Mummi ÍS 366 var smíðaður úr eik árið 1946 og var 54 brúttólestir að stærð. Hafði hann áður verið í eigu Guðmundar Jónssonar frá Garði og hét þá Mummi GK 120. Þegar hann fórst gerði hf. Byr á Flateyri hann út.
Mummi fór frá Flateyri, í annan róður vertíðarinnar, kl. 7 laugardagsmorguninn 10. október 1964. Skipverjar höfðu síðast samband við land um talstöð kl. 12:30 sama dag, er þeir voru staddir um 9 sjómílur NV af Barða, sem er á nesinu milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Síðan heyrðist ekkert til bátsins og kl. hálf-tvö aðfaranótt sunnudags var Slysavarnarfélag Íslands beðið um aðstoð við að huga að bátnum. Mjög vont veður var þarna vestra, haugasjór og 10 vindstig.
Leitað var til Landhelgisgæslunnar og lagði varðskipið Óðinn af stað frá Ísafirði um fjögur um nóttina til leitar á þeim slóðum, þar sem líklegt þótti að báturinn væri. Sömuleiðis voru skip og bátar sem voru á svipuðum slóðum, beðin um að leita að honum. Um kl. 10 á sunnudagsmorgun fann Óðinn brak 11,7 sjómílur SV frá Kópanesi (milli Arnarfjarðar og Tálknafjarðar) og 8,3 sjómílur NV af Blakknesi (sunnan Patreksfjarðar), en það var talsvert sunnar en sá staður sem Mummi hafði verið þegar hann hafði síðast samband. Um leið og brakið fannst, sendi Landhelgisgæslan flugvél sína, SIF, á vettvang til þess að leita ef einhverjir skyldu hafa komist af í björgunarbát. Leitaði Sif mjög nákvæmlega á stóru svæði, og þegar tekið var að rökkva kl. 18, fannst gúmbátur með tveimur mönnum á reki því sem næst undan miðjum Breiðafirði, 22,5 sjómílur frá Látrabjargi.
Flugvélin hringsólaði síðan yfir bátnum meðan skip sem beðin höfðu verið um hjálp, sigldu á staðinn. Voru það breskir togarar, fjórir talsins, sem leituðu að bátnum með aðstoð flugvélarinnar. Kl. 20 kom togarinn Loch Milford að gúmbátnum og innbyrti mennina tvo sem reyndust vera af vb. Mumma. Breski togarinn hitti síðan Óðinn og þar voru mennirnir fluttir milli skipa. Fór Óðinn síðan til Flateyrar með mennina og kom þangað á þriðja tímanum aðfaranótt mánudags. Þess má geta að mennina mun hafa hrakið um 64 sjómílna vegalengd á um 30 tímum.
Veður var hið versta allan tímann. Leitarskilyrði voru og afar slæm og þótti vel af sér vikið hjá Óðinsmönnum að finna brakið og Sifjarmönnum að finna bátinn og vísa á hann.
Mennirnir tveir sem komust af voru:
Hannes Oddsson, skipstjóri 25 ára, kvæntur og barnlaus.
Olav Øyahals
, vélstjóri 26 ára, kvæntur og átti fjögur börn. Olav var Norðmaður en hafði átt heima á Íslandi síðustu 10 árin fyrir slysið, þar af 8 ár á Flateyri.
Samkvæmt Olav varð slysið klukkan hálf þrjú á laugardeginum er verið var að draga línuna, 9 mílur út af Barða. Þá skall skyndilega á skipinu straumhnútur sem lagði það á stjórnborðshliðina svo það var flatt í sjónum. Hann reyndi að komast að kistunni með gúmbátnum sem var á þaki skipsins en gat ekki losað hana. Svo hvolfdi bátnum og komust 5 skipverjar á kjöl, en einn komst að líkindum aldrei út úr lúkarnum. Þeim skolaði svo að segja strax af kili skipsins, og það sökk mjög skyndilega. Þeir svömluðu þarna fimm í sjónum, og 10-15 mínútum eftir að báturinn sökk kom kistan með gúmbátnum upp, en þá voru aðeins Olav og Hannes skipstjóri eftir. Þeir náðu gúmbátnum og eftir talsverðan barning tókst þeim að hjálpast að upp í hann. Var klukkan þá þrjú og hálftími liðinn frá slysinu. Þarna velktust þeir um í þrjátíu tíma þar til þeim var bjargað af Loch Milford.
Minningarathöfn um þá sem fórust með vélbátunum tveimur frá Flateyri, Mumma og Snæfelli – sem fórst deginum eftir að Mummi fórst, fór fram 24. október 1964 í Flateyrarkirkju. Hvert sæti var skipað í kirkjunni og mikill fjöldi stóð allt fram að dyrum.
Fjórir menn fórust með Mumma, þeir voru:
Pálmi Ólafur Guðmundsson, 57 ára, til heimilis á Flateyri.
Pálmi fæddist þann 11. ágúst 1907 að Látrum í Aðalvík, Sléttuhr., N-Ís. Foreldrar hans voru Guðmundur Pálmason (1878-1951) og Ketilríður Þorkelsdóttir (1875-1925). Pálmi ólst upp í stórum systkinahópi. Ungur að árum missti hann móður sína og byrjaði snemma að vinna fyrir sér því efni voru lítil, svo sem altíða var á þeim árum. Hugur unga sveinsins beindist snemma að sjónum og varð sjómennskan að mestu ævistarf hans þar til yfir lauk. Í fyrstu var hann á mótorbátum frá verstöðvum við Djúp og síðar um tíma á togurum. Pálmi var notalegur, hæglátur maður og hafði gaman af lestri bóka. Hann hafði yndi af harmonikkutónlist og spilaði sjálfur á harmonikku og munnhörpu. Hann var stríðinn en ljúfur og vann verk sín vel. Pálmi hafði verið ráðinn á annan bát en ætlaði aðeins tvo róðra á mb. Mumma í forföllum annars manns.
Pálmi kvæntist Þorstínu Jóhönnu Maríu Friðriksdóttur (1914-2008) árið 1944 og áttu þau sex börn saman. Jóhanna átti einn son fyrir:
- Ingólfur Magnús Ingólfsson (1936-1997).
- Mikkalína Arí Pálmadóttir (1944).
- Matthías Hrólfur Pálmason (1946).
- Guðmundur Pálmason (1947).
- Jóna Sigurlína Pálmadóttir (1949).
- Elísabet María Pálmadóttir (1952).
- Sigurveig Pálmadóttir (1954).
Pálmi hvílir í votri gröf en hans er minnst á legstein konu hans í Réttarholtskirkjugarði í Engidal á Ísafirði.
Þórir Jónsson, 41 árs, til heimilis á Flateyri.
Þórir fæddist þann 11. apríl 1923 á Flateyri. Foreldrar hans voru Jón Eyjólfsson (1880-1950) og Guðrún Arnbjarnardóttir (1892-1983). Þórir átti son með Guðrúnu Jónu Jónsdóttur (1923-2006):
- Jón Gunnar Þórisson (1946-2014).
Þórir hvílir í votri gröf.
Albert Martin Agnar Tausen, 59 ára, til heimilis á Flateyri.
Martin fæddist þann 24. apríl 1905 að Hovi í Færeyjum. Foreldrar hans voru Daniel Johan Frederik Tausen (1861-1921) og Elsebeth Susanne Hovgaard (1864-1907). Martin hafði verið búsettur á Flateyri síðustu 10 árin.
Martin hafði verið kvæntur Önnu Dortheu Thomasen (1905-1948) og áttu þau fimm börn saman:
- Lissy O. Hjelm (1929-1985).
- Tummas Rudolf Sjúrður Tausen (1926-2001).
- Jenny Dania Gøtuskeggi (1928-2010).
- Trygvi Martinson Tausen (1933).
- Hendrik Óli Tausen (1944).
Martin hvílir í votri gröf.
Hreinn Sigurvinsson, 18 ára, til heimilis hjá foreldrum sínum á Sæbóli á Ingjaldssandi í Mýrahreppi.
Hreinn fæddist þann 17. apríl 1946 á Flateyri. Foreldrar hans voru Sigurvin Guðmundsson (1917-2005) og Guðdís Jóna Guðmundsdóttir (1924-2004). Hreinn var elstur af fimm systkinum og ólst upp í foreldrahúsum. Hann var bráðþroska, mikill að vallarsýn og vörpulegur. Hann var góðlyndur og glaðlyndur og búinn miklum skapgæðum. Hann unni heimili sínu, foreldrum og systkinum og kom það meðal annars fram í margháttuðum stuðningi og tillitssemi eftir að hann fór að heiman, en sjómennskan og hafið áttu hug hans allan, og hann hafði, þótt ungur væri, verið á vertíð í Vestmannaeyjum og víðar.
Hreinn var ókvæntur og barnlaus.
Hreinn hvílir í votri gröf.
Heimildir:
Alþýðublaðið 13.10.1964, s. 1
Alþýðublaðið 11.11.1964, s. 5
Martin Tausen -sjól. í Íslandi
MBL 13.10.1964, s. 1, 12
MBL 19.11.1964, s. 16
https://mittfolk.wordpress.com/
Sjómannablaðið Víkingur 01.12.1964, s. 247
Sjómannablaðið Víkingur 01.03.2009, s. 22
Vesturland 10.11.1964, s. 1
Vísir 12.10.1964, s. 1