Grindvíkingur GK 39 var eikarbátur, smíðaður á Akranesi árið 1947. Var hann 66 smálestir, með 200 hestafla Lister dísel vél, og var hann stærsti báturinn í Grindavík á þessum tíma. Eigandi Grindvíkings var hlutafélagið Ingólfur í Grindavík.
Föstudaginn 18. janúar 1952 voru allir bátar úr Grindavík á sjó, þegar það skall á hið versta veður. Þeir bátar sem komust í höfn, komu að landi milli klukkan fjögur og hálf sjö, og þegar þeir síðustu komu inn var orðið ófært að sjá innsiglinguna fyrir hríð.
Um sjöleytið sást til Grindvíkings á innsiglingarleiðinni við Þórkötlustaðanesið, í um tveggja kílómetra fjarlægð frá höfninni. Nokkru síðar sást að kveikt hafði verið bál á þilfarinu. Þrátt fyrir versta veður og ófærð, brást björgunarsveit staðarins skjótt við, því að auðsætt var að báturinn var í nauðum staddur. Var reynt að fara með tveimur bílum út á nesið en vegna ófærðar komst ekki nema annar bíllinn eins langt og vegurinn náði út á nesið, en svo tók við stórgert hraun sem björgunarsveitin fór yfir fótgangandi.
Þegar menn komu út í nesið, var ekkert að sjá nema myrkur og dimmviðri, ekkert bál og ekkert skip, enda sást varla út úr augum. Um miðnætti tók að reka úr Grindvíkingi og varð ljóst að báturinn hafði brotnað í spón, enda er þetta mjög slæmur staður að stranda á, háir klettahryggir og djúpar gjótur þar á milli.
Enginn veit hvernig það atvikaðist að Grindvíkingur fórst. Báturinn var enn að draga línu sína, þegar vélbáturinn Búi, sem átti línu sína í námunda við hann, fór heim á leið um klukkan 3 á föstudeginum. Mun Grindvíkingur þá hafa átt talsvert ódregið af sinni línu. Talstöð Grindvíkings mun hafa verið í ólagi, enda heyrðist aldrei til hans.
Með Grindvíkingi GK 39 fórust fimm ungir menn á aldrinum 23 til 37. Voru fjórir þeirra Grindvíkingar en sá fimmti úr Árneshreppi. Lík þeirra félaga allra rak nokkru síðar.
Minningarguðsþjónusta og jarðarför Grindvíkinganna fjögurra fór fram 29. janúar 1952. Litla kirkjan hefði þurft að vera 4-5 sinnum stærri til að rúma alla kirkjugestina. Biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurgeir Sigurðsson og sóknarpresturinn, Jón Árni Sigurðsson, þjónuðu í kirkju. Gjallarhorn voru utan kirkju og sjómenn stóðu heiðursvörð bæði við kirkju og í kirkjugarði.
Þeir félagar voru allir lagðir í eina gröf, þá fyrstu sem tekin var í nýjum hluta kirkjugarðsins að Stað í Grindavík, sem biskup vígði. Talið er að bílalest þeirra sem fylgdu til kirkjugarðs, hafi verið á annan kílómeter að lengd og gefur það hugmynd um fjölmennið, sem aldrei áður hafði orðið jafn mikið við jarðarför í Grindavík.
Lík hins fimmta, Valgeirs Valgeirssonar, var flutt norður í heimasveit hans, Árneshrepp, og jarðsett í Árneskirkjugarði þann 4. febrúar. Fjölmenni var viðstatt jarðarförina, 130-140 manns, og mikið barst af samúðarskeytum frá þeim sem ekki gátu tekið þátt en til hans þekktu.
Þeir sem fórust voru:
Jóhann Magnússon, 24 ára, skipstjóri til heimilis í Grindavík.
Jóhann fæddist þann 20. júlí 1927 að Tungu í Tálknafirði. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Guðmundsson (1878-1930) og Guðrún Guðmundsdóttir (1883-1942), var Jóhann einn 18 barna þeirra. Á unga aldri fluttist Jóhann til Grindavíkur með bróður sínum, Sigurði, og átti þar heima síðan. Líktist Jóhann að því frændum sínum vestra, að hugur hans hneigðist snemma að sjónum, enda varð hann brátt dugandi sjómaður og það varð hans lífsstarf meðan aldur entist. Árið 1949 lauk Jóhann fiskimannaprófi frá Sjómannaskólanum og varð strax næstu vetrarvertíð skipstjóri á mb. Bjargþór úr Grindavík. Við skipstjórn á Grindvíkingi tók hann áramótin áður en Grindvíkingur fórst.
Jóhann eignaðist soninn Guðmund Jóhannsson (1950-2018) með Ragnheiði Guðmundsdóttur (1926-2009).
Jóhann hvílir í kirkjugarðinum að Stað í Grindavík.
Þorvaldur Jón Kristjánsson, 25 ára, stýrimaður til heimilis í Grindavík.
Þorvaldur Jón fæddist þann 8. mars 1926 í Svalvogum í Þingeyrarhr., V-Ís. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Þorvaldsson (1894-1937) og Kristín Guðmundsdóttir (1897-1937). Þorvaldur Jón var elstur þriggja systkina. Hann fluttist kornungur til Grindavíkur með foreldrum sínum. Þegar hann var ellefu ára létust foreldrar hans með stuttu millibili og voru þau jörðuð í sömu gröfinni. Eftir foreldramissinn naut Þorvaldur Jón fósturs og umhyggju afa síns og ömmu sinnar, þar til hann rúmu ári fyrir andlát sitt, myndaði sitt eigið heimili að Múla í Grindavík, með konu sinni.
Þorvaldur Jón var kvæntur Fríðu Ingibjörgu Magnúsdóttur (1929-2024) og áttu þau tvö börn saman.
Þorvaldur Jón hvílir í kirkjugarðinum að Stað í Grindavík.
Guðmundur Hermann Kristinsson, 23 ára, vélstjóri til heimilis í Grindavík.
Hermann, eins og hann var kallaður, fæddist þann 21. ágúst 1928 í Brekku í Grindavík. Foreldrar hans voru Guðmundur Kristinn Jónsson (1894-1981) og Guðríður Pétursdóttir (1903-1980). Hermann var einn þriggja systkina, einkasonur foreldra sinna. Hann var enn í foreldrahúsum en hafði rúmum mánuði áður opinberað trúlofun sína með ungri stúlku úr byggðarlagðinu. Hermann og Þorvaldur stýrimaður voru systrasynir.
Hermann var barnlaus.
Hermann hvílir í kirkjugarðinum að Stað í Grindavík.
Sigfús Bergmann Árnason, 37 ára, háseti til heimilis í Grindavík.
Sigfús fæddist þann 8. nóvember 1914 að Garði í Grindavík. Foreldrar hans voru hjónin Árni Helgason (1879-1956) og Petrúnella Pétursdóttir (1890-1958). Sigfús var næstelstur 17 systkina. Strax og kraftar leyfðu, lá leið hans að sjónum og þangað hneigðist hugurinn óskiptur. Um nokkur ár var hann á ýmsum skipum íslenska flotans, stórum og smáum. Í byrjun vertíðarinnar hvarf hann aftur heim til átthaganna sem skipverji á Grindvíkingi. Þar sem Beggi, eins og hann var alltaf kallaður, var einu sinni kominn, hvort heldur var í starfi eða glöðum hópi góðra vina, stóð það rúm honum síðan alltaf opið.
Sigfús var ókvæntur og barnlaus.
Sigfús hvílir í kirkjugarðinum að Stað í Grindavík.
Valgeir Valgeirsson, 36 ára, háseti til heimilis að Árnesi í Árneshr., Strand.
Valgeir fæddist þann 1. janúar 1916 að Norðurfirði í Árneshr., Strand. Foreldrar hans voru Valgeir Jónsson (1868-1949) og Sesselja Gísladóttir (1875-1941). Valgeir ólst upp hjá foreldrum sínum í fjölmennum systkinahópi. Rösklega tvítugur að aldri fór hann í Bændaskólann á Hvanneyri og lauk þaðan námi. Eftir heimkomu úr bændaskólanum vann hann vor og haust á vegum Búnaðarfélags Árneshrepps og síðast hjá Jarðræktarsambandi Árneshrepps og þá með jarðvinnsluvélar félagsins. Valgeir var heilsteyptur og góður drengur sem öllum vildi gjöra gott.
Valgeir var ókvæntur og barnlaus.
Valgeir hvílir í Árneskirkjugarði.
Heimildir:
Alþýðublaðið 16.09.1952, s. 7
Faxi 01.01.1952, s. 9-10
Íslensk skip 1. bindi, s. 182
MBL 20.01.1952, s. 1
Sjómannablaðið Víkingur 01.02.1952, s. 5
Tíminn 13.02.1952, s. 1
Tíminn 20.01.1952, s. 1
Þjóðviljinn 22.01.1952, s. 7-8
Ægir 01.01.1952, s. 21