meðal annars lengi hjá Kveldúlfi hf. Hann fór í sögurfræga ferð til Kúbu um 1920 með es. Villemoes en það skip var eign Landsjóðs. Síðast var hann vélstjóri á bv. Max Pemberton.

Þorsteinn var kvæntur Margréti Jódísi Pálsdóttur og átti 6 börn á lífi, 2, 6, 10, 13, 15 og 17 ára. Sonur hans, Þórður, var 2. vélstjóri á Max Pemberton og fórst með honum.

1924 05 10 ThordurThorsteinsson
Þórður Þorsteinsson

Þórður Þorsteinsson 2. vélstjóri, 19 ára, var fæddur 10. maí 1924 á Lokastíg 25 í Reykjavík. Hann var sonur Þorsteins sem var 1. vélstjóri. Þórður var til heimilis hjá foreldrum sínum að Sólnesi við Baldurshaga.

Þórður var ókvæntur og barnlaus.

1924 09 16 AdalsteinnArnason
Aðalsteinn Árnason

Aðalsteinn Árnason háseti, var fæddur 16. september 1924 á Þórarinsstaðaeyrum, Seyðisfjarðarhr., N-Múl. Hann var til heimilis að Efstasundi 14 í Reykjavík.

Aðalsteinn var ókvæntur og barnlaus.

1924 03 04 HilmarEmilJohannesson
Hilmar Emil Jóhannesson

Hilmar Emil Jóhannesson kyndari, 19 ára, var fæddur 4. mars 1924 á Óðinsgötu 14 í Reykjavík. Hann var til heimilis að Framnesvegi 13 í Reykjavík.

Hilmar var kvæntur Ólínu Björnu Guðlaugsdóttur og fæddist þeim dóttir rúmum mánuði eftir að Max Pemberton fórst.

1907 12 20 BenediktRosiSigurdsson
Benedikt Rósi Sigurðsson

Benedikt Rósi Sigurðsson kyndari, 36 ára, var fæddur 19. desember 1906 að Nesi í Grunnavík, Grunnavíkurhr., N-Ís. Hann var til heimilis að Hringbraut 47 í Reykjavík.

Benedikt var kvæntur Solveigu Sigþrúði Magnúsdóttur og áttu þau 4 börn á lífi.

1894 04 01 GisliEiriksson
Gísli Eiríksson

Gísli Eiríksson bátsmaður, 49 ára, var fæddur 1. apríl 1894 á Miðbýli, Skeiðahr., Árn. Hann var til heimilis að Vífilsgötu 3 í Reykjavík.

Gísli missti móður sína þegar hann var tæplega 10 ára. Heimilið flosnaði upp og börnunum var komið fyrir hjá vinum og ættingjum. Frá 1903-1907 er Gísli að Ásum í Gnúpverjahreppi hjá móðurbróður hans, Gísla Einarssyni, en 1907 byrjaði Sigrún systir hans búskap að Úthlíð í Biskupstungum og fór hann þá til hennar. Frá Úthlíð flyst hann með mági sínum og systur að Gljúfri í Ölfusi. Í byrjun 1913, þá 18 ára gamall, fer hann til Reykjavíkur að leita sér atvinnu og kemst í skipsrúm hjá Halldóri Kr. Þorsteinssyni.

Gísli var duglegur og hlífði sér lítt við erfiði. Hann var kröfuharður við sjálfan sig og mörgum hefði fundist hann vinnuharður bátsmaður, hefði hann ekki sjálfur gengið fyrir í öllu. Nærgætni hans og aðgæsla var sérstök og mörgum viðvaningi var hlýtt til hans vegna tilsagnar hans og vakandi eftirtektar. Vegna þessa eiginleika var Gísli eftirsóttur í skipsrúm og var snemma trúað fyrir verkstjórn á þilfari. Hann skipti sjaldan um skipsrúm eða skipstjóra í 30 ára starfi á sjónum og hafði verið bátsmaður á Max Pemberton árum saman.

Gísli var kvæntur Guðríði Guðrúnu Guðmundsdóttur og áttu þau 5 börn á lífi, það yngsta 12 ára.

1915 08 24 BjorgvinHalldorBjornsson
Björgvin Halldór Björnsson

Björgvin Halldór Björnsson stýrimaður, 28 ára, var fæddur 24. ágúst 1915 að Ánanaustum í Reykjavík. Hann var til heimilis að Hringbraut 107.

Björgvin byrjaði sjómennsku með föður sínum og var með honum næstum óslitið þar til að hann hóf nám í stýrimannaskólanum. Lauk hann þar prófi með 1. einkunn vorið 1938 og sigldi síðan sem skipstjóri og stýrimaður á línuskipum. Eftir að stríðið hófst var hann í millilandasiglingum á sömu skipum, bæði sem stýrimaður og skipstjóri og farnaðist mjög vel, þar til hann fór á Max Pemberton tveimur árum áður en hann fórst. Var hann þar bæði sem háseti og stýrimaður og naut þar mikils traust sem var, því hann var framúrskarandi reglu- og dugnaðarmaður.

Björgvin var kvæntur Ástu Sigríði Þorkelsdóttur og áttu þau eina dóttur tæplega 3ja ára og önnur dóttir fæddist tæpum tveimur mánuðum eftir að Björgvin fórst.

1926 02 27 GudjonBjornsson
Guðjón Björnsson

Guðjón Björnsson háseti, 17 ára, var fæddur 27 feb. 1926 að Ánanaustum í Reykjavík. Hann var til heimilis hjá foreldrum sínum að Sólvallagötu 57 í Reykjavík. Guðjón var bróðir Björgvins sem er nefndur hér fyrir ofan.

Þrátt fyrir ungan aldur, var Guðjón búinn að vera á sjónum í 10 sumur. 7 ára fór hann með föður sínum á síldveiðar og var með honum á hverju sumri til 13 ára aldurs að hann fór á annað skip sem háseti. Stóð hann þar ekki að baki þeim er eldri voru, enda var það þannig að eftir að hann varð 15 ára, þá gat hann valið um skipsrúm á línu- og síldveiðarskipum. Haustið áður en Maxinn fórst, fór hann þangað um borð og lét Pétur Maack skipstjóri þau orð falla um hann þar, að ungling, óvanan togveiðum, hefði hann aldrei fengið um borð í sitt skip efnilegri, því hann hefði strax orðið sem hver annar maður.

Guðjón var hvers manns hugljúfi, allir vildu með honum vera og allir virtu hann fyrir dugnað og framúrskarandi góða framkomu. Einn af hans mörgu kostum var það að ef hann vissi um eitthvert verk, er framkvæma þurfti, þá gekk hann að því ótilkvaddur og framkvæmdi það. Guðjón var ákveðinn í því að fara í Stýrimannaskólann strax og aldur leyfði, en aldrei varð af því.

Guðjón var ókvæntur og barnlaus.

Bróðir þeira Guðjóns og Björgvins, Anton Björn Björnsson, fórst með vélbátnum Hilmi ÍS 39 á leið frá Rvík til Arnarstapa 26. nóvember 1943.

1897 08 21 ValdimarGudjonsson
Valdimar Guðjónsson

Valdimar Guðjónsson matsveinn, 46 ára, var fæddur 21. ágúst 1897 í Auðsholti, Hrunamannahr., Árn. Hann var til heimilis að Sogamýrarbletti 43 í Reykjavík.

Valdimar var kvæntur Rósu Kristbjörgu Guðmundsdóttur og áttu þau 3 börn, 6, 8 og 11 ára. Sonur fæddist svo í ágúst 1944. Valdimar sá einnig fyrir öldruðum tengdaföður.

1898 01 19 GudmundurEinarsson
Guðmundur Einarsson

Guðmundur Einarsson netamaður, 45 ára, var fæddur 19. janúar 1898 í Brandshúsum, Gaulverjabæjarhr., Árn. Hann var til heimilis að Bárugötu 36 í Reykjavík.

Guðmundur var kvæntur Jónu Björg Magnúsdóttur og áttu þau tvö börn, 10 ára dreng og stúlku á 1. ári.

1900 12 07 GudmundurJonThorvaldsson
Guðmundur Jón Þorvaldsson

Guðmundur Jón Þorvaldsson bræðslumaður, 43 ára, var fæddur 6. desember 1899 að Hvammi í Dýrafirði, Þingeyrarhr., V-Ís. Hann var til heimilis að Selvogsgötu 24 í Hafnarfirði.

Guðmundur var kvæntur Friðrikku Bjarnadóttur og áttu þau 6 börn á lífi, það yngsta 4 ára. Hann sá einnig fyrir öldruðum foreldrum sínum.

1894 11 25 SigurdurViggoPalmason
Sigurður Viggó Pálmason

Sigurður Viggó Pálmason netamaður, 49 ára, var fæddur 25. nóvember 1894 á Breiðabóli, Hólshr., N-Ís.  Hann var til heimilis að Bræðraborgarstíg 49 í Reykjavík.

Sigurður var ekkill, kona hans Evlalía Gróa Halldórsdóttir lést úr berklum 17. janúar 1941 á Vífilsstöðum. Þau eignuðust 5 börn en ein dóttir þeirra lést úr berklum 1940. Önnur dóttir lést einnig úr berklum 1945. Sigurður hafði einnig eignast dóttur fyrir hjónaband, en hún var í fóstri hjá systur hans og mági.

1910 07 04 SaemundurHalldorsson
Sæmundur Halldórsson

Sæmundur Halldórsson netamaður, 33 ára, var fæddur 4 júl. 1910 í Kothrauni, Helgafellssveit, Snæf. Hann var til heimilis að Hverfisgötu 61 í Reykjavík.

Sæmundur missti föður sinn ungur, mun hafa verið tæpra 10 ára. Tvístraðist heimili hans þá, og fluttist móðir hans þá að Bjarnarhöfn í sömu sveit, með hann og Kristján bróðir hans (sjá fyrir neðan). Það má því telja Bjarnarhöfn bernskuheimili Sæmundar. Þegar Thor Jensen seldi Bjarnarhöfn og Eiríkur Eiríksson ráðsmaður flutti þaðan, fluttist Sæmundur til Stykkishólms, og mun hann þá hafa verið um tvítugt. Í Stykkishóli dvaldi hann tvö ár og vann þar við trésmíðar. Frá Stykkishólmi fluttist hann til Reykjavíkur og hefst þá sjómannslíf hans, sem hann svo stundaði upp frá því.

Í rúman áratug var Sæmundur búinn að sækja sjóinn og lengst af á Maxinum. Hann þótti þar sem annarsstaðar hinn vaskasti maður, ósérhlífinn, áræðinn og flestum mönnum afkastameiri.

Sæmundur var kvæntur Elísabetu Jónsdóttur og áttu þau eina dóttur, ársgamla.

1905 03 20 KristjanHalldorsson
Kristján Halldórsson

Kristján Halldórsson háseti, 38 ára, var fæddur 20. mars 1905 í Kothrauni, Helgafellssveit, Snæf. Hann var til heimilis í Innri-Njarðvík. Kristján var bróðir Sæmundar hér fyrir ofan.

Kristján lét eftir sig 3 syni á aldrinum 6 til 9 ára.

1893 01 16 GudniKristinnSigurdsson
Guðni Kristinn Sigurðsson

Guðni Kristinn Sigurðsson netmaður, 50 ára, var fæddur 16. janúar 1893 í Smiðshúsum í Njarðvík. Guðni var til heimilis að Laugavegi 101 í Reykjavík.

Guðni var kvæntur Jensínu Guðrúnu Jóhannesdóttur og voru þau barnlaus.

1917 09 29 JensKonradsson
Jens Konráðsson

Jens Konráðsson stýrimaður, 26 ára, var fæddur 25. september 1917 á Ísafirði. Hann var búsettur að Öldugötu 47 í Reykjavík.

Þegar í barnæsku ákvað Jens að verða sjómaður. Hugur hans hneigðist allur til sjávarins, enda átti hann sægarpa að telja í báðar ættir. Innan við fermingaraldur fór Jens fyrst til sjós, undir handleiðslu föður síns, er þá var dugandi sjómaður og vildi að strákurinn fengi sem fyrst að kynnast því starfi, er hugur hans kaus og reyna sig í baráttunni við hinn grálynda sjó. Og það leyndi sér ekki þá, að Jens var efni í þróttmikinn sjómann, og hafði til þess að bera kjark og þrek til þess að leggja á sig erfið og kuldaleg störf, þótt ungur væri og lítt harðnaður. Jens var því ekki gamall, tæplega kominn af barnsaldri, er hann var orðinn töluvert reyndur og mjög dugandi sjómaður. Hann var háseti á stærri og smærri bátum við ýmiskonar veiðar, í nokkur ár, undi sér hvergi betur en úti á hafsauga, og skipaði ávalt rúm sitt með sæmd.

En hugur hans stefndi hærra. Hann ákvað að læra og verða skipstjóri Fluttist hann frá Ísafirði til Reykjavíku og tók að stunda sjómennsku á togurum. Árið 1941 innritaðist hann í Stýrimannaskólann og tókst honum með dugnaði og elju að afla sér þess lærdóms er með þurfti. Útskrifaðist hann úr skólanum vorið 1943 með góðum vitnisburði og réðst þá á b.v. Max Pemberton. Var hann þar háseti á fiskveiðunum en stýrimaður í Englandssiglingunum. Jens kom sér hvarvetna vel, þar sem hann vann, enda var hann laginn verkamaður, þaulvanur öllum þeim störfum er vinna þarf um borð í skipi, duglegur með afbrigðum, ósérhlífinn og áræðinn.

Jens var kvæntur Þórunni Benjamínsdóttur og voru þau barnlaus.

1914 10 10 JonMagnusJonsson1
Jón Magnús Jónsson

Jón Magnús Jónsson stýrimaður, 29 ára, var fæddur 10 október 1914 á Ísafirði. Hann var til heimilis að Hringbraut 152 í Reykjavík.

Jón lét eftir sig unnustu, Þórdísi Aðalbjörnsdóttur.

1921 04 03 ValdimarHlodverOlafsson
Valdimar Hlöðver Ólafsson

Valdimar Hlöðver Ólafsson háseti, 22 ára, var fæddur 3. apríl 1921 að Skólavörðustíg 20a í Reykjavík. Hann var til heimilis hjá foreldrum sínum að Skólavörðustíg 20a í Reykjavík.

Valdimar var ókvæntur og barnlaus.

1920 08 20 MagnusJonsson
Magnús Jónsson

Magnús Jónsson háseti, 23 ára, var fæddur 11. ágúst 1920 í Stóra-Seli í Reykjavík. Hann var til heimilis að Frakkastíg 19 í Reykjavík hjá foreldrum sínum. Magnús var mágur Péturs, 1. stýrimanns.

Magnús var ókvæntur og barnlaus.

1915 09 19 JonThordurHaflidason
Jón Þórður Hafliðason

Jón Þórður Hafliðason háseti, 28 ára, var fæddur 19. september 1915 í Skáleyjum. Hann var til heimilis að Baldursgötu 9 í Reykjavík.

Jón var kvæntur Láru Þóru Magnúsdóttur og áttu þau þriggja mánaða son saman.

1920 09 26 HalldorSigurdsson
Halldór Sigurðsson

Halldór Sigurðsson háseti, 23 ára, var fæddur 26. september 1920 í Jaðarkoti, Villingaholtshr., Árn. Hann var til heimilis að Jaðarkoti, Villingaholtshr., Árn. (Hverfisgötu 89 í Reykjavík).

Halldór var ókvæntur og barnlaus en fyrirvinna móður sinnar sem var ekkja, og yngri systkina sinna.

1917 01 15 GunnlaugurGudmundsson
Gunnlaugur Guðmundsson

Gunnlaugur Guðmundsson háseti, 26 ára, var fæddur 15. janúar 1917 í Gjögri, Árneshr., Strand. Hann var til heimilis að Óðinsgötu 17 í Reykjavík.

Gunnlaugur var kvæntur Þorgerði Jónsdóttur og áttu þau son sem var 8 daga gamall þegar Gunnlaugur fórst. Gunnlaugur náði aldrei að hitta son sinn.

1929 06 03 KristjanKarlKristinsson
Kristján Karl Kristinsson

Kristján Karl Kristinsson aðstoðar matsveinn, 14 ára, var fæddur 2. júní 1929 á Grundarstíg 2 í Reykjavík. Hann var til heimilis í Háteigi í Reykjavík.

Kristján var ókvæntur (enda aðeins 14 ára).

1924 04 04 AriFridriksson
Ari Friðriksson

Ari Friðriksson háseti, 19 ára, var fæddur 4. apríl 1924 að Látrum í Aðalvík, Sléttuhr., N-Ís. Hann var til heimilis að Látrum í Aðalvík, Sléttuhr., N-Ís.(Hörpugötu 9 í Reykjavík).

Ari var ókvæntur en hafði fyrir öldruðum föður að sjá.

1904 03 22 JonOlafsson
Jón Ólafsson

Jón Ólafsson háseti, 39 ára, var fæddur 22. mars 1904 að Aðalbóli, Auðkúluhr., V-Ís. Hann var til heimilis í Keflavík. Jón Ólafsson fór á Max Pemberton þessa einu ferð í staðinn fyrir annan mann sem forfallaðist.

Jón var ókvæntur og barnlaus.

1891 10 03 ArnorSigmundsson
Arnór Sigmundsson

Arnór Sigmundsson háseti, 52 ára, var fæddur 3. október 1891 í Sútarabúðum, Grunnavíkurhr., N-Ís. Hann var til heimilis að Vitastíg 9 í Reykjavík.

Arnór hafði áður verið skipverji á Skúla Fógeta þegar hann strandaði fyrir vestan Staðarhverfi í Grindavík 10. apríl 1933.

Arnór var kvæntur Þórdísi Magnúsdóttur. Þau voru barnlaus en ólu upp systurdóttur Þórdísar.

[Fancy_Facebook_Comments_Pro]

Heimildir:
Akranes 01.08.1947, s. 95
Faxi 01.01.1986, s. 26
Morgunblaðið 09.02.1944, s. 8
Morgunblaðið 13.02.1944, s. 5
Morgunblaðið 15.03.1944, s. 8
Morgunblaðið 29.07.1984, s. 85
Sjómannablaðið Víkingur 01.01.1944, s. 3-6
Sjómannablaðið Víkingur 01.12.2003, s. 58
Sjómannablaðið Víkingur 01.01.2020, s. 47
Þjóðviljinn 16.01.1944, s. 1