1984 – Hellisey VE 503

Hellisey VE 503 var smíðuð í V-Þýskalandi árið 1956. Var hér um 75 tonna stálskip að ræða og hét það áður Sigurvon SH 121, gert út frá Stykkishólmi en selt til Vestmannaeyja árinu áður en það fórst. Hellisey var í eigu Hraðfrystistöðvarinnar.

79dd461e13bb1c7e4e344031b7482dfb mynd 23135 553 484 2
Mynd: Sigurgeir.is
Screen Shot 2017 08 22 at 10.38.06
Mynd: Heimaslóð.is
Hellisey VE Sdbl. 2009
Mynd: Heimaslóð.is
timinn13031984s5
Mynd: Tíminn 13.03.1984, s. 5

Sunnudaginn 11. mars 1984 var hægviðri en allmikill sjór, 2 stiga frost og hitastig sjávar var um 6°C. Hellisey var á togveiðum á svokölluðu Leddi, sem er um 5 km austur af Stórhöfða á Heimaey. Í Leddinu er hraunbotn og er það frægt fyrir það að sjómenn missa á því veiðarfæri sín. Nafnið er talið til komið af því að franskir fiskimenn sem fiskuðu á Íslandsmiðum á liðnum öldum, höfðu blýsökkur, „ledd“ sem gjarnan festust í botninum og týndust.

Um borð á Hellisey var fimm manna áhöfn; Hjörtur Rósmann Jónsson skipstjóri, Guðlaugur Friðþórsson stýrimaður, Pétur Sigurður Sigurðsson 1. vélstjóri, Engilbert Eiðsson 2. vélstjóri og Valur Smári Geirsson matsveinn.

Um kl. 23 á sunnudagskvöldinu var Guðlaugur stýrimaður sofandi neðan þilja þegar Valgeir Smári vekur hann og segir honum að trollið sé fast í botni. Þegar Guðlaugur kom á þilfar sá hann strekktan togvírinn standa beint niður í sjó svo sjór rann inn fyrir lunninguna. Það var slakað á vírnum og báturinn lagaðist aðeins, en svo kom kvika undir og báturinn lagðist á möstrin. Skyndilega hvolfdi bátnum, sennilega á einungis 4 til 5 sekúndum.

Skipverjarnir lentu allir í sjónum en aðeins þremur tókst að komast á kjöl bátsins; Hirti, Pétri og Guðlaugi. Þeim var ljóst að enginn kæmi þeim til bjargar, björgunarbáturinn var á 6 metra dýpi þar sem skipið var ekki búið sjálfvirkum sleppibúnaði, og þeir náðu ekki til hans. Skipið sökk stöðugt dýpra og að lokum hvarf það í djúpið. Félagarnir freistuðu þess að synda í land, en á endanum var Guðlaugur einn eftir á sundi. Eftir um þriggja sjómílna sund, sem eru 5.556 metrar, kom Guðlaugur að landi á Eldfellshrauni suðaustur af Helgafelli eftir u.þ.b. 6 klst sund. Þar þurfti hann að klífa hamar, ganga berfæddur yfir úfið apalhraun upp erfiða brekku, milli Fella og í átt til bæjarins. Líklega um 2 km ganga.

Screen Shot 2017 08 21 at 10.37.50
Mynd: Heimaslóð.is

Ekkert neyðarkall barst frá skipverjum og hafði Tilkynningaskyldan engar spurnir af þeim klukkan 22 og 24 á sunnudagskvöldinu. Öðru hvoru var reynt að kalla skipið upp, en án árangurs. Ekkert fréttist af skipinu fyrr en að Guðlaugur bankaði upp á dyrnar í Suðurgerði 2 í Vestmannaeyjum á mánudagsmorgninum. Tóks Guðlaugi að koma upp nafni bátsins og var þegar hafin víðtæk leit. Leitarmenn frá Björgunarfélagi Vestmannaeyja, Hjálparsveit skáta og lögreglunni auk nemenda Stýrimannaskólans gengu fjörur og leituðu í Nýja hrauninu til að ganga úr skugga um hvort að fleiri skipverjar hefðu komist í land. Einnig leituðu margir bátar í grennd við þann stað sem talið var að Hellisey hefði sokkið. Þá fóru björgunarsveitarmenn á slöngubátum meðfram Heimaey. Fljótlega fannst olíubrák á sjónum og einnig brak sem talið var vera úr Hellisey.

Klukkan 10 á mánudagsmorgninum fannst flak Helliseyjar á 99 metra dýpi sunnan á Leddinu. Enginn skipverjanna fjögurra sem fórust, fannst.

Þeir sem fórust voru:


Hjörtur Rósmann Jónsson, 25 ára, skipstjóri til heimilis að Áshamri 63 í Vestmannaeyjum.

Hjörtur fæddist þann 8. júní 1958 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Jón Bjarni Hjartarson (1924-1982) og Hjördís Inga Einarsdóttir (1934-2016) sem bjuggu á Mýrum í Grundarfirði. Hjörtur byrjaði fljótt að vinna við bú foreldra sinna og auk þess snemma við fiskverkunarstörf í Grundarfirði. Hugur hans stefndi á sjóinn og fór hann fyrst með Elís Guðjónssyni, skipstjóra á Grundfirðingi SH 12 og var þar í tvö ár. Þá fór hann í málmiðnaðardeild Iðnskólans í Reykjavík, enda laghendur og vel verki farinn. Eftir einn vetur þar var hann kominn á Hvanney SF frá Hornafirði. Í Eyjum komst hann í góð skiprúm og var m.a. stýrimaður á Heimaey VE 1. Árið 1982 lauk hann hinu meira fiskimannaprófi með 1. einkunn. Hjörtur hafði stillta og góða framkomu og var umtalsgóður. Hann var góður námsmaður og mikill sundmaður. Hjörtur varð fastur skipstjóri á Hellisey haustið áður en hann lést.

Með Guðrúnu Hrönn Guðbjörnsdóttur (1962) átti hann eina dóttur:

  • Þórunn Hjartardóttir (1980).

Með Cassöndru C. Siff Sveinsdóttur (1960) átti Hjörtur einn son:

  • Jón Bjarni Hjartarson (1981).

Hjörtur Rósmann hvílir í votri gröf.


Pétur Sigurður Sigurðsson, 21 árs, 1. vélstjóri til heimilis að Sæviðarsundi 9 í Reykjavík.

Pétur fæddist þann 5. maí 1962 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Vilhjálmur Gunnarsson (1929-2023) og Þýðrún Pálsdóttir (1931-2021). Pétur ólst upp í foreldrahúsum í Reykjavík. Hann lauk prófi frá Vélskólanum 1982, aðeins tvítugur að aldri, og sveinsprófi í vélvirkjun frá vélsmiðju föður síns haustið áður en hann fórst. Pétur var hógvær og hljóðlátur ungur maður, orðvar og yfirvegaður í allri framkomu. Hann var handlaginn og vandvirkur, og vinsæll til vinnu. Hann unni klassískri tónlist og hafði lært gítarleik í nokkur ár og einnig var hann mikill bókaunnandi. Pétur réð sig á Helliseyna tveimur mánuðum áður en hún fórst.

Pétur var trúlofaður Ester Agnarsdóttur (1964).

Pétur Sigurður hvílir í votri gröf.


Engilbert Eiðsson, 19 ára, 2. vélstjóri til heimilis að Faxastíg 4 í Vestmannaeyjum.

Engilbert, eða Eddi eins og hann var kallaður, fæddist þann 29. júní 1964 í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru hjónin Eiður Sævar Marinósson (1939-2000) og Sigurborg Ólöf Engilbertsdóttir (1944).

Eddi ólst upp sín fyrstu æskuár við Faxastíg en fluttist síðar snemma eftir gosið upp í Hrauntún. Um fjórtán ára aldur fór hann til sjós og réri þá með föður sínum. Eftir það var hann langmest til sjós að undanskildum nokkrum mánuðum í landi. Eddi var duglegur og verklaginn mjög, einkum í sambandi við vélar en samt var hann ófaglærður í þeirri grein.

Eddi var trúlofaður Sólveigu Maríu Aðalbjörnsdóttur (1962).

Engilbert hvílir í votri gröf.


Valur Smári Geirsson, 26 ára, matsveinn til heimilis að Herjólfsgötu 8 í Vestmannaeyjum.

Valur Smári, eða Smári eins og hann var kallaður, fæddist þann 18. september 1957 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Geir Grétar Pétursson (1937-2015) og Kristín Anna Baldvinsdóttir (1938-2009). Smári var 15 ára er hann hóf sinn sjómannsferil á Júlíu. Sjómennskan átti vel við hann og var hann bæði á bátum og togurum. Var hann oftast háseti eða matsveinn og gat sér gott orð fyrir dugnað í starfi, enda ósérhlífinn maður.

Smári var kvæntur Lindu Sigurborgu Aðalbjörnsdóttur (1959) og áttu þau tvö börn saman:

  • Aðalbjörn Þorgeir Valsson (1977).
  • Anna Dóra Valsdóttir (1981).

Valur Smári hvílir í votri gröf.


Heimildir:
MBL 07.04.1984, s. 37
MBL 18.09.1957, s. 35
MBL 12.03.2004, s. 49
Tíminn 13.03.1984, s. 1
Þjóðviljinn 13.03.1984, s. 1
Ægir 01.03.2007, s. 90

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *