Guðrún VE 163 var hinn traustasti bátur, 49 smálestir að stærð smíðaður úr eik í Eyjum 1943, en 1949 keypti Ársæll Sveinsson útgerðarmaður hann ásamt tveimur sonum sínum, þeim Lárusi og Svein.
Um hádegisbil 23. febrúar 1953 brast á rok með hryðjum af suðaustri og nálgaðist stormurinn fárviðri við Eyjar. Eyjabátar voru að draga net sín flestir milli lands og Eyja. En vélbáturinn Guðrún var að draga net sín skemmt innan Elliðaey, sem er norðvestan Heimaeyjar. Um klukkan hálfeitt fékk báturinn á sig brotsjó sem kastaði honum á hliðina. Strax á eftir fylgdi annar brotstjór og sökkti hann bátnum alveg á mjög skammri stundu. Höfðu skipverjar verið að draga inn netatrossu, og er líklegt að lestarop hafi verið opin.
Um borð á skipinu var níu manna áhöfn. Fjórir skipverja komust í gúmmíbátinn, sem geymdur var uppi á stýrishúsi, en hinir fimm fóru með bátnum. Gúmmíbátar þessir voru þessum tíma komnir í flesta Eyjabáta og áttu að geta borið 9-10 menn, svo að gúmmíbáturinn hefði átt að geta borið alla skipverja ef þeir hefðu komist í hann. Rak mennina í björgunarbátnum nú undan veðri og sjó, en þeir gátu þó stýrt nokkuð. Geysiillt var í sjóinn og hvolfdi gúmmíbátnum þrisvar undir þeim, en þeir gátu alltaf rétt hann við og komist upp í hann aftur.
Bárust þeir svo upp undir Landeyjasand, en þar var brimgarðurinn óskaplegur. Svo bar þó við, er þeir komu að sandinum skammt austan við Affall, að mjög gott lag kom, og bar þá fljótt og örugglega í gegnum brimgarðinn og upp í sand. Héldu þeir þaðan heim til Hallgeirseyjar, en það er nokkur spölur. Fólk frá Hallgeirsey mun hafa tekið á móti þeim í fjörunni. Þangað komu þeir þegar klukkan var langt gengin í fimm.
Þeir sem fórust voru:
Óskar Eyjólfsson, skipstjóri frá Laugardal, var fæddur að Hraungerði í Vestmannaeyjum 10. janúar 1917. Óskar ólst upp með foreldrum sínum og fór kornungur að róa með föður sínum. Það var á bátnum Happasæl. Síðar gerðist Óskar vélstjóri og rær með Árna Finnbogasyni á Vin. 1940 kaupir Óskar part í Tjaldi og hafði formennsku á honum í 10 ár. Sótti fast sjó og aflaði vel.
Eftir að hann seldi Tjald réðist hann á Guðrúnu, liðlega 50 tonna bát. Hafði hann formennsku á henni í 3 ár. Óskar var þá aflakóngur allar vertíðirnar í röð. Setti hann met í aflamagni, því aldrei fram að því hafði annar eins afli komið upp úr einum bát, og hjá Óskari. Hann fór ekki troðnar slóðir, fiskaði sjálfstætt og sýndi mikla kunnáttu og lag í sjómennsku sinni.
Áfram er Óskar með Guðrúnu 1953. En 23. febrúar ferst Guðrún og Óskar með henni við fimmta mann. Óskars verður minnst alla tíð, sem einhvers allra mesta afla- og kraftmanns við sjó, er verið hefur í Vestmannaeyjum.
Óskar lét eftir sig eiginkonu og dóttur.
Hann hvílir í Vestmannaeyjakirkjugarði.
Guðni Rósmundsson, stýrimaður, var fæddur í Hlaðbæ í Vestmannaeyjum 26. nóvember 1926. Guðni ólst upp hjá móður sinni með tveimur systkinum og fór snemma að vinna til að létta undir á heimilinu. Hóf hann sjómennsku þegar eftir fermingu og varð hún aðalstarf hans til æfiloka. Guðni hóf sjómannsferil sinn á vélbátum, en var um skeið á togurum, fyrst á b.v. Helgafelli og síðar á b.v. Elliðaey. Síðast var hann stýrimaður á vélbátnum Guðrúnu VE 163.
Guðni lét eftir sig eiginkonu og tvö börn.
Hann hvílir í Vestmannaeyjakirkjugarði.
Sigþór Jón Guðnason, háseti, var fæddur á Siglufirði 16. apríl 1925 og hafði flutt frá Siglufirði til Vestmannaeyja.
Sigþór lét eftir sig eiginkonu.
Hann hvílir í votri gröf.
Elís Hinriksson, háseti, var fæddur á Fáskrúðsfirði 20. apríl 1919 en hafði búið í Vestmannaeyjum í eitt ár ásamt fjölskyldu sinni, þegar hann lést. Hann vandist snemma sjómennskunni og var hinn dugmesti og traustasti í því starfi. Hann var jafnan æðrulaus, og mjög var hann dagfarsprúður og stilltur í framkomu.
Elís lét eftir sig eiginkonu og dóttur.
Hann hvílir í votri gröf.
Kristinn Jensen Aðalsteinsson , matsveinn, var fæddur að Bakkakoti í Austur-Húnavatnssýslu 21. desember 1929. Kornungur fluttist hann til Reykjavíkur með foreldrum sínum og ólst þar upp til fullorðinsára eða allt þar til hann fluttist til Vestmannaeyja með konu sinni, ári áður en hann lést. Settust þau að í Laugardal hjá tengdaforeldrum hans.
Kristinn hóf sjómennsku sem annar matsveinn á togara 13 ára gamall og stundaði sjóinn alltaf eftir það. 15 ára gamall sigldi hann eina ferð til Englands fyrsti matsveinn og munu fáir hafa gegnt því starfi svo ungir. Eftir það stundaði hann sjómennsku á togurum, flutningaskipum og vélbátum til æviloka. Síðast var hann matsveinn á vélbátnum Guðrúnu hjá mági sínum Óskari Eyjólfssyni.
Kristinn lét eftir sig eiginkonu og þrjú börn.
Hann hvílir í Vestmannaeyjakirkjugarði.
Þeir sem komust af voru:
Sveinbjörn Hjálmarsson, vélstjóri.
Jón Björnsson, háseti.
Bergþór Reynir Böðvarsson, háseti.
Hafsteinn Júlíusson, háseti.
Heimildir:
Alþýðublaðið 19.05.1953, s. 2
Eyjablaðið 26.02.1953, s. 1
Eyjafréttir 27.02.2003, s. 8-9
Eyjafréttir 08.07.2015, s. 15
Fálkinn 27.03.1953, s. 3
Fylkir 27.03.1953, s. 1-3
Fylkir 10.04.1953 s. 1
Sjómannablaðið Víkingur 01.02.1967, s. 58-59
Tíminn 24.02.1953, s. 1
Þjóðviljinn 24.02.1953, s. 1
Þjóðviljinn 21.03.1953, s. 12